23 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Pottréttur

Þessi pottréttur, sem ætti skilið að heita eitthvað meira en bara „pottréttur“ var vinsæll á heimilinu þegar ég var unglingur.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4

Efni:
400 g beinlaust nautakjöt eða hvalkjöt (mamma notaði reyndar oftast annað hvort lamba- eða folaldakjöt, sem eru bæði mjög góð í þennan rétt)
1 stór eða 2 litlir laukar
50 g smjör/smjörlíki eða 3 msk matarolía
1 hvítlauksrif
1 paprika, rauð eða græn
3 dl vatn
1/2 dl tómatsósa
1 tsk salt
1 dl sýrður rjómi

Aðferð:
Hreinsið kjötið vel og þerrið. Skerið í munnbita. Flysjið laukinn og fínsaxið ásamt hvítlauknum. Kjarnhreinsið paprikuna og skerið hana í þunnar sneiðar.

Hitið feitina á pönnu og brúnið kjötið og setjið það í pott. Brúnið laukinn og setjið ofan á kjötið og hellið vatninu yfir ásamt tómatsósu, salti, rjóma og paprikusneiðunum. Sjóðið undir loki við lágan hita í 40-50 mínútur.

Tillaga að meðlæti: soðin hrísgrjón, maísbaunir og snittubrauð.