Þetta er milt karrí, en auðvitað má gera það sterkara með því að auka chili-skammtinn. Nota má hvort sem er nautahakk eða kinda-/lambahakk.
Keema er Hindi/Urdu yfir hakkað kjöt, og
alu (oftast nær skrifað
aloo) eru kartöflur.
Kari er karrí.
Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook
Fyrir: 4-6.
Efni:
3 msk. matarolía eða ghee (skírt smjör)
2 meðalstórir laukar, fínsaxaðir
1 tsk. fínsaxaður hvítlaukur
1 tsk. fínt rifinn ferskur engifer
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
2 tsk. kóríander, malaður
1 tsk. cummin, malað
1/2 tsk. chilli-duft (má sleppa)
2 tsk. salt
2 msk. sítrónusafi eða edik
500 gr. lamba- eða nautahakk
500 gr. kartöflur, skrældar og skornar í fernt
1 bolli heitt vatn
1 tsk. garam masala kryddblanda
Til skrauts:
2 msk. söxuð fersk mynta eða kóríanderlauf (chilantro)
Aðferð:
Hitið olíu eða ghee á djúpri þykkbotna pönnu og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferinn þar til mjúkt og ljósgullið á lit.
Bætið við kúrkúmu, kóríander, cummin, chilli-dufti (ef notað) og steikið í 1 mín. og hrærið stöðugt í á meðan.
Bætið við saltinu og sítrónusafanum/edikinu og þegar blandað byrjar að snarka á pönnunni er kjötinu bætt við og það steikt og hrært stöðugt í á meðan, þar til allt hakkið er brúnað og það er kekkjalaust.
Bætið þá við kartöflunum og heita vatninu, látið suðuna koma upp, lækkið hitann og setjið lokið á pönnuna og látið malla í um 30 mín. eða þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar og kjötið meyrt.
Hrærið í af og til undir lokin á eldunartímanum til að tryggja að karríið brenni ekki við.
Stráið garam masala yfir, hrærið létt saman við og berið fram skreytt með myntu eða kóríanderlaufum.