10 júní, 2011

Marinerað kartöflusalat

Þetta er ljúffengt salat sem er hægt að bera fram sem meðlæti með aðalrétti eða sem smárétt. Ég hef minnkað uppskriftina um helming frá því sem er í bókinni. Það er fínt að búa það til þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað, því í þessu salati eru þær borðaðar með hýðinu.

Matreiðslubók: The New Enchanted Broccoli Forest.

Fyrir 3-4.

Efni:
  • 7 nýjar kartöflur, ca. 6 cm í þvermál, óskrældar og skornar í teninga (ca. 2 cm á kant)
  • 1/2 bolli rauðvínsedik
  • 2,5 bollar vatn
  • 4 meðalstór hvítlauksrif, flysjuð og skorin í tvennt að endilöngu
  • 1 tsk salt
  • 1/2 bolli fínt sneiddur rauðlaukur
  • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aukalega, ef þið viljið:
  • sletta af góðri extra-virgin ólífuolíu
  • ögn af fínsaxaðri ferskri steinselju, basiliku og/eða graslauk
  • mjög fínsneidd rauð paprika

Til skrauts, ef þið viljið:
  • Niçoise ólífur
  • sneiddir kirsuberjatómatar

Aðferð:
Setjið kartöflur, edik, vatn, hvítlauk og salt í stóran pott. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann þannig að rétt mallar í vökvanum og sjóðið án loks þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar en ennþá fastar fyrir (ca. 15 mín.).

Hellið í sigti og látið vökvann renna af. Setjið í skál og hrærið rauðlauknum saman við á meðan kartöflurnar eru ennþá heitar. Smakkið til með piparnum. Látið kólna niður í stofuhita.

Ef þess er óskað má skvetta smávegis af góðri ólífuolíu yfir salatið áður en það er borið fram og hræra saman við það kryddjurtum og paprikusneiðum. Berið fram við stofuhita eða kalt, eins og það kemur fyrir eða skreytt með ólífum og/eða kirsuberjatómötum.

Tilbrigði:
Þetta salat er ennþá betra ef maður tekur lauk, sneiðir og steikir mjúkan og hrærir salatinu saman við og lætur það hitna í gegn. Höfundur bókarinnar mælir með því í morgunmat, en það er gott á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Því miður á ég ekki mynd af því, en set hana inn ef ég man eftir myndavélinni þegar ég bý það til næst.

07 júní, 2011

2 múffuafbrigði (muffins) - bláberja og banana/súkkulaði

Þetta eru bestu bláberjamúffur sem ég hef smakkað, og hitt tilbrigðið er ekki síður gott.

Bláberjauppskriftin er úr matreiðslubókinni The New Enchanted Broccoli Forest, en banana/súkkulaðitilbrigðið er mín uppfinning. Það varð til þegar ég sat eitt sinn uppi með einn svartan banana og langaði ekki í bananabrauð.




Tími: 10 mín. í undirbúning, 15-20 mín. að baka.
Magn: 12 stk

Efni:
1 1/2 bolli óbleikt hvítt hveiti (eða 1 b. hveiti og 1/2 brauðhveiti)
1/2 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. rifinn sítrónubörkur (bara það gula - má sleppa)
1/3 bolli sykur
4 msk. brætt smjör
3/4 bolli mjólk (má nota undanrennu)
1 egg
3 msk. nýkreistur sítrónusafi (eða bara þessi í flöskunum - ég finn a.m.k. engan mun)
1 bolli bláber (fersk eða ósykruð frosin, þarf ekki að afþýða)

Aðferð:
Hitið ofninn í 175 °C. Ef þarf að smyrja múffuformin eru þau smurð með smá smjöri eða olíu.

Sigtið saman hveitið, matarsódann, lyftiduftið og saltið í skál. Bætið við sítrónuberkinum og sykrinum og blandið vel. Gerið holu í miðja hrúguna.


Hrærið saman smjörinu, egginu og mjólkinni í annarri skál. Hellið í holuna í hveitiblöndunni og hrærið varlega saman við og bætið þá við sítrónusafanum (þetta er gert til að mjólkin ysti ekki) þar til rétt blandað, og bætið bláberjunum smám saman út í. Skiptið jafnt á milli 12 múffuforma (ég nota múffubakka úr Ikea og set pappírsform ofan í), eða notið fleiri ef formin eru lítil. Hvert form má ekki vera fyllra en að 2/3.

Bakið í 15 til 20 mín, eða þar til tannstöngull sem er stungið í miðja múffu kemur út hreinn. Takið strax úr forminu og kælið á grind í 10 mín. og berið fram volgar. Líka góðar kaldar. Geymast í 2-3 daga, helst á köldum stað. Má frysta.

Til að gera banana- og súkkulaðimúffur, sem eru hrikalega góðar, er uppskriftinni breytt á eftirfarandi hátt:

1. Smjörið minnkað niður í 2 msk. og sítrónuberkinum sleppt. 

2. Í staðinn fyrir bláber þarf einn banana, vel þroskaðan og 1/2 til 2/3 bolla af súkkulaðispæni eða súkkulaðidropum (þessum litlu sem eru ætlaðir í smákökur). Bananinn er stappaður vel og hrært saman við deigið ásamt súkkulaðinu.

3. Það gæti þurft að lengja bökunartímann um 5 mínútur eða svo, því að deigið verður aðeins blautara með banana. Prófið með prjóni eða tannstöngli þegar uppgefinn bökunartími er liðinn.

06 júní, 2011

Síðan skein sól og Rísandi sól: Frískandi sumardrykkir

Síðan skein sól:
Þetta er frískandi sumardrykkur sem minnir svolítið á Mix, en er bragðmeiri og ekki eins sætur. Mín eigin uppskrift (ekki að þetta sé eitthvað flókið...).
 
1 dl hreinn ananassafi
1 dl Sprite eða 7Up eða Sprite Zero eða 7Up Lite
Klaki
Hátt glas
Skraut: ananashringur, pappírssólhlíf, rör

Hellið ananassafanum í glasið, bætið gosinu við og síðast klakanum. Skerið í gegnum ananashringinn á einum stað og smeygið upp á glasbrúnina. Setjið sólhlífina á móti ananasnum í glasið, og bætið við rörinu.

Þennan drykk má vel blanda sem bollu, í hlutföllunum 1:1.

Rísandi sól:
Blandið saman ananssafa og gosi í sömu hlutföllum og í Síðan skein sól. Látið skot af grenadine-sýrópi renna niður hliðina á glasinu og setjast á botninn áður en klakinn fer í glasið. Bætið við klaka og skreytið.



05 júní, 2011

Matreiðslubók vikunnar: The New Enchanted Broccoli Forest

The New Enchanted Broccoli Forest eftir Mollie Katzen er grænmetisréttabók fyrir fólk sem neytir líka afurða af lifandi dýrum, s.s. mjólkurvöru og eggja.

Ég fékk hana á útsölu, ég held hjá Eymundsson, fyrir nokkrum árum síðan. 

Ég er rétt að byrja að elda úr henni, en hún er full af bókamerkjum við uppskriftir sem mér líst vel á. Fyrsta uppskriftin sem ég gerði úr henni er frábær uppskrift að bláberjamúffum sem allir sem á smakka vilja sníkja af mér, og hún er líka skemmtileg aflestrar og full af hollum og góðum grænmetisréttum.

Ef einhverjum finnst grænmetisfæði vera óspennandi, þá ætti viðkomandi að skoða þessa bók. Það eru kaflar um súpur, salöt, brauð, sósur og ídýfur, aðalrétti og eftirrétti, og margt af þessu er mjög spennandi.

Þetta er líka eiguleg og falleg bók, handskrifuð og fagurlega myndskreytt með teikningum höfundarins.