Fyllingin er frekar mild, með keimi af laufkóríander (cilantro) og rækjum. Ég gæti best trúað að það væri gott að gera fínar kjötbollur úr fyllingunni, enda minnir hún á fyllinguna sem er notuð í enskar morgunverðarpylsur.
Efni:
- 175 gr. magurt svínahakk
- 55 gr. soðnar rækjur, fínsaxaðar
- 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
- 1 msk. laufkórínader (cilantro), saxað
- 1 1/2 vorlaukur, fínsaxaðir
- 2 egg, léttþeytt
- 2 tsk. fisksósa (Fish Sauce, ég mæli með vörumerkinu Squid)
- Nýmalaður svartur pipar
- 4 sneiðar af dagsgömlu brauði
- 1 msk. kókoshnetumjólk
- Olía til djúpsteikingar
Til skrauts: Heil blöð af laufkóríander, mjóir hringir af ferskum rauðum chili-pipar og gúrkusneiðar
Aðferð:
Blandið saman hakkinu og rækjunum í skál (gott að nota til þess gaffal). Bætið við hvítlauk, laufkóríander, vorlauk, 1/4 af eggjahrærunni, allri fiskisósunni og piparnum og blandið vel.
Skerið skorpurnar af brauðinu og skiptið fyllingunni jafnt á milli sneiðanna og smyrjið jafnt yfir þær. Blandið því næst saman kókosmjólkinni og því sem eftir er af eggjahrærunni og burstið yfir fyllinguna á brauðinu. Skerið hverja sneið í fernt.
Hitið olíu upp í 190 °C í wok-pönnu. Setjið 3-4 brauðstykki í olíuna í einu, með fyllinguna niður og steikið þar til fyllingin er gegnsteikt og brauðið stökkt (2-4 mín.). Snúið einu sinni við á meðan. Takið af pönnunni með gataspaða og látið olíuna renna af á eldhúspappír. Haldið svo heitu í ofninum.
Berið fram heitt, skreytt með laufkóríandernum, chillipiparhringjum og gúrkusneiðum.