28 ágúst, 2016

Fylltar kjúklingabringur

Ég er búin að vera að fikra mig áfram með þessa uppskrift. Mér datt fyrst í hug að nota gráðost í hana, en þegar til kom að prófa hugmyndina átti ég hann ekki til og nennti ekki út í búð eftir honum og greip í staðinn bita af Pecorino Romano-osti. Pecorino Romano er ítalskur sauðaostur sem minnir á Parmigiano-Reggiano-ost (Parmesan), og reyndar má nota hann í staðinn fyrir Pecorino. Þetta reyndist snilldarráð og þegar ég prófaði uppskriftina svo seinna með gráðosti þá ákvað ég að hún væri betri með Pecorino en gráðostinum.

Fyrir tvo.

2 kjúklingabringur
--
8-10 döðlur, ferskar eða þurrkaðar, steinlausar, saxaðar í litla bita (það er auðveldara að saxa þær ef þær eru þurrkaðar)
2 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
6 litlar eða 4 stórar ræmur af beikoni, hverri skipt í 8 (litlar) eða 12 (stórar) bita
--
1 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
2 ræmur af beikoni, heilar (eða skipt í tvennt ef þær eru stórar)
--
kjúklingakrydd
salt og pipar
--
ca. 1 dl. hvítvín (þurrt eða hálfþurrt) EÐA vatn EÐA kjúklingasoð
--
trétannstönglar eða mjóir grillpinnar (eða sláturgarn)

Stillið ofninn á 180°C (blástursofn) eða 190°C (undir- og yfirhiti).

Takið kjúklingabringurnar og skerið inn í þær frá hlið til að búa til "vasa" í þeim miðjum. Hafið vasana eins stóra og hægt er án þess að skera í gegn og hafið gatið eins lítið og hægt er. Hérna er mynd sem sýnir tæknina. Líka er hægt að "fletja" bringurnar með buffhamri og rúlla fyllingunni innan í þær, en mér finnst það óþarfa aukavinna.

Blandið saman döðlunum, ostinum og beikoninu (þarf ekki að vera mjög vel blandað). Skiptið í tvennt og troðið varlega inn í kjúklingabringurnar. Ef eitthvað gengur af þá er því stráð í kringum bringurnar í ofnfatinu. Lokið bringunum með tannstöngli eða grillpinna, eða saumið saman með sláturgarni.

Kryddið bringurnar í bak og fyrir með salti, pipar og kjúklingakryddi og leggið í smurt ofnfast fat. Stráið yfir þær rifnum osti og leggið beikonræmur yfir.

Stingið inn í ofninn og bakið í 40 mínútur. Mjög þykkar bringur gætu þurft 5 mínútur til viðbótar.

Berið fram með hrísgrjónum eða kúskús, og fersku salati. Gott að drekka hvítvín með.

Tilbrigði:
  • virkar líka vel með skinku í stað beikons...
  • ...eða þurrkuðum apríkósum í stað daðlna
  • prófið aðra osta, t.d. ætla ég næst að prófa feta