29 ágúst, 2011

Thailenskt massaman-karrí

Þessi réttur er ekki síðri en massaman-karríið sem fæst á thailenskum veitingastöðum í Reykjavík. Ég lærði að elda hann af thailenskum kokki á matreiðslunámskeiði sem ég fór á hjá Asian Market á Suðurlandsbrautinni fyrir nokkrum árum.

Sósan er bragðmikil en ekki sterk. Hún er líka þunn, reyndar svo þunn að ef maður sker kjúklinginn í munnbita (notar þá bringur) væri vel hægt að bera hana fram sem súpu.

Fyrir: 4

Efni:
1. umferð:
500 gr. kjúklingabitar með beini (ca. 1/2 kjúklingur). Einnig má nota skinn- og beinlausa bita, en þá verður sósan ekki eins bragðmikil
1 msk. massaman karrímauk (fæst í Vietnam Market á Suðurlandsbrautinni (við hliðina á Nings))
1 1/2 bolli kókoshnetumjólk


2. umferð:
4 bollar kókoshnetumjólk
1 bolli vatn

3. umferð:
1/2 bolli fisksósa – kokkurinn mælti sérstaklega með Squid-tegundinni
1/2 bolli pálmasykur (fæst í Vietnam Market)
1 1/2 bolli jarðhnetur, heilar og ósaltaðar (má nota möndlur eða kasjú-hnetur í staðinn)
1/2 bolli jarðhnetur, fínsaxaðar eða malaðar (má nota möndlur eða kasjú-hnetur í staðinn)
1/2 bolli tamarind-vatn*
2 bollar saxaður laukur (um 2 meðalstórir laukar)
12 litlar kartöflur, soðnar, kældar og skrældar og skornar í munnbita (það má vel nota þær hráar, en þá er þeim bætt út í lok 1. umferðar þegar búið er að brúna kjúklinginn)
3-4 lárviðarlauf

*Tamarind-vatn: Hellið 1/2 bolla af sjóðandi vatni yfir 25. gr af tamarind-mauki (Tamarind Paste - fæst í Vietnam Market) og látið standa í 5-10 mín. Pikkið þá maukið í sundur með skeið og kreistið safann úr því (ef gert úr mjög þykku mauki). Hendið maukinu og síið vökvann fyrir notkun (ef maukið er tiltölulega þunnt og engin fræ, kekkir eða hýði í því má allt fara með). Thailenski kokkurinn sagði að tamarind-vatn sem fæst tilbúið á flöskum gefi ekki rétt bragð.

Aðferð:
Sjóðið 1 1/2 bolla af kókoshnetumjólk við meðalhita á djúpri pönnu eða í víðum potti þar til hún skilur sig og olían flýtur upp. Setjið þá karrímaukið saman við, hrærið vel saman og eldið í 3-4 mín.

Hækkið hitann, setjið kjúklinginn út í og hræristeikið í 2-3 mín. til að brúna kjúklinginn. (Nú eru kartöflurnar settar saman við ef þær eru hráar).

Setjið 2 bolla af kókoshnetumjólk saman við ásamt vatninu og hrærið vel saman.

Látið sjóða, lækkið hitann og setjið því næst út í jarðhneturnar, pálmasykurinn, fisksósuna, tamarind-vatnið og lárviðarlaufin og látið malla í 10-15 mín.

Setjið þá kartöflurnar saman við (ef notaðar eru soðnar kartöflur) ásamt lauknum og sjóðið við lágan hita í 5-10 mín. Gætið þess að laukurinn á að vera örlítið brakandi undir tönn þegar karríið er borið fram.

Smakkið til undir lokin með pálmasykri ef karríið er ekki nógu sætt.

Berið fram með jasmínuhrísgrjónum og fersku salati.

Massaman er stundum stafsett matsaman. Orðið mun þýða múslími á thailensku.