22 júlí, 2012

Ananaskaka á hvolfi

Þetta er gömul en góð uppskrift sem ekki bregst. Kakan er frekar blaut en samt létt og mjög bragðgóð. Smjörið og púðursykurinn verða að karamellusósu sem sígur niður í kökuna þegar henni er hvolft úr forminu.

Matreiðslubók: Sweet Food

Fyrir 6-8.

Efni:
20 gr. ósaltað smjör, brætt
2 msk. púðursykur (þjappið þétt í skeiðina)
440 gr. dós af ananashringjum í safa

90 gr. ósaltað smjör, mjúkt (ef þú notar saltað smjör, slepptu þá saltinu í uppskriftinni)
125 gr. (1/2 bolli) fínn sykur (caster sugar í upphaflegu uppskriftinni, sem er mitt á milli flórsykurs og strásykurs í grófleika, en venjulegur Dansukker strásykur er nógu fíngerður)
2 egg, léttþeytt
1 tsk. vanilludropar
125 gr. (1 bolli) hveiti
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 °C (160 °C eða eftir leiðbeiningum framleiðanda fyrir blástursofn). Smyrjið hliðarnar á 20 cm hringformi (ég nota venjulegt springform því að hringforin mín eru annars vegar of lítið og hins vegar ekki með réttum botni) og hellið brædda smjörinu í þannig að það þeki botninn. Stráið púðursykrinum jafnt yfir. Hellið safanum af ananasnum (geymið safann) og skerið ananashringina í tvennt. Raðið í mynstur í botninn á forminu. Sumir skreyta líka með rauðum kokkteilberjum, skornum í tvennt (það má setja þau á eftir bakstur ef menn vilja).

Þeytið saman mjúka smjörið og sykurinn þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum smám saman út í og hrærið vel á milli. Blandið vanilludropunum út í og blandið vel. Með hrærarann á minnsta hraða (eða notið sleikju og handaflið) blandið smám saman til skiptis ananassafanum og hveitinu sem er búið að blanda lyftiduftinu og saltinu saman við áður. Jafnið deiginu yfir ananasinn í forminu. Bakið í 35-40 mín. eða þar til prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn.

Látið standa í forminu í 10 mín. og hvolfið þá á grind til að kólna (hafið tusku eða pappírsþurrkur undir, því að karamellan á það til að leka niður af kökunni.