01 júlí, 2012

Fuglahreiður

Gómsæt lítil hreiður úr kransakökudeigi með smjörkremi, súkkulaðihjúp og fyllingu úr ávöxtum. Fínar til að ögra saumaklúbbnum.

Matreiðslubók: 100 fristende Konditorkager, útg. af Ugebladet.
Stærð uppskriftar: ca. 20 stk.
Tími: um 70 mínútur + kólnunartími fyrir smákökurnar

Kransakökuklattar:
200 gr. bökunar-möndlumassi (marsipan)
8 msk. sykur
2 eggjahvítur (geymið rauðurnar fyrir smjörkremið)

Rífuð möndlumassann með grófu rifjárni og hlandið helmingnum af sykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið hinum helmingun af sykrinum smám saman við á meðan þeytt er. Blandið eggjahvítunum smám saman út í möndlumassann og blandið saman í samfelldan massa.

Setjið kransakökudeigið í sprautupoka og búið til litlar kringlóttar kökur (skammtið í spíral - sjá næstu mynd) á bökunarpappír á bökunarplötu. Þvermálið ætti að vera um 4,5 cm og þykktin um 1,5 cm. Lyftir sér ekki í bakstri, þannig að það má vera stutt á milli þeirra. Bakið við 200 °C (180°C í blástursofni) í 12-15 mín, þar til ljósgullnar á lit. Takið pappírinn af plötunni með kökunum og látið á grind til að klattarnir kólni hraðar.

Smjörkrem:
1 dl. sykur
3 msk. vatn
2 eggjarauður
125 gr. smjör, mjúkt
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

Blandið saman sykri og vatni í potti og sjóðið varlega þar til hefur myndast glært síróp (látið þykkna aðeins, en forðist að brenna). Byrjið að þeyta eggjarauðurnar og látið sírópið leka í mjórri bunu saman við á meðan. Haldið áfram að þeyta þar til létt og ljóst. Setjið smjörið í hrærivélarskál og hrærið í vélinni og bætið eggjablöndunni smám saman út í þangað til komið er mjúkt krem.

Takið nú kransakökuklattana af pappírnum og smyrjið þunnu lagi af smjörkremi yfir hvern klatta. Setjið afganginn af kreminu í sprautupoka með litlum stút og sprautið hring meðfram ytra byrði allra klattanna. Kælið þar til kremið er hart.

Hjúpur:
125 gr. Síríus Konsúm súkkulaði eða dökkt hjúpsúkkulaði
2 msk. Palmín

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið Palmíninu saman við. Blandið vel saman. Dýfið efri partinum af hverjum klatta í súkkulaði þannig að hjúpurinn nái yfir smjörkremið. Kælið.

Fylling:
Niðursoðnir ávextir, blandaðir eða ein tegund, t.d. mandarínubátar eða apríkósur (eða ferskir plús niðursoðinn safi)
2 dl. safi af niðursoðnum ávöxtum
3 blöð af gelatíni

Hellið safanum frá ávöxtunum og geymið hann. Látið renna vel af ávöxtunum. Skerið í smærri bita ef þarf til að koma fyrir ofan í „hreiðrunum“. Skammtið 3-4 bitum í hvert „hreiður“, eða eins og nægir til að fylla það.

Bleytið gelatínið í smá vatni í 5 mín. Kreistið vatnið úr blöðunum og bræðið þau í potti yfir lágum hita með 2 msk. af safa af ávöxtunum. Hrærið hægt í með handþeytara. Bætið við afganginum af safanum og kælið í vatnsbaði (látið kalt vatn eða ísvatn í skál eða í vaskinn og dýfið botninum á pottinum ofan í) og hrærið stöðugt þar til blandan byrjar að þykkna. Takið þá matarpensil og penslið þunnu lagi af gelatíni yfir ávextina í hverju „hreiðri“. Kælið.

Best borið fram með kaffi, enda mjög sætt.


Hugmynd sem ég á eftir að prófa:
Búa „hreiðurbrúnina“ til úr deigi, sleppa smjörkreminu og húða „hreiðurbrúnina“ með súkkulaði. Fylla „hreiðrin“ með eggjabúðingi eða vanillubúðingi og skreyta með ferskum jarðarberjum eða ferskjusneiðum og gljá með þykku sykursírópi.