10 júní, 2012

Lambalæri að grískum hætti

Mjög gott!

Matreiðslubók: All Around the World Cookbook. Höfundur: Sheila Lukins.
Fyrir: 8

Efni:
1 lambslæri með beini, c.a. 3 kíló
4 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
2 msk. ólífuolía
1 msk. þurrkað óreganó (bergminta)
1 msk. grófmalaður svartur pipar
1 bolli þurrt hvítvín
Salt

Aðferð:
Hitið ofninn í 200 °C.

Þerrið lærið og fituhreinsið ef þarf. Stingið hér og þar í lærið með hníf og hafið stungurnar nokkuð djúpar. Stingið hvítlaukssneiðunum ofan í stungurnar. Blandið saman óreganó og pipar og nuddið allt lærið með blöndunni.

Setjið kjötið í steikarfat og hellið víninu í fatið. Setjið inn í heitan ofninn og lækkið hitann niður í 175 °C og steikið, í lokuðu fati, í um 90 mín. fyrir kjöt sem á að vera bleikt í miðjunni. Ausið af og til soði yfir kjötið. Ef notaður er kjöthitamælir á hann að sýna 60 °C. Ef kjötið á að vera meira steikt er hægt að fara eftir leiðbeiningunum með kjöthitamælinum eða láta kjötið steikjast í 30 mín. til viðbótar.

Takið lærið út og látið það standa í 10 mín. áður en það er borið fram. Síið soðið úr fatinu, fleytið fitunni ofan af og berið fram með kjötinu.