16 desember, 2012

Sjóræningjakaka (Ávaxtakaka, Skosk jólakaka)

Það er orðið helst til seint að birta þessa uppskrift fyrir þessi jól, en það þarf ekki endilega bara að baka hana fyrir jólin.

Þetta er gömul skosk uppskrift. Á mínu heimili er hún kennd við sjóræningja, enda nota ég Captain Morgan romm í hana. Þetta er dýr kaka – ég held að efnið hafi kostað hátt í 4.000 kr. fyrir þessi jól – en vel þess virði því þetta er besta ávaxtakaka sem ég hef smakkað. Meira að segja fólki sem venjulega er ekki hrifið af ávaxtakökum þykir hún góð.

Athugið að það þarf ekki endilega að nota nákvæmlega þá ávexti sem gefnir eru í uppskriftinni. Það er fjölbreytnin og magnið sem skiptir mestu máli. Ef eitthvað finnst ekki hikið þá ekki við að nota eitthvað annað í staðinn. Gætið þess bara að það séu þurrkaðir eða sykraðir ávextir eða ávextir í sykurlegi – venjulegir niðursoðnir ávextir ganga ekki og ekki heldur ferskir ávextir. Ég gef upp í uppskriftinni það sem ég notaði í staðinn fyrir það sem ég fann ekki þegar ég bakaði kökuna síðast, en hikið ekki við að nota t.d. döðlur, þurrkuð epli, þurrkað mangó eða sveskjur. Ég ímynda mér að það hljóti líka að vera gott að nota möndlur eða pistasíur.

Í sambandi við bökunarhitann: EKKI hækka hann til að reyna að stytta bökunartímann, kakan brennur þá bara.

Í fyllinguna:
  1. 2 1/2 bolli ljósar rúsínur (u.þ.b. 340 g.). Hér gafst ég upp á leitinni og notaði í staðinn þurrkuð trönuber og þurrkaðar apríkósur og gráfíkjur sem ég saxaði niður í bita á stærð við rúsínur.
  2. 2 bollar dökkar rúsínur (u.þ.b. 255 g)
  3. 1 3/4 bolli kúrenur (u.þ.b. 225g).
  4. 1 3/4 bolli saxaðir sykurlegnir ávextir (s.s. rauð kokkteilkirsuber, ananas og apríkósur). Hér notaði ég rauð og græn kokkteilkirsuber og súkkat, en það mætti t.d. nota blöndu af kokkteilkirsuberjum og sykraðan, þurrkaðan ananas.
  5. 3/4 bolli saxaður, sykraður appelsínubörkur. Sá sem fæst í Bónus er í réttri stærð og þarf ekki að saxa.
  6. 1/2 bolli vatn
  7. 1/2 bolli dökkt romm. Notið gott romm, t.d. Captain Morgan.
  8. 2 tsk rifinn appelsínubörkur (bara þetta appelsínugula)
  9. 2 tsk rifinn sítrónubörkur (bara þetta gula)
  10. 1 tsk Lyle's Golden Syrup eða ljóst melassasíróp
  11. 3/4 tsk matarsódi

Í deigið:
  • 2 bollar plús 2 msk hveiti (t.d. Kornax í rauðum poka)
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 250 g ósaltað smjör (þetta í græna bréfinu), við stofuhita
  • 1 1/2 bolli (þjappaður) dökkur púðursykur
  • 5 stór egg
  • 6 msk. dökkt romm

Hrærið fyrstu 6 innihaldsefnunum saman í stórum potti. Bætið við 1/2 bolla af rommi. Látið suðuna koma upp við meðalhita og hrærið oft í á meðan. Takið pottinn af hellunni þegar vökvinn sýður og hrærið appelsínu- og sítrónuberkinum saman við ásamt sírópinu og matarsódanum. Látið standa þar til ávextirnir hafa dregið í sig allan vökvann, u.þ.b. 1-2 klukkutíma. Hrærið oft í á meðan.

Hitið ofninn í 160 °C (blástursofn: 150 °C). Takið springform sem er 25 cm í þvermál og smyrjið vel að innan. Hyljið botninn og hliðarnar með bökunarpappír (best að klippa hring sem er aðeins stærri en botninn og síðan ræmu sem nær hringinn innan í hliðunum og láta skarast). Smyrjið bökunarpappírinn.

Sigtið hveitið, lyftiduftið og saltið saman í skál. Hrærið saman smjöri og sykri í hrærivélarskál þar til létt og ljóst. Hrærið eggjunum saman við einu í einu og blandið vel á milli. Setjið hveitið saman við og hrærið þar til soppan er rétt blönduð. Kakan verður seig ef soppan er hrærð of lengi eftir að hveitið kemur saman við. Blandið nú ávaxtablöndunni saman við með handafli. Hellið í formið og jafnið út. Lokið forminu vel með álpappír.

Bakið kökuna í 2 klst. Lækkið þá hitann í 135 °C (125 °C) og bakið áfram þar til prjónn sem er stungið í kökuna miðja kemur út hreinn en örlítið rakur. Þetta á að taka um 30 mínútur, en getur tekið allt að klukkutíma. Á þessu stigi þarf að hafa góðar gætur á kökunni því þarna er hættan á að hún brenni mest.

Þegar kakan er bökuð, takið hana út og setjið á kökurekka og takið álpappírinn ofan af. Pikkið kökuna rækilega með grillteini og stingið djúpt niður í hana. Dreypið 6 msk af rommi smám saman yfir allt yfirborð kökunnar. Það er fullkomnlega eðlilegt ef það snarkar í kökunni.

Látið nú kökuna kólna alveg í forminu. Rennið hníf eða pönnukökuspaða meðfram hliðunum til að losa kökuna og takið síðan hliðarnar af forminu. Takið kökuna upp af botninum og látið bökunarpappírinn vera á henni. Pakkið þétt inn í álpappír og geymið í kæli.

Best er að geyma kökuna og leyfa henni að þroskast í a.m.k. hálfan mánuð, og vökva hana með c.a. 1/3 bolla af rommi á viku fresti. Takið bökunarpappírinn af og látið hana standa og ná stofuhita áður en hún er borin fram.

Svona köku er gott að bera fram með harðri sósu og/eða þeyttum rjóma, allt eftir smekk. Sósan dregur fram bragðið, rjóminn mildar það. Ég mæli með að láta hvern og einn um að skammta sér sósu/rjóma, því sumum finnst kakan best eins og hún kemur fyrir.

Harða sósan er kölluð „hörð“ af því að hún inniheldur áfengi. Án þess er þetta bara venjulegt smjörkrem.

Hörð sósa:
1/2 bolli smjör, mjúkt
1 1/2 bolli flórsykur
2 msk romm (óáfeng: notið 1 tsk af vanilludropum í staðinn fyrir rommið)

Hrærið saman sykur og smjör þar til létt og ljóst. Hrærið rommi/vanilludropum saman við. Berið fram við stofuhita.