16 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Rabarbaragrautur

Rabarbari er eðalmatur og til margs nytsamlegur, hvort sem er í hversdagsrétti, sultur og mauk eða eftirrétti og bakstur. Hér er uppskrift að gamaldags rabarbaragraut.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 2-3 sem aðalréttur, 5-6 sem forréttur.

Efni:
200 g rabarbari
1/2 lítri vatn
1 dl sykur
3 msk kartöflumjöl (má nota maísmjöl (cornflour) í staðinn)
1 dl kalt vatn

Aðferð:
Þvoið rabarbaraleggina. Setjið vatnið í pott og brytjið rabarbarann niður í litla bita og setjið jafnóðum út í vatnið. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og mallið þar til rabarbarabitarnir eru komnir í mauk. Látið sykurinn saman við.

Hrærið kartöflumjölið út í köldu vatni í kekkjalausan jafning. Takið pottinn af hitanum og hellið jafningnum saman við í mjórri buni og hrærið stöðugt í á meðan. Setjið aftur á helluna og látið suðuna koma upp.

Takið aftur af hitanum og hellið grautnum í skál og stráið ögn af sykri yfir til að koma í veg fyrir að himna myndist ofan á grautnum.
Berið fram volgt eða kalt, með rjóma eða rjómablandi.

Ath. Rabarbarinn missir lit ef lokið er haft alveg ofan á pottinum á meðan grauturinn er soðinn.
Ef grauturinn þykir óaðlaðandi grænn á lit má setja nokkra dropa af rauðum matarlit saman við til að fá „réttan“ rabarbaralit á hann.