10 október, 2011

Biscotti með möndlum, kardimommum og appelsínukeim

Biscotti er ítalskt orð sem þýðir „tvíbakaður”, en Ítalir nota þetta orð yfir allar smákökur. Það er bara utan Ítalíu sem þetta orð er notað yfir tvíbakað sætabrauð eins og það sem hér er fjallað um. Ítalir kalla þessar tvíbökur biscotti di Prato, cantoucchi eða cantoucchini.

Ég er nokkuð viss um að þegar J.R.R. Tolkien skrifaði um lembas var það með svona tvíbökur í huga en ekki skonrok.

Þessar biscotti eru mjög góðar, með mildu appelsínubragði og votti af kardimommum.

Gerir um 40 stk.

Innihald:
2 egg
155 gr. (2/3 bolli) púðursykur, þétt þjappaður í mæliílátið
215 gr. (1 3/4 bolli) hveiti (Kornax eða sambærilegt, ekki kökuhveiti)
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
125 g (1 1/4 bolli) möndlur (með hýði)
1 msk. fínrifinn appelsínubörkur (bara guli hlutinn)
1/4 tsk. kardimommuduft

Leiðbeiningar:
Hitið ofninn í 160 °C (fyrir blástursofn: lækkið hitann eftir því sem reynslan eða leiðbeiningar framleiðanda bjóða). Leggið bökunarpappír á ofnplötu.

Þeytið saman eggin og sykurinn þar til létt og ljóst. Blandið saman hveiti, lyftidufti, kardimommum og salti og sigtið ofan í skálina með eggjaþeytunni og hrærið saman ásamt möndlunum og berkinum.

Takið deigið úr skálinni og leggið á hveitistráð borð, skiptið í tvennt og mótið tvo hleifa, ca. 3 cm breiða og 20 cm langa. Ath! Deigið er MJÖG límkennt og því er best að bleyta á sér hendurnar áður en það er handleikið. Ef deigið minnir helst á hraun þegar það er búið að móta það í hleifa, ekki hafa áhyggjur: það sléttast niður í bakstrinum.

Setjið hleifana á bökunarplötuna og bakið í 35-40 mín, eða þar til þeir eru ljósgullnir á lit. Takið út og kælið á grind í ca. 15 mín. [í upprunalegu uppskriftinni stendur að það eigi að kæla þá alveg, en skorpan verður mjög hörð þegar hún er orðin köld og þá er erfitt að skera brauðið jafnt]. Skerið hleifana í fingurþykkar sneiðar með brauðhníf. Farið ykkur hægt því að tvíbökurnar molna auðveldlega. Ef hægt er, haldið utan um hliðar hleifanna á meðan skorið er.

Raðið sneiðunum á bökunarplötu(r) og stingið aftur inn í heitan ofninn og bakið í 10 mín., snúið við og bakið í aðrar 10 mín. Ef sneiðarnar virka ekki gegnþurrar þegar þær koma úr ofninum, þá er það í góðu lagi því þær þorna um leið og þær kólna. Látið kólna alveg áður þær eru bornar fram.

Frábærar með kaffi.