Það sem allir réttirnir eiga sameiginlegt er að vera gerðir úr fíló-deigi með fyllingu, en fyllingarnar eru margs konar og falla að smekk hverrar þjóðar eða þjóðarbrots. Her má lesa meira um bourek.
Þetta afbrigði er kallað „vindlar“ af augljósum ástæðum.
Þetta er frábær smáréttur til að bera fram í saumaklúbbum og veislum.
Skammtar: 20 stk.
Tími: 40 mínútur í undirbúning, 25-30 mínútur til að elda.
Þessi uppskrift skilar mildu kryddbragði, en af óskað er eftir sterkara bragði er óhætt að auka allt krydd um 50%.
Innihald:
1 meðalstór laukur, fínsaxaður
1/3 bolli ólífuolía
700 gr. magurt lambakjöt eða nautakjöt, fínhakkað
2 tsk. kanill
1/2 tsk. allrahanda
1/4 tsk. engifer
Malaður pipar
1/2 bolli söxuð fersk steinselja
Salt
5 egg
500 gr. fíló-deig
180 gr. smjör, brætt
Fylling:
Hræristeikið laukinn í olíunni þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið við hakkinu og blandið vel. Bætið kryddunum við og eldið í 10-15 mín. Hrærið í af og til, þar til kjötið er gegnsteikt og kekkjalaust. Bætið steinseljunni við og smakkið til með salti. Sláið eggin sundur í skál og þeytið létt, t.d. með gaffli eða handþeytara þar til þau eru aðeins byrjuð að freyða. Hellið yfir kjötið og eldið í 1-2 mín., hrærið stöðugt í á meðan. Þegar eggin eru aðeins byrjuð að hlaupa er pannan tekin af hitanum. Smakkið til með salti og/eða kryddi eftir þörfum og kælið.
Hitið ofninn í 150 °C.
Skerið hverja fíló-þynnu í þrjá jafnstóra aflanga ferhyrninga. Staflið upp og leggið rakan klút ofan á þynnurnar ef deigið þarf að bíða eitthvað. Burstið efsta ferhyrninginn með bræddu smjöri og setjið 1 msk. af fyllingu á annan endann og búið til aflanga hrúgu sem nær ekki alveg endanna á milli (skiljið eftir ca 1 cm hvorum megin). Brjótið hliðarnar inn yfir fyllinguna og eftir þynnunni endilangri. Rúllið up. Haldið áfram þar til búið er að fylla allar rúllurnar.
Raðið rúllunum saman í smurt ofnfast fat eða ofnskúffu og burstið með bræddu smjöri. Bakið þar til rúllurnar eru gullinbrúnar á lit. Berið fram heitar eða kaldar. Má borða tómar, en eru góðar með t.d. sætri chilli-sósu til að dýfa í.