23 apríl, 2012

Steikt brauð að hætti Thailendinga

Þar sem ég hef aldrei til Thailands komið og hef bara borðað thailenskan mat á veitingastöðum get ég ekki metið hversu upprunaleg þessi uppskrift er eða hvort hún er aðlöguð að vestrænum bragðlaukum.

Fyllingin er frekar mild, með keimi af laufkóríander (cilantro) og rækjum. Ég gæti best trúað að það væri gott að gera fínar kjötbollur úr fyllingunni, enda minnir hún á fyllinguna sem er notuð í enskar morgunverðarpylsur.


Efni:
  • 175 gr. magurt svínahakk
  • 55 gr. soðnar rækjur, fínsaxaðar
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 msk. laufkórínader (cilantro), saxað
  • 1 1/2 vorlaukur, fínsaxaðir
  • 2 egg, léttþeytt
  • 2 tsk. fisksósa (Fish Sauce, ég mæli með vörumerkinu Squid)
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 4 sneiðar af dagsgömlu brauði
  • 1 msk. kókoshnetumjólk
  • Olía til djúpsteikingar

Til skrauts: Heil blöð af laufkóríander, mjóir hringir af ferskum rauðum chili-pipar og gúrkusneiðar

Aðferð:
Blandið saman hakkinu og rækjunum í skál (gott að nota til þess gaffal). Bætið við hvítlauk, laufkóríander, vorlauk, 1/4 af eggjahrærunni, allri fiskisósunni og piparnum og blandið vel.



Skerið skorpurnar af brauðinu og skiptið fyllingunni jafnt á milli sneiðanna og smyrjið jafnt yfir þær. Blandið því næst saman kókosmjólkinni og því sem eftir er af eggjahrærunni og burstið yfir fyllinguna á brauðinu. Skerið hverja sneið í fernt.

Hitið olíu upp í 190 °C í wok-pönnu. Setjið 3-4 brauðstykki í olíuna í einu, með fyllinguna niður og steikið þar til fyllingin er gegnsteikt og brauðið stökkt (2-4 mín.). Snúið einu sinni við á meðan. Takið af pönnunni með gataspaða og látið olíuna renna af á eldhúspappír. Haldið svo heitu í ofninum.

Berið fram heitt, skreytt með laufkóríandernum, chillipiparhringjum og gúrkusneiðum.