19 maí, 2013

Svínakjöt í rjómasósu

Þetta er eðal-spariréttur réttur sem ég elda af og til. Hann má líka gera með kjúklingi, t.d. lundum eða bringum.

Fyrir 2.

Efni:
  • smjör
  • 1/2 laukur, skorinn í ca 1/2 cm þykkar sneiðar
  • 1 bakki sveppir, skornir í tvennt og sneiddir í ca. 1/2 cm sneiðar
  • 2-300 g svínakjöt í bitum, ca. 2 cm þykkum (ég notaði svínalund, skorna í medallíur þegar ég tók myndirnar)
  • hveiti
  • salt og pipar
  • Aromat (má sleppa)
  • Töfrakrydd frá Kryddgöldrum
  • 1 dl vatn
  • 1 dl rjómi

Aðferð:
Blandið salti og kryddi eftir smekk saman við hveiti og veltið kjötinu upp úr því.

Bræðið klípu af smjöri á meðalheitri pönnu og steikið laukinn þar til hann er hálfglær og mjúkur. Takið af pönnunni og geymið. Bræðið væna klípu af smjöri á pönnunni og brúnið sveppina. Takið af pönnunni og geymið (má fara saman við laukinn).

Setjið hveitihjúpað kjötið á pönnuna og brúnið. Bætið við lauk, sveppum og vatni. Látið sjóða í 10-15 mín. eða þar til kjötið er meyrt en ekki orðið þurrt. Bætið við vatni eins og þarf en leyfið vökvanum að sjóða niður og þykkna undir það síðasta (ca. 5 mín.). Bætið við rjómanum og sjóðið í 2-3 mín. til að þykkna aðeins.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum eða pasta og fersku salati.