Fjallagrös (Cetraria islandica) eru gömul og góð mat- og lækningajurt. Þau voru (og eru enn að einhverju marki) notuð í slátur, brauð, seyði, grauta og síróp. Þau eru seðjandi og örva framleiðslu munnvatns og magasýrur og örva þannig matarlyst. Sem lækningajurt hafa þau verið notuð öldum saman við kvefi, nefrennsli, hálsbólgu og hósta.
Þessi uppskrift er að undirstöðu úr matreiðslubók mánaðarins, en með smá viðbótum sem reynslan hefur sýnt að skilar betri árangri en grunnuppskriftin.
Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4
Efni:
7 1/2 dl mjólk
1 hnefi hreinsuð fjallagrös (fást í heilsubúðum)
1-2 msk púðursykur (eða demerara-sykur)
1/2 tsk salt
Aðferð:
Skolið grösin upp úr köldu vatni og saxið þau gróft.
Hitið mjólkina upp að suðu og látið grösin út í. Lækkið hitann og sjóðið við meðalhita í 2-3 mínútur. Bætið þá við salti og sykri, látið leysast upp og berið fram heitt.