04 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Fjallagrasamjólk

Fjallagrös (Cetraria islandica) eru gömul og góð mat- og lækningajurt. Þau voru (og eru enn að einhverju marki) notuð í slátur, brauð, seyði, grauta og síróp. Þau eru seðjandi og örva framleiðslu munnvatns og magasýrur og örva þannig matarlyst. Sem lækningajurt hafa þau verið notuð öldum saman við kvefi, nefrennsli, hálsbólgu og hósta.

Þessi uppskrift er að undirstöðu úr matreiðslubók mánaðarins, en með smá viðbótum sem reynslan hefur sýnt að skilar betri árangri en grunnuppskriftin.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4

Efni:
7 1/2 dl mjólk
1 hnefi hreinsuð fjallagrös (fást í heilsubúðum)
1-2 msk púðursykur (eða demerara-sykur)
1/2 tsk salt

Aðferð:
Skolið grösin upp úr köldu vatni og saxið þau gróft.
Hitið mjólkina upp að suðu og látið grösin út í. Lækkið hitann og sjóðið við meðalhita í 2-3 mínútur. Bætið þá við salti og sykri, látið leysast upp og berið fram heitt.

02 janúar, 2012

Matreiðslubók mánaðarins: Unga fólkið og eldhússtörfin

Þessi er örugglega til á mörgum íslenskum heimilum:

Nýja
Unga fólkið og eldhússtörfin eftir Vilborgu Björnsdóttur og Þorgerði Þorgeirsdóttur. Hún kom fyrst út árið 1967, þá undir titlinum Unga stúlkan og eldhússtörfin, en með tilkomu feminisma og matreiðslukennslu fyrir stráka breyttist titillinn til jafnréttisvegar.

Þessi bók var notuð til kennslu í heimilisfræðum í mörgum skólum um árabil, enda fjallar hún ekki bara um matargerð heldur líka um heimilishald, t.d. þvotta og hreingerningar.

Þetta er fyrsta matreiðslubókin sem ég eignaðist, en langt frá því að vera sú elsta í safninu. 

 
Gamla

Ég á reyndar líka eintak af þeirri gömlu, og nota hana, því að mamma heldur þeirri nýju í gíslingu og neitar að skila henni, enda notar hún hana mikið.

Uppskriftirnar í henni eru til þess gerðar að kenna krökkum undirstöðu í matargerð, og því eru kaflar um steikingu, suðu, bakstur með mismunandi tegundum deigs, og svo framvegis. Þetta eru einfaldar og góðar uppskriftir að heimilismat sem eru auðveldar í notkun og því er þetta tilvalin bók fyrir þá sem eru að hefja heimilishald. Það er nefnilega ekki hægt að stóla á að maður geti hvar sem er fundið leiðbeiningar um það hvernig á að búa til kartöflumús eða lummur, hvað þá hvernig eigi að strauja skyrtur eða leggja á borð fyrir fimm rétta máltíðir.