30 nóvember, 2012

Kúmenkaka (Seed Cake)


Uppáhaldið hans Bilbó Baggins. Í alvöru. Í Hobbitanum minnist Tolkien sérstaklega á svona köku í frásögninni af dvergaveislunni heima hjá Bilbó. (Seed cake, fyrir þá sem hafa lesið hana á ensku)

Innihald:
240 g smjör, við stofuhita (látið mýkjast í ca. 40 mín.)
240 g strásykur, fíngerður
4 stór egg
320 g hveiti, sigtað
2 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk salt (ef notað er saltað smjör má sleppa saltinu)
4-6 msk mjólk eða kaffirjómi
2 msk demerara-sykur (grófur brúnn sykur)
30 g kúmenfræ
3 msk koníak
1 tsk múskat (duft) eða 1/2 tsk múskat og 1/2 tsk múskaðhýði (mace, einnig kallað múskatblóm eða masi – ef ykkur tekst að finna það hérna á Klakanum þá þigg ég gjarnan að fá að vita hvar, því ég er búin að leita í öllum helstu matvöruverslunum höfuðborgarsvæðisins og nokkrum úti á landi)

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 °C (170 °C ef þið eruð með blástursofn eins og minn sem ekki er hægt að taka blásturinn af).

Bökunarform: í upprunalegu uppskriftinni er gefið upp hringform, 18 cm í þvermál. Þetta getur ekki verið venjulegt grunnt form fyrir lagkökur heldur hlýtur það að vera djúpt springform, því að ég bakaði þessa stærð af uppskrift í tveimur lagkökuformum, öðru 18 cm og hinu 20 cm. Kakan er það bragðmikil að ég mæli ekki með að hafa hana þykka, og því er betra að nota tvö lagkökuform en eitt springform.

Ef þú átt ekki sílikon- eða teflonform, þá þarf að smyrja formin eða leggja bökunarpappír í botninn.

Setjið eggin í skál og þeytið lítillega til að blanda rauðum og hvítum vel saman. Setjið smjörið og strásykurinn í hrærivélarskál og hrærið vel saman þar til létt og ljóst. Blandið eggjahrærunni smám saman út í. Þegar egg, sykur og smjör eru vel blönduð, bætið þá við kúmenfræinu og kryddinu. Blandið síðan hveitinu varlega saman við með sleikju þar til það er rétt svo blandað. Kakan getur orðið seig ef þetta er gert í hrærivél og það er hrært of lengi. Þar að auki er deigið það þykkt að það er sóðalegt að nota hrærivélina, hversu varlega sem maður fer, því hveitið vill puðrast upp úr skálinni og út um allt.

Hrærið þvínæst koníakinu út í og loks mjólkinni eða rjómanum. Notið það magn sem þarf til að deigið nái þeirri þykkt sem þarf til að það detti af skeið þegar henni er hvolft. Ef það rennur, þá er það of þunnt. Jafnið í formið/formin og stráið demerara-sykrinum yfir (þar þarf að tvöfalda uppgefið magn ef notuð eru tvö form).

Bakið í miðjum ofni í 40 til 50 mínútur, eða þar til prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn. Kælið í forminu í 10 mínútur og takið þá úr og kælið á vírgrind. Kúmenkaka er best þegar hún hefur fengið einn eða tvo daga til að taka sig. Til þess er henni pakkað inn í álpappír eða bökunarpappír og sett í loftþétt ílát. Hún geymist í upp undir viku. Hún geymist líka vel í frosti.