03 október, 2011

Fljótandi Bounty, heitt og kalt

Nú er farið að kólna í lofti og það fer að koma tími á heita drykki. Heita útgáfan af þessum iljar manni frá haus og alveg ofan í tær.

Flestir kannast við Bounty - sætan massa úr kókosmjöli sem er hjúpaður súkkulaði. Þessir drykkir bragðast svipað og Bounty í fljótandi formi, en eru bara fyrir fullorðna.

Heitt Fljótandi Bounty:
Fyrir 4-6 (fer eftir því hvort notaðir eru bollar eða krúsir).

Hentar vel fyrir þá sem ekki eru hrifnir af Írsku kaffi, og hefur sömu áhrif.


1 plata (100 gr) Síríus Konsúm súkkulaði
1 lítri mjólk
1 dl vatn
Malibu eftir smekk (fyrir óinnvígða: Malibu er hvítt romm með kókosbragði, sem er ómissandi í ýmsa kokkteila, t.d. Pina Colada. Fæst í Ríkinu)

Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið saman við. Hitið saman þar til súkkulaðið er bráðið. Hrærið vel saman og bætið við mjólkinni. Ef hún er köld er best að setja hana saman við í nokkrum slurkum og láta hitna á milli til að súkkulaðið storkni ekki og hlaupi í kekki. Hitið upp að suðu en látið ekki sjóða. 

Hellið í kakóbolla eða litla kaffibolla og setjið Malibu saman við, eftir smekk hvers og eins. 
Gott er að setja þeyttan rjómi ofan á og etv. skreyta rjómann með súkkulaðispæni.


Kalt Fljótandi Bounty:

1 hluti Malibu
1 hluti súkkulaðilíkjör, t.d. Creme de Cacao
2 hlutar mjólk
Mulinn klaki

Hritsið allt saman í kokkteilhristara og hellið í kokkteilglös. Skreytið með súkkulaðispæni.