06 nóvember, 2011

Mexíkönsk/spænsk hvítlaukssúpa: Sopa de Ajo

Ég fann þessa uppskrift upphaflega í mexíkanskri matreiðslubók, en hún er til í alls konar afbrigðum út um allan Spán og S-Ameríku. Hún er bragðmikil án þess að hvítlauksbragðið yfirgnæfi allt annað og eggin, brauðteningarnir og osturinn gefa henni aukið bragð og áferð. Hún er einföld og fljótleg í tilreiðslu. Þetta er ekki bara ljúffeng súpa, heldur einnig afbragðs vörn gegn kvefi og sem kvefmeðal.

Fyrir 4 sem forréttur.
Fyrir 2 sem aðalréttur.


Efni:
  • 10 hvítlauksrif
  • 1 tsk. hveiti
  • 2 msk. smjör
  • 1 lítri nauta- eða kjúklingasoð
  • Piparsósa, t.d. Tabasco
  • Salt og pipar
  • 4 egg
  • Brauðteningar (croutons) eða ristað brauð skorið í teninga (má sleppa)
  • 2 msk. rifinn ostur
  • 1 msk. söxuð steinselja (má sleppa, en dregur úr hvítlauksandremmu)
Aðferð:
Saxið hvítlaukinn eins fínt og mögulegt er og merjið hann síðan [erfitt án þess að tárast...]. Blandið saman við hveitið og steikið við lágan hita í smjörinu þar til hann virkar glær. Bætið við soðinu og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 15 mín. við lægsta hita sem þarf til að halda uppi suðu. Síið í gegnum fíngert sigti ofan í annan pott og smakkið til með salti (hugsanlegt að það þurfi ekki ef notað er soð af soðteningum) og pipar og nokkrum dropum af piparsósu.

Setjið aftur á helluna og látið koma upp hæga suðu. Brjótið skurn eggjanna og hellið innihaldinu varlega ofan í pottinn og sjóðið í 2-3 mín. [blæjuegg]. Hvíturnar eiga að vera gegnsoðnar en rauðurnar ekki.

Stráið brauðteningunum yfir og þar næst ostinum og síðast steinseljunni.

Tilbrigði:
Einnig má skilja eggjarauðurnar frá hvítunum, hella súpunni í heitar skálar og setja rauðurnar út í og láta standa í 2 mín., bæta þá við ostinum, brauðteningunum og steinseljunni og bera fram.