02 október, 2016

Grjónagrautur með indverskum keim (kheer)

Ég bjó til þessa uppskrift þegar ég var að fikta í eldhúsinu og langaði í eftirrétt með indverskum keim og það var ekki fyrr en eftir á sem ég uppgötvaði að það er til indverskur eftirréttur, kheer, sem er í grunninn gerður nokkurn veginn með sömu aðferð og innihaldsefnum.

En Kheer er sem sagt indverska útgáfan af hinum klassíska hrísgrjónagraut. Hann er bragðbættur með kókosmjólk (þó reyndar sé notuð mjólk eða niðursoðin mjólk í sumum uppskriftum) og kardimommum og inniheldur þar að auki möndlur (þá kallaður badam kheer) og/eða pistasíur. Í sumum uppskriftum er líka rósavatn eða saffran og/eða rúsínur. Í ekta kheer eru notuð basmati-hrísgrjón eða önnur löng grjón, en ég nota stutt og feit Arboriogrjón (risotto-grjón) eða grautarhrísgrjón sem verða mjög rjómakennd við eldun.

Ég mæli með að nota kardimommurnar eftir smekk hvers og eins, enda mjög misjafnt hvort fólki þykir þær góðar.  Það er ágætt að byrja með 1/2 tsk. og fikra sig síðan áfram.

Fyrir 2:

4 dl vatn
½ tsk salt
2 dl Arborio, risotto eða grautarhrísgrjón (nú eða Basmati ef þú vilt gera ekta kheer)
2 dósir kókosmjólk
Kardimommuduft eftir smekk
Sykur eftir smekk
2 msk möndluflögur eða sama magn af fínsöxuðum pistasíum


Látið suðuna koma upp á vatninu. Saltið. Setjið grjónin saman við og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla undir loki þar til vatnið er að verða soðið upp. Bætið þá kókosmjólkinni smám saman út í (til að hitinn lækki ekki um of) og smakkið til með sykri og kardimommudufti. Látið síðan malla við lægsta hita sem hægt er að láta suðuna haldast við, þar til grauturinn er orðinn þykkur. Berið fram skreytt með möndluflögum eða pistasíukurli.