21 maí, 2011

Íslenskt flatbrauð, grunnuppskrift

500 gr. rúgmjöl
1/2 tsk. salt
2,5 - 3 dl sjóðandi vatn

Blandið saman salti og mjöli. Bætið við vatni og hnoðið saman. Deigið á að vera frekar mjúkt.

Fletjið þunnt út, skerið út undan litlum diski og bakið við meðalháan eða háan hita, á pönnu eða eldavélarhellu. Ef hellan er notuð kemur bæði reykur og brunalykt, og því er best að gera þetta utandyra eða inni í bílskúr, eða a.m.k. slökkva á brunaboðanum áður en hafist er handa. Steikið þar til hráa hliðin virkar þurr og snúið þá og steikið hina hliðina. Staflið á disk undir raka tusku, til að kökurnar verði ekki harðar.

Má frysta.

19 maí, 2011

Epla- og peru- Bettý

Matreiðslubók: The Spice Cookbook

Brúna Bettý (Brown Betty) er nafn á amerískum eftirrétti sem samanstendur af krydduðum ávöxtum og sætri mylnsnu og er borinn fram með þeyttum rjóma eða sætri sósu. Vinsælasta útgáfan er með eplum en hér eru notuð bæði epli og perur.

Síðan ég fór að gera þennan eftirrétt er ég hætt að nota uppskrift, en hér er hún eins og hún kemur fyrir í bókinni. Hún ætti hiklaust að duga í eftirétt fyrir 8 manns.

Ef perurnar eru bragðlitlar eða mjög sætar er best að nota græn (súr) epli með þeim, en annars eru sæt-súr gul epli góð í þessa uppskrift.

Efni:
3 ferskar perur, þroskaðar en þéttar (mikilvægt svo að þær verði ekki orðnar að mauki áður en eplin eru gegnsoðin)
3 súr fersk epli

1 bolli létt muldar kornflögur
1/2 bolli sykur
1/2 tsk. múskat (duft)
1/2 tsk. rifinn sítrónubörkur (bara þetta gula)
1/2 tsk. salt
2 msk. smjör

Aðferð:
Þvoið ávextina, skrælið og skerið í frekar þunnar sneiðar. Smyrjið stórt, djúpt ofnfast mót og raðið 1/4 af sneiðunum í botninn (í upphaflegu uppskriftinni er talað um 1 1ítra mót, sem er annað hvort bjartsýni eða þá að epli og perur vou almennt talsvert minni á sjöunda áratugnum en þau eru nú). Blandið saman sykri, múskati og sítrónuberki og stráið 1/4 af því og 1/4 af kornflögunum yfir ávaxtasneiðarnar. Setjið smá smjörklessur úr 1/2 msk af smjöri hér og þar ofan á.
Endurtakið þar til lögin eru orðin fjögur.

Bakið við 175°C í 60 til 90 mín. eða þar til ávextirnir eru gegnsoðnir.

Berið fram með þeyttum rjóma, sýrðum rjóma eða harðri sósu (sjá uppskrift fyrir neðan).

Athugasemdir:
  • Það má vel tvöfalda múskatið því það rétt örlar fyrir bragðinu af því.
  • Gott er að nota demerara-sykur í staðinn fyrir hvítan, en milt bragðið af perunum finnst ekki ef notaður er púðursykur. Prófið því að nota bara græn epli ef óskað er eftir púðursykri.
Ég nota nú bara oftast ís eða rjóma, en þessi sósa ku vera mjög góð með Bettý:

Hörð sósa með koníaki eða brandíi:

Hún er sennilega kölluð „hörð“ sósa af því að það er áfengi í henni, en annars er hún líka mjög þykk.

2/3 bolli smjör
1/4 tsk. múskat (duft)
2 bollar sigtaður flórsykur (sigtaður og síðan mældur)
2 msk. brandí eða koníak
Malað múskað

Hrærið smjörinu og múskatinu vel saman og blandið til skiptis saman við það koníaki og sykri í smáskömmtum og hrærið vel saman á milli, þar til allt koníakið og sykurinn eru gengin upp í smjörið. Þeytið þar til létt og loftkennt og berið fram með plómubúðingi eða heitum ávaxtaeftirréttum. Stráið ögn af múskati yfir til skrauts.

Súkkulaði-heslihnetukaka

Þetta er gómsæt og flott kaka sem er eiginlega líkari konfekti en köku og jafnast hiklaust á við það besta sem fæst hjá konditormeisturum. Hún er þétt og frekar blaut í sér, með ljúfu súkkulaði- og heslihnetubragði, og mjög drjúg, því að ein lítil flís dugir flestum, svo magnað er bragðið. Það er talsvert fyrir henni haft, en vel þess virði.

Haldiði að ég hafi ekki bara hreinlega gleymt að taka mynd af kökunni? Jú, einmitt, en ég þori að fullyrða að mér hefur aldrei tekist svona vel upp með að skreyta köku, enda er hún mjög látlaus og engar krúsidúllur á henni, bara slétt krem og nokkrar heslihnetur til skrauts.

Hér er tengi á mynd af annarri súkkulaði-heslihnetuköku sem lítur eins út

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook
[Mínar athugasemdir eru í hornklofum]

Í kökuna:
4 egg, rauður og hvítur aðskildar
1 bolli strásykur
115 g ósætt súkkulaði [það virðist almennt ekki fást í matvöruverslunum, en ætti að vera hægt að fá t.d. í Vínberinu og hugsanlega í Kokku. Ég bjargaði mér með því að nota 56% súkkulaði sem er með viðbættum sætuefnum (maltitóli, inúlíni, laktitóli) en virkar ekki mjög sætt]
12 msk. (170 gr.) ósaltað smjör
1 bolli og 1 msk. kökuhveiti [það gengur að nota Kornax fjölnotahveiti]
1/4 tsk salt
3 msk mjög fínmalaðar afhýddar heslihnetur [best að útbúa um leið og heslihnetusmjörið]

Heslihnetusmjörkrem (uppskrift fylgir fyrir neðan)
Súkkulaðikrem (uppskrift fylgir fyrir neðan)

8 heilar heslihnetur (til skrauts)

Aðferð:
Þeytið saman eggjarauðurnar og sykurinn þar til blandan er þykk og ljósgulleit.

Á meðan eggin og sykurinn þeytast skal bræða saman súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði og hræra stöðugt í með þeytara þar það er vel blandað og samfellt. Kælið svolítið.

Hitið ofninn í 180 °C. Smyrjið springform sem er 20 cm í þvermál [ég notaði 18 cm form og kakan varð þar af leiðandi aðeins mjórri en hærri, sem er alls ekki verra]. Leggið hring úr bökunarpappír í botninn á forminu og smyrjið pappírinn. Hveitistráið formið og pappírinn [smávegið hveiti er sett í formið og forminu snúið þannig að hveitið rennur um það og húðar það að innan; hristið afganginn úr forminu].

Hellið súkkulaðismjörhrærunni saman við eggja- og sykurhræruna og hrærið þar til rétt blandað. Hrærið hveitinu, möluðu heslihnetunum og saltinu saman við [með hrærarann í hrærivélinni á minnsta hraða, eða notið sleikju og handafl. Það má ekki ofhræra, því þá verður kakan seig].

Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið varlega saman við soppuna með sleikju.

Hellið soppunni í springformið og bankið forminu varlega niður á borðið nokkrum sinnum til að losna við loftbólur úr soppunni.

Bakið í miðjum ofni í 35-45 mínútur, eða þar til brúnirnar á kökunni eru þéttar og miðjan er bökuð en ennþá svolítið mjúk. Það gerir ekkert til þó að það komi sprungur í miðjuna. Kælið í forminu, á grind, í um 1 klukkutíma. Takið þá hringinn af forminu og látið kökuna kólna niður í stofuhita. Það er ekki hundrað í hættunni þó að toppurinn á kökunni sígi aðeins þegar hún kólnar.

Þegar hitinn er farinn úr kökunni er henni hvolft á disk, bökunarpappírinn skrældur ofan af og heslihnetusmjörkreminu smurt á hana:

Heslihnetusmjörkrem:
1 1/4 bolli heslihnetur [ég mæli með að bæta við nóg af hnetum til að fá líka þær 3 msk sem eru í kökunni – annað er tvíverknaður. 1/4 bolli til viðbótar ætti að duga]
5 msk maíssýróp (corn syrup) [ef ekki tekst að finna það, þá má nota gullið sýróp í staðinn í sama magni, en þá geta komið sykurkristallar í kremið þegar það er kælt. Það ætti samt að vera í lagi við stofuhita]
2 msk koníak/brandí
1 bolli flórsykur
4 msk ósaltað smjör, við stofuhita

Ristið heslihneturnar á bökunarplötu við 180 °C í 10 til 15 mínútur. Ef þær eru með hýði eru þær hitaðar þar til hýðið hefur losnað og síðan settar í handklæði og nuddaðar þar til hýðið losnar af [það er mjög erfitt að ná öllu hýðinu af þeim og því mæli ég með að kaupa þær afhýddar, en þar þarf samt að hita þær].

Setjið hneturnar heitar í matvinnsluvél og hakkið þær vel. Þegar komið er fíngert mjöl eru þessar 3 msk sem eru notaðar í kökuna teknar frá. Það sem eftir er unnið áfram í vélinni þar til komið er mauk með áferð sem minnir á jarðhnetusmjör.

Hnetusmjörið er sett í skál og sírópinu hrært saman við ásamt koníakinu. Látið standa í 20 mínútur. Það má útbúa þetta fyrir fram og geyma í ísskáp, en þá verður að láta það standa og ná stofuhita fyrir notkun.

Sykur og smjör eru nú hrærð saman þar til blandan er létt og ljós. Hnetusmjörinu er síðan blandað vel og vandlega saman við.

Kreminu er smurt í frekar þunnu og jöfnu lagi á hliðarnar á kökunni og þykkara lag ofan á hana. Síðan er hún kæld í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur. Síðan er komið að súkkulaðikreminu:

Súkkulaðikrem:
4 msk ósaltað smjör
115 gr hálfsætt, dökkt súkkulaði [ég notaði venjulegt Síríus Konsúm en get ímyndað mér að 50% eða 70% Konsúm væri gott]
3 msk rjómi
Ca. 2/3 bolli sigtaður flórsykur [sem sagt sigtaður ofan í bollamálið]
1 tsk vanilludropar

Bræðið saman smjörið og súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærið stöðugt í á meðan með þeytara þar til blandan er brædd og vel samfelld.

Takið af hitanum og pískið rjómann saman við. Sigtið flórsykurinn saman við og hrærið vel saman þar til sykurinn er bráðinn og kremið er mjúkt og samfellt. Bætið vanilludropunum saman við og blandið vel.

Takið kökuna með smjörkreminu úr kælinum og hellið kreminu ofan á hana og smyrjið kökuna með því. Vinnið hratt því að kremið byrjar að storkna um leið og það kemst í snertingu við kalda kökuna [hún verður að vera köld til að smjörkremið bráðni ekki saman við súkkulaðikremið]. Reynið að hafa kökuna eins slétta og hægt er.

[Það er hugsanlegt að þetta reynist vera svolítið of mikið krem – það var það hjá mér. Ég leyfði því bara að leka niður hliðarnar á kökunni- það var alveg nóg eftir utan á henni. Síðan lét ég kökuna í kæli og tók hana út þegar kremið var storknað, skar kremklessurnar á diskinum frá kökunni með beittum hníf og skóf þær af diskinum. Síðan fór ég með þunnan spaða undir kökuna og lyfti henni varlega upp og flutti hana yfir á hreinan disk. Að lokum hitaði ég hníf í heitu vatni, strauk af honum rakann og sléttaði neðri kantinn á kökunni þar sem ég hafði skorið umframkremið frá henni.]

Að lokum er heslihnetunum 8 raðað hringinn meðfram brúninni á kökunni með jöfnu millibili.

Best er að kakan sé við stofuhita þegar hún er borin fram, því hún er þétt og kremið verður hart í kæli og það verður erfitt að skera hana.

17 maí, 2011

Ungverskt gúllas


Gúllas er oft kennt við Ungverjaland, en reyndar eru kássur eða þykkar súpur með þessu nafni þekktar í nágrannalöndunum og fleiri Evrópulöndum, svo sem Tékklandi, Slóvakíu, Austurríki, Þýskalandi, Slóveníu, Króatíu, Póllandi og Ítalíu. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar, en flestar eiga sameiginlegt að innihalda að minnsta kosti papriku og kjöt.

Þetta er þykk og bragðmikil kássa, frábær til að fá í sig yl eftir að hafa verið úti í köldu veðri.Það tekur talsverðan tíma að elda hana, en hún er vel þess virði.

Matreiðslubók: The Spice Cookbook eftir Lillie Stuckey and Avanelle Day. Útg. 1964.
Fyrir: 5-6 manns.
Tími: 100-130 mínútur.

EFNI:

1. Umferð:
1 kg. nautakjöt (gúllasbitar)
2 msk. shortening-feiti (í staðinn má nota svínafeiti (lard) eða Palmín/kókosfeiti í sama magni, eða 2 msk. plús 1. tsk. af smjöri eða smjörlíki)
2 meðalstórir laukar, þunnt sneiddir

2. Umferð:
1 tsk. salt
1/2 tsk. nýmalaður svartur pipar
2 tsk. ungverskt paprikuduft
1/8 tsk. Cayenne-pipar (sleppið til að fá mildari kássu, aukið til að búa til sterka kássu eða chilli)
1 bolli vatn

3. Umferð:
3 meðalstórar kartöflur, skornar í 8 ca. jafnstóra parta (skorin í helming, aftur í helming, og hver biti í helming)
1/3 bolli græn paprika, söxuð í ca 1 cm bita

4. Umferð:
1 tsk. Ungverskt paprikuduft

AÐFERÐ:

1. Umferð:
Fituhreinsið kjötið, og ef þarf takið stærri bitana og skerið í teninga, ca. 2,5 cm á kant. Bræðið helminginn af feitinni á djúpri pönnu eða í potti og brúnið kjötið á allar hliðar. Takið af pönnunni, setjið restina af feitinni á pönnuna og steikið laukinn við lágan hita þar til hann tekur á sig ljósbrúnan lit. Setjið kjötið aftur á pönnuna.

2. Umferð:
Bætið öllum innihaldsefnum 2. umferðar á pönnuna og mallið undir loki þar til kjötið er meyrt. Ef gúllasbitarnir eru af meyrari parti skepnunnar þarf þetta ekki að taka lengur en klukkustund, en getur tekið upp undir 90 mínútur ef kjötið er seigt.

3. Umferð:
Setjið innihaldsefni merkt 3. Umferð út í kássuna og mallið í 30 mín. í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar.

4. Umferð:
Bætið paprikuduftinu út í og blandið vel. Smakkið til með salti og pipar ef þarf.

Berið fram heitt með salati og hrísgrjónum eða ungverskum soðkökum (dumplings).

Athugasemdir:

Það er líka hægt að gera þessa kássu með lamba- eða kindaskönkum, en hún verður ekki eins bragðmikil.

16 maí, 2011

Afmælisbakstur!


Ég tók mig til í gær og bakaði afmælistertu í tilefni af því að ég átti afmæli. Tertan verður borin fram í saumaklúbbi á þriðjudgaskvöldið, en hún er svo girnileg að ég þurfti virkilega að stilla mig til að fá mér ekki af henni strax í gær. Þetta er súkkulaði-heslihnetukaka með tvöföldu lagi af kremi: nærfötum úr heslihnetusmjörkremi og sparikjól úr súkkulaðikremi. Uppskriftin er úr The Silver Palate Cookbook. Ég set inn myndir og hugsanlega uppskrift þegar ég er búin að skreyta hana og smakka á henni.

Það er smá fyrirhöfn að búa hana til því maður þarf að rista og afhýða heslihnetur og síðan búa til heslihnetusmjör úr þeim á meðan þær eru enn heitar. Ef ég geri þetta aftur, þá svindla ég og kaupi afhýddar hnetur og rista þær bara allsberar áður en ég bý til hnetusmjörið.

Ég ætla líka að baka rauðar flauelsbollakökur og setja á þær rjómaostakrem, og set að sjálfsögðu inn myndir af þeim líka ef kökuskreytingin heppnast vel.

15 maí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: The Spice Cookbook

Hér er matreiðslubók sem klifrar ofar á vinsældalistanum hjá mér í hvert skipti sem ég prófa nýja uppskrift úr henni:

Kápan
The Spice Cookbook eftir Lillie Stuckey og Avanelle Day, myndskreytt af Jo Spier. Hún er útgefin 1964, er þykkur og mikill hlunkur (1,6 kíló, takk fyrir!) í óhandhægu stóru broti en full af tiltölulega einföldum en ljúffengum uppskiftum og myndskreytingar Spiers eru flottar og lífga upp á bókina. Hún inniheldur um 1400 uppskriftir, sem er yfrið nóg fyrir flesta heimiliskokka.

Þessi bók gengur öll út á krydd og notkun þeirra, og í henni er fræðandi og gagnlegur kafli um öll kryddin sem eru notuð í henni. Ég fékk hana í  Góða hirðinum, að því er mig minnir á 500 kall.

Forsíðan
Hún virðist vera eftirsótt af söfnurum og ég hef t.d. séð góð eintök með kápu boðin til sölu á um 70 Bandaríkjadali. Ósköp er ég hrædd um að mín mundi samt ekki seljast á því verði, enda vantar á hana kápuna, hún er byrjuð að losna innan í spjöldunum og svo eru matarblettir í henni.

Þegar mig langar að elda eitthvað sem er of flókið eða dýrt í Silver Palate bókinni get ég oftast stólað á að finna einfaldari og ódýrari útgáfu af því í þessari. Þarna fann ég t.d. afar gómsæta uppskrift að ungversku gúllasi sem ég mun birta hér eftir helgina.