Efni í súkkulaðiköku:
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
2-3 msk kakóduft (eða meira, eftir smekk)
2 tsk lyftiduft
2 egg
1 til 1,5 bolli mjólk (eftir þörf)
150 g smjörlíki, brætt
1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Þurrefnunum blandað saman og eggjunum og 1 bolla af mjólk hellt saman við. Smjörlíkinu hellt saman við um leið og hrærivélin er sett af stað. Hrært vel saman - ég mæli með að nota þeytarann en ekki hrærarann til að fá léttara deig. Mjólk bætt við ef þarf. Soppan á að vera tiltölulega þykk en nógu þunn til að renna samfellt úr skálinni. Hellt í ofnskúffu.
Bakað við 175 °C (160 °C í blástursofni) í 20-30 mínútur. Kælt og kakóglassúr jafnað yfir. (Ég nota aldrei uppskrift þegar ég geri glassúr, en þessi hljómar vel). Ef það á að setja nammi á kökuna, t.d. Smarties, er best að bíða þar til efsta yfirborð glassúrsins er orðið þurrt og raða þá namminu ofan á.
Tilbrigði:
- Hvít kaka: Sleppið kakóinu og setjið 1,5 tsk af vanilludropum saman við deigið. Notið kakóglassúr.
- Sítrónukaka: Sleppið kakóinu og vanilludropunum og setjið 2 tsk af sítrónudropum út í deigið. Búið til hvítan glassúr, bætið nokkrum dropum af gulum matarlit saman við og ca. 1/2 tsk af sítrónudropum eða 1 msk af sítrónusafa.
- Kanilkaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en kanilsykri stráð yfir soppuna áður en hún fer í ofninn. Til að gera kanilsykur: Blandið saman ca 1 dl af strásykri og 1 tsk af kanildufti og hrærið vel.
- Eplakaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en eplasneiðum raðað ofan á soppuna og kanilsykri stráð yfir áður en hún fer í ofninn.