13 ágúst, 2011

Spænskur hrísgrjónaréttur

Þetta er bragðmikill en ekki sterkur réttur með ríkjandi bragði af paprikudufti og tómötum og keim af hvítlauk, lauk, ferskri papriku og kjöti.

Ég ákvað að birta ekki mynd af honum því hann er frekar ljótur á mynd þó bragðgóður sé.

Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Ódýrt og gott
Fyrir 4.

Efni:
400 gr. kjöt (lamba- eða nautakjöt)
1 1/2 tsk. smjör
2 laukar, saxaðir
2 hvítlauksrif, marin (eða meira, eftir smekk)
1 græn paprika, sneidd
1/2 tsk. paprikuduft
2 tsk. salt
saffran eða kúrkúma á hnífsoddi
1 dós (400 gr.) tómatar
2,5 dl vatn
1/2 til 1 teningur af kjötkrafti
2 dl hrísgrjón

Aðferð:
Bræðið smjörið í potti/djúpri pönnu. Skerið kjötið í gúllasbita og brúnið í smjörinu. Bætið við lauk, hvítlauk og papriku og mallið í smá stund. Bætið við paprikudufti, saffrani/kúrkúma, salti, tómötum, vatni, soðteningi og hrísgrjónum. Sjóðið undir loki í þann tíma sem er gefinn upp fyrir hrísgrjónin (oftast 15-25 mín.). Hafið auga með pottinum og bærið við vatni ef það virðist vera að sjóða upp.

Berið fram með salatblöðum.

Ég mæli þar að auki með að mylja smá svartan pipar út í réttinn rétt áður en hann er borinn fram.

Í sumar útgáfur af þessum rétti eru notaðar baunir, sem er mjög gott.

08 ágúst, 2011

Lummur eða klattar

Matreiðslubók: ??

Efni:
1,5 dl hveiti
1 egg
1 tsk. lyftiduft
1,5 dl. mjólk (eða meira ef þarf)
1 msk. sykur
25 gr. smjörlíki eða smjör
1, 5 dl hafragrautur eða hrísgrjónagrautur (ég nota alltaf hrísgrjónagraut)
1-2 msk rúsínur (ef vill)

Bræðið smjörið/smjörlíkið á pönnu við lágan hita. Kælið lítillega.

Sigtið saman hveiti og lyftiduft í skál. Bætið við grautnum og blandið vel saman. Bætið því næst við helmingnum af mjólkinni og blandið vel. Því næst kemur eggið og afgangurinn af mjólkinni og loks brædda smjörið/smjörlíkið og rúsínurnar síðastar.

Deigið þarf að vera fljótandi, þykkara en pönnukökudeig - nógu þykkt til að renna ekki mikið út á pönnunni. Lummurnar eiga að vera þykkar.

Hitið pönnuna yfir meðalhita. Skammtið deiginu á pönnuna með matskeið. 3-4 lummur ættu að komast fyrir í einu á meðalstórri pönnu. Snúið með spaða. Steikið þar til gullnar á báðum hliðum. Stráið sykri á heitar lummurnar jafnóðum og þær eru teknar af pönnunni.

Berið fram heitar eða kaldar, með sykri, sultu eða pönnukökusírópi.