Þessi súpa verður gullin á litinn en getur líka orðið grænleit eða jafnvel appelsínugul, allt eftir því hvaða blanda af grænmeti er notuð. Þetta er mín eigin uppskrift og ætti að duga tveimur í máltíð (með brauði) eða í forrétt fyrir 3-4. Þetta er svokölluð eldhúsvasks- eða ískápsuppskrift, því maður notar í hana það grænmeti sem maður á til.
Ég átti reyndar ekkert grænmeti þegar ég mallaði henni saman fyrst (uppgefin uppskrift) og mér þykir hún alltaf best þannig, en það er líka gott að bæta 1-2 söxuðum gulrótum við uppskriftina, sneiddum púrrulauk, sellerístöng í sneiðum, hnúðkáli í bitum og jafnvel saxaðri papriku. Bragðið breytist auðvitað svolítið eftir því hvaða grænmeti er notað.
En sem sagt, hvítbaunasúpa a la moi, grunnuppskrift:
1 bréf beikon, hver sneið skorin í 5-6 bita, eða bréf af beikonkurli og 3-4 sneiðar af beikoni til skrauts, skornar eins og getur að framan
--
1/2 laukur, skorinn í tvennt og sneiddur þunnt
3-4 meðalstórar kartöflur, skrældar og skornar í 8 bita hver
--
1 dós smjörbaunir eða hvítbaunir (cannelini), soðinu hellt frá og baunirnar skolaðar úr köldu vatni
1 lítri vatn
grænmetiskraftur eftir smekk
Aromat (ef vill, eykur fyllingu í bragðinu)
salt og pipar
Súpupottur hitaður og beikonið steikt í honum því þar til það er að verða gegnsteikt en ekki hart og fitan er farin að renna. Ef notað er kurl og sneiðar eru sneiðarnar teknar úr pottinum og lagðar til hliðar (það er ágætt að steikja þær heilar og klippa svo niður í pottinn þegar þar að kemur). Ef eftir er meiri fita en ca. 2 msk er umframfitunni hellt frá. Ef hún er minni er bætt við smá klípu af smjöri.
Laukurinn svissaður í fitunni þar til hann er glær og aðeins byrjaður að brúnast. Kartöflunum bætt út í og steiktar þar til þær byrja að brúnast á brúnunum. Vatnið sett út í ásamt baunum og grænmetiskrafti (gott að miða magnið á honum við 1/2 lítra af vatni miðað við leiðbeiningar á umbúðunum og bæta frekar meiru við undir lokin, því grænmetiskraftur er misjafnlega sterkur (og saltur)). Suðan látin koma upp og látið malla í 20 mínútur undir loki.
Að 20 mín liðnum er tekin ausa og veidd upp af botninum ausufylli af beikoni, kartöflum og baunum og tekið til hliðar. Þvínæst er afgangurinn af súpunni maukaður. Best er að nota töfrasprota og gera það beint í pottinum, en líka má hella henni í matvinnsluvél. Síðan er súpan sem tekin var til hliðar sett saman við aftur ásamt beikoninu sem var tekið til hliðar í upphafi. (Það má auðvitað mauka súpuna alla, en mér finnst hún a.m.k. meira spennandi og fallegri svona). Látið malla í 15 mínútur til viðbótar með lokið af.
Smakkað til með salti, pipar og Aromati. Flott að skreyta með einhverju grænu áður en er borið fram, t.d. graslauk eða steinselju, eða þá með fínt saxaðri rauðri eða grænni papriku. Gott með grófu brauði.