27 nóvember, 2011

Appelsínu-saffrankaka

Þessi kaka verður fallega heiðgul, þétt í sér og með ljúfu appelsínubragði og votti af saffrankeimi. Hún er góð tilbreyting frá rjómatertum og súkkulaðikökum.

Fyrir 8.
Tími:

Innihald:
1 bolli nýkreistur appelsínusafi (ekki þessi á flöskunum!)
1 msk. fínrifinn appelsínubörkur (bara appelsínuguli parturinn)
1/4 tsk. saffranþræðir
3 egg
155 gr. (1 1/4 bolli) flórsykur
250 g (2 bollar) hveiti
3 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
370 g (3 2/3 bollar) möndlumjöl (gæti þurft að búa það til – þá eru möndlurnar fínhakkaðar í matvinnsluvél. Mjölið þarf ekki að vera eins fíngert og hveiti)
125 g ósaltað smjör, brætt (ef ekki er til ósaltað smjör á heimilinu, notið þá saltað smjör og sleppið uppgefna saltinu í uppskriftinni)
Flórsykur til að strá yfir kökuna
Þeytirjómi

Hitið ofninn í 180 °C (160 °C fyrir blástursofn).

Léttsmyrjið 22 cm springform og setjið bökunarpappír í botninn [ég bakaði tvær kökur úr uppskriftinni, í 20 cm formi undan ostaköku og öðru 18 cm formi, sem bendir til að megi nota stærra form en 22 cm]. Blandið saman appelsínusafa, appelsínuberki og saffrani í potti og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og mallið í 1 mín. Takið af hellunni og látið kólna.

Þeytið saman egg og flórsykur þar til létt og ljóst. Blandið saman við sigtuðu hveitinu, möndlumjölinu, appelsínusafanum og smjörinu og blandið saman þannig að deigið verði  samfellt en hrærið eins stutt og hægt er (kakan getur orðið seig ef hún er hrærð of lengi). Jafnið í bökunarformið.

Bakið í eina klukkustund eða þar til prjónn sem er stungið inn í miðja kökuna kemur út hreinn [prófið eftir 45 mín. ef notuð eru minni form - það tók mínar þann tíma að bakast við 160 °C í blástursofni, enda formin minni]. Takið út og látið kólna í forminu í um 15 mín. Takið þá kökuna úr forminu og setjið á grind til að kólna alveg. Sigtið ögn af flórsykri yfir áður en kakan er borin fram og berið fram með þeyttum rjóma.