19 desember, 2011

Smákökur með kóríander

Ég prófaði þessa gömlu amerísku uppskrift í fyrsta skipti núna fyrir jólin, og sé bara eftir að hafa ekki prófað hana fyrr. Bragðið er óvenjulegt en gott og þær eru skemmtileg tilbreyting frá súkkulaðismákökum og piparkökum. Kökurnar eru ljósar, léttar og mjúkar og geymast í c.a. viku.

Athugið að með kóríander er átt við fræin, ekki laufin, sem hafa allt annað og umdeildara bragð.

Matreiðslubók: The Spice Cookbook

Gerir um 36-40 kökur.

Innihald:
1/2 bolli shortening (bökunarfeiti sem fæst í sumum matvöruverslunum, t.d. Kosti. Crisco er þekkt vörumerki)
1/2 tsk salt
1/4 tsk matarsódi
5 tsk möluð kóríanderfræ (selt sem kóríander/coriander)
_____________________________

1 bolli sykur
1 stórt egg
2 bollar sigtað bökunarhveiti (sigtið fyrst og mælið síðan)
1/2 bolli súrmjólk eða súr mjólk

Aðferð:
Þeytið saman shortening, salt, matarsóda og kóríander þar til vel blandað. Bætið sykrinum smám saman út í og blandið vel. Þeytið eggið saman við og haldið áfram að þeyta þar til blandan er samfelld. Bætið þá við hveitinu og súrmjólkinni til skiptis og blandið vel saman.

Skammtið deiginu með teskeið á létt-smurða bökunarplötu (eða klæðið hana bara með bökunarpappír). Hafið ca. 5 cm á milli deigklessanna og reynið að hafa þær kringlóttar.

Bakið við 190 °C í 15 mínútur eða þar til kökurnar eru létt brúnaðar á brúnunum. Lægri hita þarf ef notaður er blástursofn, oftast á bilinu 170-180 °C.

Kælið á vír-rekkum. Geymið í loftþéttum dósum og neytið innan viku.

18 desember, 2011

Amerískt hnúðseljusalat


Hnúðselja er einnig nefnd hnúðsilja, hnúðsilla eða sellerírót (enskt heiti er celeriac). Þetta er fyrirhafnarmeira og (finnst mér) bragðbetra afbrigði af hinu fræga Waldorf-salati.

Bragðið er milt og salatið er ekki eins stökkt undir tönn og Waldorf-salat, en það er vel fyrirhafnarinnar virði að prófa það. Sérlega gott með skinku og öðru svínakjöti, en líka með hangikjöti og kalkún.

Hverning væri til dæmis að prófa þetta með jólamatnum?


Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Salatréttir 
Fyrir 4-6.


Salat:
1/2 hnúðselja (um 250 gr.)
2 epli (það er smekksatriði hvort notuð eru græn, gul eða rauð epli, en ég mæli með grænum eða gulum),
50 gr. valhnetukjarnar eða pekanhnetukjarnar

Skrælið hnúðseljuna og skerið í julienne-ræmur. Sjóðið í nokkrar mínútur í léttsöltuðu vatni. Hellið í sigti og látið vatnið renna vel af. Kælið.

Skrælið eplin og skerið í teninga, ca. 1,5 cm. á kant.

Grófsaxið hnetukjarnana, en haldið nokkrum eftir heilum til að skeyta salatið.

Blandið öllu sama.

Sósa:
1,5 dl (= 150 g) majónes
1 dl þeytirjómi
2-3 tsk. sítrónusafi

Blandið saman rjómanum, majónesinu og sítrónusafanum. Hellið yfir salatið og hrærið varlega saman. Skreytið með heilum hnetukjörnum.

11 desember, 2011

Amerískar súkkulaðikökur (brownies)

Ég fann þessa pottþéttu brownies-uppskrift í The Good Housekeeping Cookbook frá 1943. Hún slær alltaf í gegn.

Efni:
3/4 bolli hveiti, sigtað (mæla fyrst, sigta svo)
1/4 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. salt
1/2 bolli (100 g) ósaltað smjör, mjúkt (ef bara er til saltað á heimilinu skal sleppa saltinu í uppskriftinni)
1 bolli sykur
2 egg, léttþeytt
60 gr. dökkt súkkulaði, t.d. Síríus Konsúm, brætt og léttkælt
3/4 bolli saxaðar hnetur eða heilar rúsínur. Hnetur sem henta eru t.d. valhnetur, pekan-hnetur, heslihnetur eða macadamia-hnetur.

Aðferð:
Hitið ofninn í 170 °C.

Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti.

Þeytið smjörið þar til það er létt og ljóst. Bætið sykrinum smám saman út í. Bætið síðan við eggjunum og því næst brædda súkkulaðinu. Bætið hveitiblöndunni smám saman út í. Hrærið loks hnetunum/rúsínunum saman við. Hellið í lítið ofnfast form (skúffukökuform) og bakið í 30-35 mín., eða þar til kakan stenst þrýstiprófun (er föst undir fingri þegar honum er stutt létt ofan á hana miðja).

Takið úr ofninum og skerið strax í ferninga.

Gott er en ekki nauðsynlegt að sigta smá flórsykur yfir kökuna.

Berið fram volga eða kalda með þeyttum rjóma.

04 desember, 2011

Engifersmákökur

Jólin nálgast og því er hér fljótleg og góð uppskrift að engifersmákökum sem hægt er að baka í flýti og gefa fjölskyldunni á meðan átt er við seinlegri jólabakstur. Þær eiga að vera stökkar meðfram brúnunum en mjúkar í miðjunni.

Bragðið er milt og það má alveg auka engiferinn ef óskað er eftir sterkara bragði.


Matreiðslubók: The Big Ready Steady Cook Book

Gerir ca. 20 smákökur


Efni:
100 g ósaltað smjör (eða saltað og sleppa viðbættu salti í uppskriftinni)
100 g fíngerður strásykur (caster sugar, en Dansukker strásykur dugir alveg)
1/2 tsk. engiferduft
1 1/4 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
safi úr ca. 1 appelsínu. Það getur verið að þurfi minni safa en gefinn er upp, eða meiri ef appelsínan er mjög lítil.

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 °C (blástursofn: 170 °C). Setjið smjör, sykur, engifer og hveiti í matvinnsluvél og blandð saman þar til myndast hefur fíngerð mylsna. Látið vélina ganga og vætið í með appelsínusafa þar til myndast hefur mjúkt deig.

Skammtið deiginu á smurða bökunarplötu með teskeið og látið vera um 5 cm. á milli deigklessanna. Bleytið gaffal og fletjið deigið með honum.

Bakið í 10-12 mín. eða þar til kökurnar eru gullinbrúnar. Takið þá út og kælið á grind. (Þær eru reyndar algert nammi volgar með kaldri mjólk).

27 nóvember, 2011

Appelsínu-saffrankaka

Þessi kaka verður fallega heiðgul, þétt í sér og með ljúfu appelsínubragði og votti af saffrankeimi. Hún er góð tilbreyting frá rjómatertum og súkkulaðikökum.

Fyrir 8.
Tími:

Innihald:
1 bolli nýkreistur appelsínusafi (ekki þessi á flöskunum!)
1 msk. fínrifinn appelsínubörkur (bara appelsínuguli parturinn)
1/4 tsk. saffranþræðir
3 egg
155 gr. (1 1/4 bolli) flórsykur
250 g (2 bollar) hveiti
3 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
370 g (3 2/3 bollar) möndlumjöl (gæti þurft að búa það til – þá eru möndlurnar fínhakkaðar í matvinnsluvél. Mjölið þarf ekki að vera eins fíngert og hveiti)
125 g ósaltað smjör, brætt (ef ekki er til ósaltað smjör á heimilinu, notið þá saltað smjör og sleppið uppgefna saltinu í uppskriftinni)
Flórsykur til að strá yfir kökuna
Þeytirjómi

Hitið ofninn í 180 °C (160 °C fyrir blástursofn).

Léttsmyrjið 22 cm springform og setjið bökunarpappír í botninn [ég bakaði tvær kökur úr uppskriftinni, í 20 cm formi undan ostaköku og öðru 18 cm formi, sem bendir til að megi nota stærra form en 22 cm]. Blandið saman appelsínusafa, appelsínuberki og saffrani í potti og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og mallið í 1 mín. Takið af hellunni og látið kólna.

Þeytið saman egg og flórsykur þar til létt og ljóst. Blandið saman við sigtuðu hveitinu, möndlumjölinu, appelsínusafanum og smjörinu og blandið saman þannig að deigið verði  samfellt en hrærið eins stutt og hægt er (kakan getur orðið seig ef hún er hrærð of lengi). Jafnið í bökunarformið.

Bakið í eina klukkustund eða þar til prjónn sem er stungið inn í miðja kökuna kemur út hreinn [prófið eftir 45 mín. ef notuð eru minni form - það tók mínar þann tíma að bakast við 160 °C í blástursofni, enda formin minni]. Takið út og látið kólna í forminu í um 15 mín. Takið þá kökuna úr forminu og setjið á grind til að kólna alveg. Sigtið ögn af flórsykri yfir áður en kakan er borin fram og berið fram með þeyttum rjóma.

20 nóvember, 2011

Moussaka – Grískur ofnréttur

Þessa uppskrift fann ég í bresku kvennatímariti fyrir um 20 árum síðan, en ég hef breytt og aðlagað uppskriftina að mínum smekk og bragðlaukum. Þó að rétturinn sé kenndur við Grikkland, þá er hann líka útbreiddur í ýmsum birtingarmyndum í löndunum þar í kring og í Austurlöndum nær. Nafnið á réttinum er t.d. arabískt.

Fyrir 4.


  • 1 stórt eggaldin (ca. 300 gr.)
  • Ca. 225 gr. kartöflur
  • Ef ekki er til eggaldin má í staðinn nota um 500 gr. af kartöflum
  • 350 gr. hakkað lamba- eða kindakjöt, létt-brúnað á pönnu; nota má nautakjöt en lambakjöt er betra
  • 6 msk. ólífuolía (EKKI græn!)
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 225 gr. vel þroskaðir tímatar, skrældir og fræhreinsaðir EÐA 1 dós af söxuðum niðursoðnum tómötum
  • 1 msk. tómatpúre
  • 4 msk. lamba- eða grænmetissoð (má nota vatn, ég finn a.m.k. engan mun...)
  • 1 msk. fersk steinselja, söxuð (má sleppa)
  • salt og malaður svartur pipar eftir smekk
  • ólífuolía eftir þörfum
  • klípa af kanil (má sleppa)

Ofan á:
100 gr. parmesan-ostur, rifinn
2 egg
3 dl. grísk jógúrt eða hreint, ósykrað skyr

Aðferð:
Skerið endana af eggaldininu og skerið það í ca. 5 mm. þykkar sneiðar. Stráið salti á sneiðarnar og raðið í sigti og látið renna af þeim í um 30 mín. [Ég hef sleppt þessu og finn engan mun á bragðinu. Þetta er gert til að fjarlægja beiskleika, en nútíma-eggaldin hafa verið kynbætt til að fjarlægja beiskjubragðið]. Skolið úr köldu vatni og þerrið.

Skrælið kartöflurnar og skerið í jafnþykkar sneiðar og eggaldinið.

Hitið 1-2 msk. af ólífuolíu á pönnu og brúnið hakkið. Takið af pönnunni.

Hitið ofninn í 190 °C á meðan kjötsósan er búin til:
Hitið ca. 2 msk. af ólífuolíu á pönnu og steikið eggaldinsneiðarnar í 3-4 mín. á hvorri hlið, eða þar til þær eru mjúkar (virka hálf-glærar að sjá). Bætið við olíu ef þarf, því eggaldinið sýgur olíuna hressilega í sig. Takið af pönnunni og látið olíuna renna af á eldhúspappír.

Setjið þunnt lag af olíu á pönnuna, ef þarf, og steikið kartöflurnar í 2-3 mín. á hvorri hlið. Takið af pönnunni og látið olíuna renna af á eldhúspappír.

Setjið nú lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið við lágan hita í um 5 mín. eða þar til laukurinn er mjúkur. Takið pönnuna af hitanum og setjið hakkið á hana. Blandið vel saman og bætið því næst við tómötunum, tómatpúrrunni, soðinu og steinseljunni (ef hún er notuð). Blandið vel og smakkið til með salti, pipar og kanil (ef hann er notaður).

Raðið eggaldinsneiðunum (eða helmingnum af kartöflunum ef bara eru notaðar kartöflur) í botninn á ofnföstu formi (t.d. lasagna-formi) sem tekur a.m.k. 1200 ml. Hellið helmingnum af kjötsósunni yfir og jafnið út. Raðið kartöflusneiðunum yfir og jafnið afganginum af kjötsósunni þar yfir.

Hrærið saman grískri jógúrt, eggjum og parmesan-osti, bætið við klípu af salti og jafnið yfir kjötsósuna. Bakið í um 35 mín., eða þar til sósan bullsýður og efsta lagið er orðið gullinbrúnt.

Það er gott að strá rifnum osti, t.d. Gouda, yfir til að fá meira ostbragð.

Berið fram með góðu brauði og grísku salati.

Þennan rétt má frysta.

Einfalt grískt salat:
Skerið ferska tómata og gúrku í gróf stykki og setjið í skál. Bætið við þunnum sneiðum af rauðlauk ásamt svörtum ólífum og feta-osti. Malið svartan pipar yfir og stráið yfir smá salti. Hellið loks smá ólífuolíu út á og hrærið öllu saman. Ef notaður er kryddaður feta-ostur er gott að nota olíu af honum. Kælið í 10-15 mín. áður en borið er fram.

13 nóvember, 2011

Grillaðar kjúklingabringur að hætti Thailendinga

Þetta er fersk, meðalsterk marineringarsósa fyrir kjúkling:

Fyrir: 4

Efni:
4 ferskir rauðir chili-pipar, sneiddir, stöngull og fræ fjarlægð
2 hvítlauksrif, söxuð
5 skalott-laukar, þunnt sneiddir
2 tsk. mulinn pálmasykur (palm sugar, má nota jaggery í staðinn)
1,5 dl kókosrjómi (coconut cream – ekki það sama og cream of coconut!)
2 tsk. fisksósa (fish sauce)
1 msk. tamarind-vatn (sjá uppskrift fyrir neðan)
4 kjúklingabringur, beinlausar og skinnflettar

Aðferð:
Maukið chili-piparinn, hvítlaukinn og skalott-laukinn saman í mortéli eða matvinnsluvél. Bætið við pálmasykrinum, kókosrjómanum, fisksósunni og tamarind-vatninu.

Skerið 4 grunna skurði í hverja kjúklingabringu með beittum hníf. Setjið bringurnar í grunna skál og hellið sósunni yfir þær. Snúið við í sósunni svo að hún þekji kjötið alveg. Setjið lok á skálina og látið standa í um klukkustund (ef marinera á lengur, látið þá skálina í kæli).

Hitið grillið í ofninum. Setjið kjúklingabringurnar á álþynnu og setjið undir grillið í um 4 mín., snúið við og grillið í aðrar 4 mín. og burstið af og til með sósunni. Athugið að það getur þurft lengri tíma – þegar ég prófaði þetta með dæmigerðum íslenskum kjúklingabringum þurfti um 7 mín. á hvorri hlið til að gegngrilla kjötið. Ef grillað er á gasgrilli ef álpappírnum sleppt.

Stráið yfir ferskum söxuðum basilikulaufum eða laufkórínader (cílantró) og berið fram með hrísgrjónum.

Tamarind-vatn:
Hellið 60 ml. Af sjóðandi vatni yfir 5 gr. af tamarind-mauki (selt í þéttum kökum). Látið standa í nokkrar mínútur, plokkið þá maukið í sundur með skeið og hrærið vel. Látið standa í um 30 mín. Hellið vökvanum í gegnum sigti og þrýstið eins miklu af maukinu ú gegn og hægt er. Hendið því mauki og fræjum sem eftir verða í sigtinu.

06 nóvember, 2011

Mexíkönsk/spænsk hvítlaukssúpa: Sopa de Ajo

Ég fann þessa uppskrift upphaflega í mexíkanskri matreiðslubók, en hún er til í alls konar afbrigðum út um allan Spán og S-Ameríku. Hún er bragðmikil án þess að hvítlauksbragðið yfirgnæfi allt annað og eggin, brauðteningarnir og osturinn gefa henni aukið bragð og áferð. Hún er einföld og fljótleg í tilreiðslu. Þetta er ekki bara ljúffeng súpa, heldur einnig afbragðs vörn gegn kvefi og sem kvefmeðal.

Fyrir 4 sem forréttur.
Fyrir 2 sem aðalréttur.


Efni:
  • 10 hvítlauksrif
  • 1 tsk. hveiti
  • 2 msk. smjör
  • 1 lítri nauta- eða kjúklingasoð
  • Piparsósa, t.d. Tabasco
  • Salt og pipar
  • 4 egg
  • Brauðteningar (croutons) eða ristað brauð skorið í teninga (má sleppa)
  • 2 msk. rifinn ostur
  • 1 msk. söxuð steinselja (má sleppa, en dregur úr hvítlauksandremmu)
Aðferð:
Saxið hvítlaukinn eins fínt og mögulegt er og merjið hann síðan [erfitt án þess að tárast...]. Blandið saman við hveitið og steikið við lágan hita í smjörinu þar til hann virkar glær. Bætið við soðinu og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 15 mín. við lægsta hita sem þarf til að halda uppi suðu. Síið í gegnum fíngert sigti ofan í annan pott og smakkið til með salti (hugsanlegt að það þurfi ekki ef notað er soð af soðteningum) og pipar og nokkrum dropum af piparsósu.

Setjið aftur á helluna og látið koma upp hæga suðu. Brjótið skurn eggjanna og hellið innihaldinu varlega ofan í pottinn og sjóðið í 2-3 mín. [blæjuegg]. Hvíturnar eiga að vera gegnsoðnar en rauðurnar ekki.

Stráið brauðteningunum yfir og þar næst ostinum og síðast steinseljunni.

Tilbrigði:
Einnig má skilja eggjarauðurnar frá hvítunum, hella súpunni í heitar skálar og setja rauðurnar út í og láta standa í 2 mín., bæta þá við ostinum, brauðteningunum og steinseljunni og bera fram.

30 október, 2011

Kókos-kasjú lambakarrí frá Indlandi (Kid Josh)

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook. (Uppskrift með athugasemdum og ráðleggingum frá mér)

Fyrir: 6


Þessi uppskrift er upprunnin hjá Pörsum í Maharashtra-ríki á Indlandi. Ég gef upp bæði milda og eldsterka útgáfu. Það er reyndar gott að nota heila uppskrift af sósu með helmingi minna af kjöti, því að þetta er ljúffeng sósa og líka af því að í alvöru indversku karríi er kjötið ekki endilega aðalatriðið.

Efni:

Marineringarsósa:
3 tsk. saxaður ferskur engifer
5 tsk. saxaður hvítlaukur (ca. 5 meðalstór rif)
10 græn chili-piparaldin, fræhreinsaðir og stöngulinn fjarlægður, ef óskað er eftir sterku karríi. Þessu má sleppa alveg en ef óskað er eftir mildu chili-bragði er hægt að nota í staðinn chili-duft á hnífsoddi eða bara eitt chili-aldin.
1 tsk. malaður kanill
1/4 tsk. malaður negull
1 1/2 tsk. salt (eða meira, eftir smekk)

Allt hitt:
1 kg lambakjöt, helst af læri, fituhreinsað og skorið í stóra teninga

4 msk. olía til steikingar
Ca. 2 bollar heitt vatn

250 gr. kasjú-hnetukjarnar, fínmalaðir í matvinnsluvél (ef bara finnast saltaðar kasjú-hnetur, örvæntið ekki, notið þær og minnkið bara saltið í uppskriftinni)
1 1/2 bollar kókoshnetumjólk

4 stórar kartöflur, skornar í fjóra báta og steiktar
1 dl ósoðin hrísgjón á mann

Aðferð:
Maukið engiferinn, hvítlaukinn og chili-piparinn í morteli eða matvinnsluvél. Bætið við ögn af vatni til að auðvelda blöndunina. Bætið við hinu kryddinu og saltinu og blandið saman. Skiptið sósunni í tvennt og marinerið kjötið í helmingnum í um 30 mín. Geymið hinn helminginn.

Hitið 2 msk. af olíu á stórri djúpri pönnu eða í víðum potti (þykkbotna, annars er hætt við að brenni við) og brúnið kjötið. Bætið við vatninu og mallið undir loki við lágan hita þar til kjötið er meyrt og eftir er um það bil 1 bolli af soði í pottinum. Gott er að nota kjöt sem hefur fengið að meyrna aðeins í ískápnum í 2-3 daga, en þá ætti þetta að taka um 40 mín. Ef of mikið soð er eftir þegar þessu stigi er náð skal ekki hella soði af kjötinu, heldur er betra að taka lokið af og sjóða áfram þar til það hefur soðið hæfilega niður. Aðskiljið kjöt og soð og leggið til hliðar.

Nú má byrja að sjóða hrísgrjónin og steikja kartöflurnar.

Hitið nú 2 msk. af olíu í stórri djúpri pönnu eða víðum potti og steikið hinn helminginn af kryddmaukinu þar til það skiptir um lit og loðir lítið eitt við pönnuna. Bætið við kókoshnetumjólkinni, soðinu og hnetunum, blandið vel saman og mallið í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið þvínæst kjötinu saman við og látið malla við lágan hita þar til olían flýtur upp. Það verður að gera þetta við lágan hita því sósan er mjög þykk og getur brunnið við ef hitinn er hærri. Ekki hafa lokið á pottinum á meðan. Smakkið til og saltið ef þarf.

Berið fram heitt með steiktum kartöflum og hrísgrjónum.

23 október, 2011

Challah – fléttubrauð að hætti Gyðinga

Challah-brauð er hefðbundinn hluti af máltíðinni á hvíldardegi gyðinga (Shabbat). Brauðið sem ég bakaði eftir uppskriftinni hér að neðan varð létt og loftkennt og frekar þurrt, með mildu bragði. Gott með smjöri og osti og/eða sultu.

Efni:
180 ml. ilvolgt vatn
55 gr. pressuger eða 2 msk. + 2 tsk. perluger

565 til 680 gr. hveiti
1 msk. sykur
1 1/2 tsk. salt
3 egg, sundurslegin og létt hrærð
3 msk. + tæp 1 tsk. jurtafeiti (shortening), má nota olíu í staðinn

1 eggjarauða
1 1/2 msk. vatn

Aðferð:
Setjið helminginn af volga vatninu í litla skál og myljið eða stráið gerinu saman við. Látið standa í 2-3 mín. og hrærið þá í þangað til gerið er uppleyst. Setjið á hlýjan stað í ca. 5 mín. eða þangað til að blandan hefur næstum tvöfaldast að rúmmáli.

Setjið 450 gr. af hveitinu í stóra skál (t.d. hrærivélarskál) ásamt sykrinum og saltinu og blandið vel saman. Gerið holu ofan í hveitiblönduna og hellið gerblöndunni í hana ásamt því sem eftir er af volga vatninu, eggjahrærunni og 2 msk. af jurtafeitinni.

Hrærið vel saman, t.d. með sleif, þar til allt er vel blandað og ekkert laust hveiti er eftir í skálinni. (Hér má láta hrærivélina taka við; notið deigkrók og hrærið hægt). Bætið þá smám saman við allt at 225 gr. af hveiti. Hættið þegar orðið er til mjúkt deig sem heldur kúluformi þegar það er mótað til.

Setjið deigið á hveitistráð borð (eða haldið áfram í hrærivélinni með deigkrókinum – en ath. að maður færi betri tilfinningu fyrir deiginu með því að handhnoða) og hnoðið í um 15 mín. eða þar til deigið er orðið samfellt, sprungulaust og teygjanlegt.

Mótið deigið í kúlu og setjið í stóra, létt smurða skál. Leggið diskaþurrku yfir og setjið á hlýjan stað til að hefast. Deigið er tilbúið í næstu umferð þegar það hefur tvöfaldast að rúmmáli (ætti að taka um 45 mín.).

Hnoðið deigið niður í nokkrar mín. og látið standa í um 10 mín.

Smyrjið stóra bökunarplötu með teskeiðinni sem er eftir af jurtafeitinni. Skiptið deiginu niður í jafnstóra skammta, jafn marga og á að nota sem þætti í fléttuna (3 á myndinni, en algengt að nota 4 eða 6, eða að gera tvær fléttur: eina stóra og aðra litlan ofan á hana). Mótið í jafnþykkar lengjur sem mjókka til endanna. Þær þurfa að vera aðeins lengri en endanlegu hleifur á að verða.

Festið saman annan endann á öllum lengjunum og fléttið saman í þétta fléttu (forðist að toga í lengjurnar). Þegar komið er út á hinn endann er endunum þrýst vel saman og þeim troðið undir hleifinn. Færið hleifinn varlega yfir á smurða plötuna og leggið diskaþurrku yfir. Látið hefast á hlýjum stað í um 30 mín.

Hitið ofninn í um 200 °C (190 °C fyrir blástursofn). Blandið saman eggjarauðunni og vatninu og penslið sýnilega hluta hleifsins með hrærunni. Bakið í miðjum ofni í um 15 mín., lækkið þá hitann um 10 °C (í 190 °C/180 °C) og bakið í 45 mín. eða þar til brauðið er gullinbrúnt og skorpa hefur myndast. Takið út og kælið á grind.

16 október, 2011

Engifermjólk

Fyrir 2.

Þessi engiferdrykkur er róandi fyrir magann og góður við vindverkjum og svefnleysi. Engiferrót er þekkt náttúrulyf og er m.a. notuð við bílveiki og sjóveiki.

2,5 dl (1 bolli) mjólk, léttmjólk eða undanrenna (ég hugsa að það megi vel nota sojamjólk eða möndlumjólk, en hef ekki prófað það)
Sykur eftir smekk (jafnvel þó að þú notir almennt ekki sykur þá mæli ég með að nota ögn af honum hér til að taka remmuna úr engiferbragðinu)
1,5 cm bútur af ferskri engiferrót, ca. eins þykk og þumalfingur, EÐA 1/2 tsk af engiferdufti. Ef engiferinn er frekar gamall og þurr getur þurft meira, og minna ef hann er mjög ferskur og bragðmikill.

Skrælið engiferrótina og rífið niður í pott. Bætið við mjólkinni. Ef notað er duft fer mjólkin fyrst í pottinn og engiferinn er hrærður saman við.

Látið suðuna koma upp og hellið mjólkinni í gegnum sigti eða tesíu beint ofan í könnu eða bolla, sykrið og drekkið.

Athugasemd:
Það er hægt að breyta engifermagninu eftir smekk, en ef það er notað of mikið af ferskum engifer getur mjólkin yst þegar hún sýður.

10 október, 2011

Biscotti með möndlum, kardimommum og appelsínukeim

Biscotti er ítalskt orð sem þýðir „tvíbakaður”, en Ítalir nota þetta orð yfir allar smákökur. Það er bara utan Ítalíu sem þetta orð er notað yfir tvíbakað sætabrauð eins og það sem hér er fjallað um. Ítalir kalla þessar tvíbökur biscotti di Prato, cantoucchi eða cantoucchini.

Ég er nokkuð viss um að þegar J.R.R. Tolkien skrifaði um lembas var það með svona tvíbökur í huga en ekki skonrok.

Þessar biscotti eru mjög góðar, með mildu appelsínubragði og votti af kardimommum.

Gerir um 40 stk.

Innihald:
2 egg
155 gr. (2/3 bolli) púðursykur, þétt þjappaður í mæliílátið
215 gr. (1 3/4 bolli) hveiti (Kornax eða sambærilegt, ekki kökuhveiti)
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
125 g (1 1/4 bolli) möndlur (með hýði)
1 msk. fínrifinn appelsínubörkur (bara guli hlutinn)
1/4 tsk. kardimommuduft

Leiðbeiningar:
Hitið ofninn í 160 °C (fyrir blástursofn: lækkið hitann eftir því sem reynslan eða leiðbeiningar framleiðanda bjóða). Leggið bökunarpappír á ofnplötu.

Þeytið saman eggin og sykurinn þar til létt og ljóst. Blandið saman hveiti, lyftidufti, kardimommum og salti og sigtið ofan í skálina með eggjaþeytunni og hrærið saman ásamt möndlunum og berkinum.

Takið deigið úr skálinni og leggið á hveitistráð borð, skiptið í tvennt og mótið tvo hleifa, ca. 3 cm breiða og 20 cm langa. Ath! Deigið er MJÖG límkennt og því er best að bleyta á sér hendurnar áður en það er handleikið. Ef deigið minnir helst á hraun þegar það er búið að móta það í hleifa, ekki hafa áhyggjur: það sléttast niður í bakstrinum.

Setjið hleifana á bökunarplötuna og bakið í 35-40 mín, eða þar til þeir eru ljósgullnir á lit. Takið út og kælið á grind í ca. 15 mín. [í upprunalegu uppskriftinni stendur að það eigi að kæla þá alveg, en skorpan verður mjög hörð þegar hún er orðin köld og þá er erfitt að skera brauðið jafnt]. Skerið hleifana í fingurþykkar sneiðar með brauðhníf. Farið ykkur hægt því að tvíbökurnar molna auðveldlega. Ef hægt er, haldið utan um hliðar hleifanna á meðan skorið er.

Raðið sneiðunum á bökunarplötu(r) og stingið aftur inn í heitan ofninn og bakið í 10 mín., snúið við og bakið í aðrar 10 mín. Ef sneiðarnar virka ekki gegnþurrar þegar þær koma úr ofninum, þá er það í góðu lagi því þær þorna um leið og þær kólna. Látið kólna alveg áður þær eru bornar fram.

Frábærar með kaffi.

03 október, 2011

Fljótandi Bounty, heitt og kalt

Nú er farið að kólna í lofti og það fer að koma tími á heita drykki. Heita útgáfan af þessum iljar manni frá haus og alveg ofan í tær.

Flestir kannast við Bounty - sætan massa úr kókosmjöli sem er hjúpaður súkkulaði. Þessir drykkir bragðast svipað og Bounty í fljótandi formi, en eru bara fyrir fullorðna.

Heitt Fljótandi Bounty:
Fyrir 4-6 (fer eftir því hvort notaðir eru bollar eða krúsir).

Hentar vel fyrir þá sem ekki eru hrifnir af Írsku kaffi, og hefur sömu áhrif.


1 plata (100 gr) Síríus Konsúm súkkulaði
1 lítri mjólk
1 dl vatn
Malibu eftir smekk (fyrir óinnvígða: Malibu er hvítt romm með kókosbragði, sem er ómissandi í ýmsa kokkteila, t.d. Pina Colada. Fæst í Ríkinu)

Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið saman við. Hitið saman þar til súkkulaðið er bráðið. Hrærið vel saman og bætið við mjólkinni. Ef hún er köld er best að setja hana saman við í nokkrum slurkum og láta hitna á milli til að súkkulaðið storkni ekki og hlaupi í kekki. Hitið upp að suðu en látið ekki sjóða. 

Hellið í kakóbolla eða litla kaffibolla og setjið Malibu saman við, eftir smekk hvers og eins. 
Gott er að setja þeyttan rjómi ofan á og etv. skreyta rjómann með súkkulaðispæni.


Kalt Fljótandi Bounty:

1 hluti Malibu
1 hluti súkkulaðilíkjör, t.d. Creme de Cacao
2 hlutar mjólk
Mulinn klaki

Hritsið allt saman í kokkteilhristara og hellið í kokkteilglös. Skreytið með súkkulaðispæni.



20 september, 2011

Húsráðahornið: Dauðhreinsun á glerkrukkum

Hentar líka fyrir flöskur.

Aðferð 1 - krukkur og lok:
Hitið bakarofninn upp í ca. 110 °C.
Þvoið krukkur og lok vel með sápu og eins heitu vatni og þið þolið á hendurnar. Raðið á ofngrind og hitið í ofninum þar til alveg þurrt. Takið út og hellið heitri sultu eða öðru sem á geyma í þeim í heitar krukkurnar og lokið strax.

Aðferð 2 - krukkur og lok:
Þvoið krukkur og lok í uppþvottavél og takið út á meðan þær eru heitar og fyllið strax með heitri sultu eða öðru sem á geyma í þeim.

Aðferð 3 - bara krukkur:
Setjið blautar krukkur inn í örbylgjuofn og hitið á hæsta straumi í 1 mínútu.
Dauðhreinsið lokin með sjóðandi vatni.


Ef setja á kalda sultu í krukkurnar eru þær teknar út og raðað á hreina diskaþurrku og látnar kólna undir annarri hreinni diskaþurrku. Gott er að skola þær með Benson-Nat lausn áður en sultan er sett í.

29 ágúst, 2011

Thailenskt massaman-karrí

Þessi réttur er ekki síðri en massaman-karríið sem fæst á thailenskum veitingastöðum í Reykjavík. Ég lærði að elda hann af thailenskum kokki á matreiðslunámskeiði sem ég fór á hjá Asian Market á Suðurlandsbrautinni fyrir nokkrum árum.

Sósan er bragðmikil en ekki sterk. Hún er líka þunn, reyndar svo þunn að ef maður sker kjúklinginn í munnbita (notar þá bringur) væri vel hægt að bera hana fram sem súpu.

Fyrir: 4

Efni:
1. umferð:
500 gr. kjúklingabitar með beini (ca. 1/2 kjúklingur). Einnig má nota skinn- og beinlausa bita, en þá verður sósan ekki eins bragðmikil
1 msk. massaman karrímauk (fæst í Vietnam Market á Suðurlandsbrautinni (við hliðina á Nings))
1 1/2 bolli kókoshnetumjólk


2. umferð:
4 bollar kókoshnetumjólk
1 bolli vatn

3. umferð:
1/2 bolli fisksósa – kokkurinn mælti sérstaklega með Squid-tegundinni
1/2 bolli pálmasykur (fæst í Vietnam Market)
1 1/2 bolli jarðhnetur, heilar og ósaltaðar (má nota möndlur eða kasjú-hnetur í staðinn)
1/2 bolli jarðhnetur, fínsaxaðar eða malaðar (má nota möndlur eða kasjú-hnetur í staðinn)
1/2 bolli tamarind-vatn*
2 bollar saxaður laukur (um 2 meðalstórir laukar)
12 litlar kartöflur, soðnar, kældar og skrældar og skornar í munnbita (það má vel nota þær hráar, en þá er þeim bætt út í lok 1. umferðar þegar búið er að brúna kjúklinginn)
3-4 lárviðarlauf

*Tamarind-vatn: Hellið 1/2 bolla af sjóðandi vatni yfir 25. gr af tamarind-mauki (Tamarind Paste - fæst í Vietnam Market) og látið standa í 5-10 mín. Pikkið þá maukið í sundur með skeið og kreistið safann úr því (ef gert úr mjög þykku mauki). Hendið maukinu og síið vökvann fyrir notkun (ef maukið er tiltölulega þunnt og engin fræ, kekkir eða hýði í því má allt fara með). Thailenski kokkurinn sagði að tamarind-vatn sem fæst tilbúið á flöskum gefi ekki rétt bragð.

Aðferð:
Sjóðið 1 1/2 bolla af kókoshnetumjólk við meðalhita á djúpri pönnu eða í víðum potti þar til hún skilur sig og olían flýtur upp. Setjið þá karrímaukið saman við, hrærið vel saman og eldið í 3-4 mín.

Hækkið hitann, setjið kjúklinginn út í og hræristeikið í 2-3 mín. til að brúna kjúklinginn. (Nú eru kartöflurnar settar saman við ef þær eru hráar).

Setjið 2 bolla af kókoshnetumjólk saman við ásamt vatninu og hrærið vel saman.

Látið sjóða, lækkið hitann og setjið því næst út í jarðhneturnar, pálmasykurinn, fisksósuna, tamarind-vatnið og lárviðarlaufin og látið malla í 10-15 mín.

Setjið þá kartöflurnar saman við (ef notaðar eru soðnar kartöflur) ásamt lauknum og sjóðið við lágan hita í 5-10 mín. Gætið þess að laukurinn á að vera örlítið brakandi undir tönn þegar karríið er borið fram.

Smakkið til undir lokin með pálmasykri ef karríið er ekki nógu sætt.

Berið fram með jasmínuhrísgrjónum og fersku salati.

Massaman er stundum stafsett matsaman. Orðið mun þýða múslími á thailensku.

13 ágúst, 2011

Spænskur hrísgrjónaréttur

Þetta er bragðmikill en ekki sterkur réttur með ríkjandi bragði af paprikudufti og tómötum og keim af hvítlauk, lauk, ferskri papriku og kjöti.

Ég ákvað að birta ekki mynd af honum því hann er frekar ljótur á mynd þó bragðgóður sé.

Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Ódýrt og gott
Fyrir 4.

Efni:
400 gr. kjöt (lamba- eða nautakjöt)
1 1/2 tsk. smjör
2 laukar, saxaðir
2 hvítlauksrif, marin (eða meira, eftir smekk)
1 græn paprika, sneidd
1/2 tsk. paprikuduft
2 tsk. salt
saffran eða kúrkúma á hnífsoddi
1 dós (400 gr.) tómatar
2,5 dl vatn
1/2 til 1 teningur af kjötkrafti
2 dl hrísgrjón

Aðferð:
Bræðið smjörið í potti/djúpri pönnu. Skerið kjötið í gúllasbita og brúnið í smjörinu. Bætið við lauk, hvítlauk og papriku og mallið í smá stund. Bætið við paprikudufti, saffrani/kúrkúma, salti, tómötum, vatni, soðteningi og hrísgrjónum. Sjóðið undir loki í þann tíma sem er gefinn upp fyrir hrísgrjónin (oftast 15-25 mín.). Hafið auga með pottinum og bærið við vatni ef það virðist vera að sjóða upp.

Berið fram með salatblöðum.

Ég mæli þar að auki með að mylja smá svartan pipar út í réttinn rétt áður en hann er borinn fram.

Í sumar útgáfur af þessum rétti eru notaðar baunir, sem er mjög gott.

08 ágúst, 2011

Lummur eða klattar

Matreiðslubók: ??

Efni:
1,5 dl hveiti
1 egg
1 tsk. lyftiduft
1,5 dl. mjólk (eða meira ef þarf)
1 msk. sykur
25 gr. smjörlíki eða smjör
1, 5 dl hafragrautur eða hrísgrjónagrautur (ég nota alltaf hrísgrjónagraut)
1-2 msk rúsínur (ef vill)

Bræðið smjörið/smjörlíkið á pönnu við lágan hita. Kælið lítillega.

Sigtið saman hveiti og lyftiduft í skál. Bætið við grautnum og blandið vel saman. Bætið því næst við helmingnum af mjólkinni og blandið vel. Því næst kemur eggið og afgangurinn af mjólkinni og loks brædda smjörið/smjörlíkið og rúsínurnar síðastar.

Deigið þarf að vera fljótandi, þykkara en pönnukökudeig - nógu þykkt til að renna ekki mikið út á pönnunni. Lummurnar eiga að vera þykkar.

Hitið pönnuna yfir meðalhita. Skammtið deiginu á pönnuna með matskeið. 3-4 lummur ættu að komast fyrir í einu á meðalstórri pönnu. Snúið með spaða. Steikið þar til gullnar á báðum hliðum. Stráið sykri á heitar lummurnar jafnóðum og þær eru teknar af pönnunni.

Berið fram heitar eða kaldar, með sykri, sultu eða pönnukökusírópi.

06 ágúst, 2011

Eðalsamloka

Þessi samloka er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég fann út þessa samsetningu sjálf, en aðrir hafa eflaust uppgötvað hana eða eitthvað henni líkt á undan mér.

Fyrir 1.

Efni:
20 cm bútur af bagettubrauði, eða lítil bagetta, endarnir skornir af
Gunnars majónes
2 sneiðar af góðri skinku
2 sneiðar af Gouda-osti eða einhverju öðrum bragðgóðum osti
6 ræmur af beikoni, steiktar
4 tómatsneiðar
2 stórir sveppir, sneiddir og snöggsteiktir í smjöri

Kljúfið bagettuna að endilöngu en látið hana hanga saman á skorpunni öðru megin. Opnið hana og smyrjið þunnu lagi af majónesi á báða fletina. Raðið skinkunni, ostinum, tómatsneiðunum, beikoninu og sveppunum á hana, í þessari röð (sjá mynd).

Það þýðir ekkert að reyna að loka samlokunni, heldur mæli ég með að hún sé höfð opin og snædd eins og steikarsamloka, með hníf og gaffli.

Til að gera turnsamloku:
Teknar 6 sneiðar af franskbrauði og skorpurnar skornar af. Efri hliðin á þeirri neðstu er smurð þunnt með majónesi og svo báðar hliðarnar á næstu fjórum, jafnóðum og samlokunni er raðað saman. Lögin skiptast svona: brauðsneið, skinka, brauðsneið, ostur, brauðsneið, beikon, brauðsneið, sveppir, brauðsneið, tómatsneiðar, brauðsneið. Fest saman með tannstöngli í gegnum miðuna og ólífa ofan á, að hætti Dags.

02 ágúst, 2011

“Íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ”

“Ég er matargat – matargat
ég er matargat – matargat
íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ
íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ”
Úr “Íslensk kjötsúpa”, Texti: Jóhann G. Jóhannsson

Eftir slarkið um Verslunarmannahelgina er ekki vanþörf á að borða eitthvað nærandi og styrkjandi, og hvað er betra til þess fallið en ekta íslensk kjötsúpa?

Kjötsúpa af einhverju tagi fyrirfinnst í matargerð flestra landa og Ísland er þar engin undantekning. Þetta er einn af þessum þjóðlegu réttum sem enn eru daglega á borðum okkar og er ekki að furða: hún er seðjandi, fjölbreytileg, næringarrík, bragðgóð, og tiltölulega ódýr. Flestir sem elda kjötsúpu að staðaldri nota ekki uppskrift, heldur láta ráðast hvað er til í ísskápnum þegar súpan er löguð. Fyrir þá sem hafa ekki eldað hana áður en langar að prófa, þá er hér uppskrift sem er hægt að nota sem útgangspunkt.

Þó að ég gefi upp mælieiningar af innihaldsefnunum þarf ekki að fylgja þeim eins og guðspjallinu heldur er um að gera að fikta og aðlaga að eigin smekk. Ég hef stjörnumerkt (*) þá liði sem þurfa að vera til staðar til að um hefðbundna, gamaldags kjötsúpu sé að ræða. Hitt er efni sem mér finnst gott að bæta í súpuna.

Tími: 60 mín. í eldun; ca. 10-15 mín. í undirbúning
Fyrir: 4-6

Efni:
* 1 1/2 lítri vatn
* 500 gr. lambasúpukjöt með beini (ef notað er kindakjöt fæst bragðmeiri súpa, en það þarf að lengja eldunartímann)
* 1/2 meðalstór laukur, sneiddur eða grófsaxaður
* 100 gr. hvítkál
* 2 meðalstórar gulrætur, sneiddar eða skornar í þykkar ræmur
* 0,5 dl hrísgrjón (hýðis- eða hvít) eða hafragrjón
* 1/2 lítil gulrófa (prófið hnúðkál í staðinn), skorið í munnbita
* salt eftir smekk
lúkufylli af þurrkuðum súpujurtum
blómkál, skipt í hríslur
púrrulaukur, sneiddur
kartöflur, skornar í munnbita, eða sjóðið nýjar litlar kartöflur heilar með hýði
Einnig nota sumir sellerístangir (sneiddar) eða sellerírót (í litlum bitum) í kjötsúpu.

Aðferð:
Setjið vatnið í stóran pott og látið suðuna koma upp. Skolið kjötið úr köldu vatni og látið ofan í sjóðandi vatnið. Ef notað er frosið kjöt, er það sett í pottinn með vatninu og látið hitna með því. Látið sjóða í 2-3 mín. Fleytið þá brúnu froðunni ofan af og saltið. Lækkið hitann og látið sjóða í um 30 mín.

Bætið súpujurtunum (ef notaðar) og hrísgrjónunum/hafragrjónunum út í og látið sjóða í 10 mín. Bætið við öllu grænmetinu og kartöflunum og sjóðið í 20 mín. Smakkið til með salti og pipar. Fleytið fitu ofan af áður en súpan er borin fram (þarf yfirleitt ekki nútildags nema kjötið sé mjög feitt).

Misjafnt er hvernig súpan er borin fram. Sumir sjóða kartöflur sér og bera þær og kjötið fram saman á fati og borða sér, aðrir skera kjötið í munnbita og setja aftur út í súpuna. Sumum finnst líka gott að hella mjólk út á súpuna.

Kjötsúpa er jafnvel enn betri daginn eftir að hún er elduð.


Athugasemdir:
  • ef notað er kindakjöt er suðutíminn lengdur um 30-60 mín., hrísgrjónunum bætt út í hálftíma áður en suðu lýkur, og grænmetinu 10 mín. síðar.
  • soðið verður bragðmeira ef kjötið er brúnað í súpupottinum áður en súpan er löguð.
  • mjög gott er að setja smá kóríander (kryddið, ekki laufin) eða saffran út í súpuna til að gefa henni Mið-Austurlenskt yfirbragð.
  • ef súpan er bragðlítil má lauma út í hana svo sem einum teningi af grænmetis- eða lambakrafti.

30 júlí, 2011

Boccía-bolti

Í tilefni af Verslunarmannahelginni er hér nettur og svalandi áfengur sumardrykkur. Allir barþjónar ættu að hafa hann á takteinum. Hann er til í alls konar útfærslum, en þessi finnst mér best:

1 hluti Amaretto
2 hlutar appelsínusafi
Sódavatn
Klaki
Kokkteilglas
Skraut: Appelsínusneið, rör

Setjið klakann í glasið, hellið Amaretto yfir og síðan appelsínusafanum og fyllið upp með sódavatni.


Tilbrigði:
  • Sumir setja Amaretto og safa í hlutföllunum 1:1.
  • Aðrir setja 1,5 af vodka á móti 0,5 af Amaretto og 4 af appelsínusafa.
  • Sumir nota Sprite eða 7Up í staðinn fyrir sódavatn.

25 júlí, 2011

Hakk og kartöflur í karríi (Keema Alu Kari)

Þetta er milt karrí, en auðvitað má gera það sterkara með því að auka chili-skammtinn. Nota má hvort sem er nautahakk eða kinda-/lambahakk.

Keema er Hindi/Urdu yfir hakkað kjöt, og alu (oftast nær skrifað aloo) eru kartöflur. Kari er karrí.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook

Fyrir: 4-6.

Efni:
3 msk. matarolía eða ghee (skírt smjör)
2 meðalstórir laukar, fínsaxaðir
1 tsk. fínsaxaður hvítlaukur
1 tsk. fínt rifinn ferskur engifer
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
2 tsk. kóríander, malaður
1 tsk. cummin, malað
1/2 tsk. chilli-duft (má sleppa)
2 tsk. salt
2 msk. sítrónusafi eða edik
500 gr. lamba- eða nautahakk
500 gr. kartöflur, skrældar og skornar í fernt
1 bolli heitt vatn
1 tsk. garam masala kryddblanda

Til skrauts:
2 msk. söxuð fersk mynta eða kóríanderlauf (chilantro)

Aðferð:
Hitið olíu eða ghee á djúpri þykkbotna pönnu og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferinn þar til mjúkt og ljósgullið á lit.

Bætið við kúrkúmu, kóríander, cummin, chilli-dufti (ef notað) og steikið í 1 mín. og hrærið stöðugt í á meðan.

Bætið við saltinu og sítrónusafanum/edikinu og þegar blandað byrjar að snarka á pönnunni er kjötinu bætt við og það steikt og hrært stöðugt í á meðan, þar til allt hakkið er brúnað og það er kekkjalaust.

Bætið þá við kartöflunum og heita vatninu, látið suðuna koma upp, lækkið hitann og setjið lokið á pönnuna og látið malla í um 30 mín. eða þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar og kjötið meyrt.
Hrærið í af og til undir lokin á eldunartímanum til að tryggja að karríið brenni ekki við.

Stráið garam masala yfir, hrærið létt saman við og berið fram skreytt með myntu eða kóríanderlaufum.

23 júlí, 2011

Rabarbarasulta

“...ef þú hefur fengið læri eða hrygg að borða og það hefur ekki verið borin fram rabarbarasulta með, þá er verið að svindla á þér.”
Villi naglbítur (Vilhelm H. Jónsson, tónlistarmaður og dagskrárgerðarmaður á Rás 2)

Eins og Villi segir, þá er þessi frábæra sulta ómissandi með sunnudagssteikinni, en hún er líka góð á pönnukökur og vöfflur, ofan á hjónabandssælu, á milli laga í djöflatertu, og jafnvel út á ís. Einn frændi minn borðar hana meira að segja með soðnum fiski. Ársími rabarbarans er nú upp runninn, og því þótti mér tilvalið að birta uppskrift að gamaldags rabarbarasultu.

Sultuna er hægt að gera ljósa og frekar þunna eða dökka og þykka, eftir smekk. Ég nota þessa ljósu í bakstur og þá dökku, sem hefur dásamlegan karamellukeim, með mat. Hætt er við að ef dökk sulta er notuð ofan á hjónabandssælu verði sultan farin að brenna áður en kakan er bökuð.

Blöð rabarbarans eru eitruð, innihalda mikið magn oxalsýru, en hún er m.a. notuð í iðnaði sem hreinsiefni, t.d. til að fjarlægja ryð, sem bleikiefni og sem festir í litun, og því er mikilvægt að fjarlægja allan vott af blöðunum áður en byrjað er að meðhöndla rabarbaraleggina. Rabarbarinn sjálfur inniheldur líka oxalsýru, en ekki í það miklu magni að hættulegt sé, nema fyrir fólk sem fær nýrnasteina úr kalsíumoxalati. Oxalsýran er orsökin fyrir því hversu skínandi hreinir allir pottar verða að innan þegar búið er að sjóða í þeim rabarbarasultu, og ástæðan fyrir því að mælt er með að nota ekki ál- eða járnpotta til að sjóða hana í, því að hún tærir hreinlega málminn.

Efni:
1 kg. rabarbari (rauður gefur betri lit en grænn, en bragðið er eins)
800 gr. til 1 kg. strásykur

Aðferð:
Þvoið rabarbarann úr köldu vatni og ef tætlur af blöðum eru á rabarbaranum þarf að fjarlægja þær. Saxið rabarbarann, hrærið saman við sykurinn og látið standa yfir nótt.

Setjið í stóran pott með þykkum botni (minnkar hættu á viðbrennslu) og látið suðuna koma upp á hæsta straumi. Lækkið hitann og sjóðið við lágan hita og hrærið oft í á meðan. Sjóðið þar til rabarbarinn er soðinn í sundur og sultan orðin þykk, ca. 10-20 mín., fyrir ljósa sultu. Sjóðið lengur til að fá hana dekkri og með karamellukeimi.

Þegar sultan er tilbúin er henni strax hellt heitri í dauðhreinsaðar krukkur og lokað strax.

Athugasemdir:
  • Til að auka geymsluþolið má nota rotvarnarefni í sultuna, t.d. Benson-Nat. Farið þá eftir leiðbeiningum á umbúðum.
  • Ef geyma á sultuna lengi er best að hafa hana á dimmum, svölum stað, en hún þarf ekki að geymast í kæli.
  • Stundum vill sykurinn í sultunni kristallast (myndar þá harða, hvíta kekki ofan á og jafnvel í sultunni). Þetta þýðir ekki að sultan sé skemmd, en er hvimleitt. Til að losna við kristallana er sultan hituð upp í potti þar til kristallarnir bráðna og hellt aftur í dauðhreinsaðar krukkar.
  • Ef óskað er eftir mjög fíngerðri sultu er rabarbarinn fínsaxaður og þegar suðan kemur upp er hann tekinn af hitanum, saxaður í hakkavél eða matvinnsluvél, settur aftir í pottinn og eldaður eftir uppskriftinni.

21 júlí, 2011

Meðhöndlun á nautakjöti

Hér er áhugaverð grein sem ég rakst á á netinu, sem fjallar um það hvernig maður getur tryggt að nautakjötið verði alltaf meyrt og fínt þegar það er eldað: Turning Cheap “Choice” Steak into Gucci “Prime” Steak.

Þetta ætla ég að prófa næst þegar það er nautasteik í matinn hjá mér.

09 júlí, 2011

Elvis-samlokan fræga

Þegar menn ræða um það hversu þéttholda Elvis Presley var orðinn undir það síðasta er oft bent á ást hans á þessum samlokum sem skýringu, en starfsfólkið í eldhúsinu á Graceland þurfti að vera tilbúið að færa honum svona samlokur hvenær sem var dags eða nætur. En málið er bara að ef maður borðar nógu mikið af hverju sem er (nema kannski selleríi) þá fitnar maður. Punktur.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes
Magn: 1 samloka.

Það fer tvennum sögum um uppskriftina að þessari samloku. Í bókinni er hún gerð með banana og hnetusmjöri, en í sumum útgáfum er líka beikon. Til að vera alveg viss um að geta sagst hafa smakkað þessa frægu samloku, þá skipti ég henni í tvennt og prófaði annan helminginn með beikoni og hinn án þess. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég notaði ekki það magn sem er gefið í uppskriftinni, heldur notaði skynsemina og endaði með að nota ca. þriðjung úr banana og um það bil 1,5 msk. af hnetusmjöri. Ef fullt magn er notað er hætt við að eitthvað af hnetusmjörinu og banananum leki úr samlokunni á pönnunni. Þrýstið alls ekki ofan á samlokuna á meðan hún steikist.

Uppskriftin:
1 þroskaður lítill banani
2 sneiðar af brauði, helst franskbrauði
3 msk af hnetusmjöri
2 msk af smjöri

Stappið bananann með gaffli. Ristið brauðsneiðarnar ljósbrúnar. Smyrjið hnetusmjörinu á aðra brauðsneiðina og banananum á hina. Leggið saman.

Bræðið smjörið á pönnu og steikið samlokuna upp úr því þar til brauðið er ljósbrúnt. Skerið í hyrnur og berið fram heitt.

Ef haft er beikon með: 4 litlar sneiðar af beikoni, steiktar stökkar og lagðar á milli í samlokuna áður en hún er steikt.

Smá eldhúsvísindi: Brauðið er ristað áður til að samlokan verði ekki klesst.

05 júlí, 2011

Kryddaður nektarínueftirréttur (cobbler)

Cobbler er nafn á frægum amerískum eftirrétti sem er nefndur eftir áferðinni réttinum þegar hann er bakaður, en hún þykir minna á steinlagða (cobbled) götu. Hann er gerður með allskonar fyllingum og mismunandi mylsnuloki, en í Suðurríkjunum er oftast um að ræða ávexti eða ber, t.d. epli, ferskjur eða bláber. Ég er nú þegar búin að birta eina uppskrift, að afbrigðinu Brúnu Bettý með eplum, perum og kornflögumylsnu, en hér er nektarínu-cobbler með deigmylsnu sem Elvis Presley mun hafa haldið mikið upp á.

Ég gerði hálfa uppskrift og notaði í hana fjórar af nektarínunum sem urðu afgangs þegar ég sauð ferskju- og nektarínusultuna. Þær voru orðnar vel þroskaðar og svo ljúffengar og bragðmiklar að ég tímdi varla að elda þær.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes.
Fyrir: 8.

8 ferskar nektarínur, steinhreinsaðar og skornar í báta
3/4 bolli hveiti
1/2 bolli vel þjappaður púðursykur
1/2 bolli strásykur
1/2 tsk kanilduft
1/2 bolli (115 gr) smjör, kælt

Hiið ofninn í 175 °C. Raðið nektarínubátunum í smurt form sem tekur amk. 7,5 dl. (hálf uppskrift passaði í grunnt bökuform, 22 cm í þvermál, þannig að 22-25 cm soufflé-form (djúpt) ætti að duga fyrir heila uppskrift).

Blandið þurrefnunum vel saman. Bætið við smjörinu í bitum og saxið það saman við þurrefnin eða skellið í matvinnusluvél og saxið þar til myndast hefur gróf mylsna. Stráið jafnt yfir nektarínurnar.

Bakið í 30 mínútur eða þar til mylsnulokið er gullinbrúnt og svolítið stökkt og það sýður í ávöxtunum.

Berið fram volgt með vanilluís eða þeyttum rjóma ef þess er óskað. Líka ágætt við stofuhita.

03 júlí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes

Hér er ein forvitnileg og skemmtilega hallærisleg sem ég er nýbúin að eignast: Uppskriftir að uppáhaldsmat Elvis Presley,  Brenda Arlene Butler safnaði saman.

Þetta er bara ein af nokkrum matreiðslubókum með mat sem Elvis er sagður hafa verið hrifinn af. Aðrar Elvis matreiðslubækur eru t.d. Fit for a King, The I Love Elvis Cookbook og The Presley Family and Friends Cookbook. Allir vilja græða á kónginum.

Bókin er ríkulega myndskreytt með myndum af Presley, og mörgum uppskriftanna fylgir uppástunga um hvaða Elvis-lag sé nú best að spila á meðan maturinn er eldaður eða snæddur.

Ef eitthvað er að marka bókina hefur Elvis haft einfaldan smekk á mat. Heimalagaðar, tiltölulega einfaldar en þungar máltíðir að hætti Suðurríkjamanna voru uppáhaldið hans, enda var hann fæddur og uppalinn í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Maturinn í bókinni er kaloríuríkur og fitandi og því kannski ekki ráðlegt að borða hann alveg á hverjum degi...

Það er hellingur af girnilegum uppskriftum í henni sem mig langar að prófa, m.a.:

  • Amerískt rúgbrauð með stökku beikoni og sinnepi
  • Maísmjölsbrauð með pylsum
  • Grilluð svínaskammrif
  • Gratineraðir hvítir laukar
  • Grænkál með osti
  • Baka með sætum kartöflum
  • Bláberjabaka
  • Brownies með kremi
  • Bananabúðingur

Þó mig langi ekki að baka hana, þá er líka uppskrift að brúðartertu Elvis og Priscillu í bókinni, sem nær yfir 9 blaðsíður!

Að þessu sinni birti ég tvær uppskriftir, enda svo nýbúin að eignast bókina að ég hef bara prófað þessar tvær. Ég skelli inn fleiri um leið og ég er búin að prófa þær.

02 júlí, 2011

Ferskju-, nektarínu eða apríkósusulta

Ég var í Krónunni á laugardaginn fyrir viku og rak augun í stafla af ferskjum og nektarínum í plastbökkum. Í fyrra þegar það kom svona sending keypti ég sitthvorn bakkann og uppgötvaði þegar heim kom að ferskjurnar voru ekkert sérstaklega góðar til átu: harðar og frekar súrar. Lausnin var auðvitað að sjóða þær niður, því að þó að einhverjir ávextir smakkist ekkert sérstaklega vel hráir þá dregur eldun oft fram góða bragðið. Ég fann ekki hentuga uppskrift í neinni af matreiðslubókunum mínum og leitaði því að uppskrift á netinu og sú sem mér leit best á var reyndar að apríkósusultu. Hana fann ég á bloggsíðunni Just Hungry, sem síðan þá er ein af mínum uppáhalds matarbloggsíðum.

Apríkósur, ferskjur og nektarínur eru skyldir ávextir og því er hægt að nota þær nokkuð jöfnum höndum í margar uppskriftir, sérstaklega sultur, hlaup og sæta eftirrétti, þó að bragðið sé ekki nákvæmlega eins. Því ákvað ég að prófa uppskriftina með ferskjunum súru. Útkoman var falleg, bragðmikil og gómsæt sulta sem leit út eins og niðursoðið sólskin. Þetta var lítið magn, rétt nóg í 2 ½ litlar krukkur, en af því að bragðið var svo magnað þurfti mjög lítið af sultunni og því tókst mér að treina hana fram á vorið 2011. Auk þess að nota hana ofan á ristað brauð er hún mjög góð með ostum, sérstaklega bragðmiklum ostum eins og vel þroskuðum Brie og Gullosti, og einnig er hún frábær út á vanilluís, vöfflur og pönnukökur og á milli laga í svamptertur.

Sultan er gerð þannig að hluti af ávöxtunum er soðinn í mauk og restinni síðan bætt út í og soðið þar til seinni skammturinn er gegnsoðinn en hangir ennþá saman. Því verður sultan með bitum og svolítið misþykk. Ef óskað er eftir stífri og jafnþykkri sultu má sjóða alla ávextina saman í einu (mauka jafnvel með kartöflustappara) og nota pektín til að hleypa henni (notið Melatin ætlað fyrir marmelaði og sultur).

Núna keypti ég tvo bakka af ferskjum og einn af nektarínum og lagaði tvöfalda uppskrift. Í hana fóru allar ferskjurnar plús 3 nektarínur til viðbótar. Ég ætla svo að lauma einni eða tveimur krukkum í valda jólapakka til vina og ættingja.


Uppskriftin:
1 kg af ferskum apríkósum, ferskjum og/eða nektarínum
1 1/3 bolli sykur
1/4 bolli vatn
2 msk nýkreistur sítrónusafi (úr ca. hálfri sítrónu)

Sjóðið sultuna í þykkbotna potti, emaleruðum eða úr stáli. Ekki nota álpott eða járnpott sem ekki er emaleraður.



Þvoið ávextina upp úr köldu vatni, hendið þeim sem eru skemmdir og skerið í burtu skemmda bletti. Skiptið í tvennt og fjarlægið steinana.

Ef ávextirnir eru vel þroskaðir er auðveldast að rífa þá í sundur með höndunum, en ef þið kjósið að nota hníf er best að skera hringinn inn að steininum og snúa síðan ávextina varlega í sundur með höndunum. Gætið þess samt að merja þá ekki. Hýðið á að vera á þeim. Af því að upprunalega uppskriftin er fyrir apríkósur, sem eru talsvert minni en ferskjur og nektarínur, er best að skipta helmingnum af ferskju- eða nektarínuhelmingunum í tvennt, eða jafnvel fernt ef þær eru mjög stórar, því að annars verða bitarnir í sultunni helst til stórir. Það mætti jafnvel skera þá í enn minni bita ef ykkur geðjast ekki stórir bitar í sultu. Bara gera þetta eftir smekk og stytta suðutímann ef bitarnir eru litlir.

Makiko, sú sem uppskriftin kemur frá, mælir með að brjóta nokkra steina og taka kjarnana úr þeim í heilu lagi, binda grisju utan um þá og sjóða með sultunni (þeim er síðan hent að suðu lokinni). Það á að koma smá möndlukeimur af sultunni ef þetta er gert. Ég hef nú gert sultu bæði með og án steinanna, og fann engan mun á bragðinu, þannig að etv. virkar þetta bara ef maður er að gera apríkósusultu.

Setjið sykurinn og vatnið í pottinn og sjóðið saman yfir meðalhita þar til sykurinn er bráðinn. Sjóðið áfram þar til sykurlögurinn þykknar aðeins en gætið þess að brenna hann ekki.

Setjið helminginn af ávaxtahelmingunum (ef ferskjur eða nektarínur: þann helminginn sem er í stærri bitum) saman við sírópið og sjóðið við lágan hita þar til ávextirnir eru við það að renna í sundur. Hrærið í við og við til að losa ávextina betur í sundur.

Setjið þá hinn helminginn saman við og sjóðið þar til ávaxtabitarnir eru vel gegnumsoðnir og mjúkir en hanga enn saman. Ekki hræra mikið í eftir að seinni skammturinn er kominn út, nema rétt til að dreifa þeim um maukið ef einhverjir bitar standa upp úr. Þetta ætti að taka um klukkustund fyrir apríkósur og um 1 1/2 til 2 klukkustundir fyrir ferskjur/nektarínur, en endanlegur tími veltur á því hversu þroskaðir ávextirnir eru. Ferskjur og nektarínur taka lengri tíma því að það er frekar lítið af náttúrulegu pektíni (hleypiefni) í þeim og því þarf að sjóða ferskjusultu lengur en apríkósusultu til að hún þykkni. Ef menn vilja mætti flýta fyrir og fá þéttari sultu með því að skræla ca. 2-3 epli og sjóða eplahýðið með ferskjunum.


(Ef sultan brennur við, hellið henni þá í annan pott og gætið þess að ekkert af því brennda fylgi með. Lækkið hitann og sjóðið áfram eins og þarf).

Bætið sítrónusafanum saman við þegar sultan er að verða soðin og hrærið vel saman. Mallið í 5 mínútur í viðbót og takið þá af hellunni. Fjarlægið grisjuna með kjörnunum ef þið notuðuð þá.

Á þessu stigi læt ég Benson-Nat rotvarnarefni saman við til að auka geymsluþolið, en í upprunalegu uppskriftinni er ekkert minnst á rotvarnarefni, bara dauðhreinsaðar krukkur. Þetta þýðir samt ekki að sultan skemmist fljótt ef ekkert Benson-Nat er notað. Ef krukkurnar eru dauðhreinsaðar sjá sykurinn og sýrustigið um geymsluþolið (þess vegna er notaður sítrónusafi), en aftur á móti þarf að geyma krukkurnar í kæli eftir að þær eru opnaðar.

Svona er mín aðferð við krukkurnar (sjá upprunalegu leiðbeiningarnar fyrir aðferð Makiko):

Á meðan sultan sýður skal taka þær krukkur sem gert er ráð fyrir að þurfi undir sultuna, plús eina eða tvær í viðbót (til vonar og vara), þvo vandlega með uppþvottalegi og heitu vatni og skola þær vel. Ef endurnýta á notaðar krukkur og það er lykt úr þeim má nota húsráðið mitt til að eyða lykt úr glerílátum.

Síðan eru bæði krukkur og lok sett blaut inn í ca. 110 °C heitan ofn, með opin upp, og látin þorna þar í hitanum í að minnsta kosti 10 mínútur. Rétt áður en sultan er tilbúin eru krukkur og lok tekin út (notið töng eða grillhanska) og skoluð með lausn af 1 tsk af Benson-Nati og 2 tsk af sjóðandi vatni (notið matskeiðar ef uppskriftin er tvö- eða þrefölduð). Lagið Benson-Nat lausnina í fyrstu krukkuna, skrúfið lokið á og hristið krukkuna vel, takið lokið af og hellið leginum í næstu krukku og svo koll af kolli. Leggið krukkurnar með opin niður á hreint viskastykki til að leyfa umfram rotvarnarefni að renna úr þeim. Sultan er nú tekin af hitanum, krukkunum snúið við (best er að þær séu enn heitar) og þær fylltar upp að brún með sultu og lokað strax. Gætið þess að koma ekki við innra borðið eða brúnirnar á krukkum og lokum. Leyfið að standa og kólna.

Ef einhverjar krukkur ganga af má loka þeim og geyma og nota síðar undir sultu sem er löguð köld, t.d. jarðarberjasultu. Heitar sultur, marmelaði og hlaup ætti alltaf að setja í heitar krukkur og kaldar sultur í kaldar krukkur.

Lokin ættu fljótlega að innsigla sig með smelli (svæðið í miðjunni smellur niður) en ef einhverjar þeirra gera það ekki mæli ég með að borða úr þeim krukkum fyrst og geyma þær í kæli, því þær eru óþéttar. Geymið annars á dimmum, svölum stað. Með rotvarnarefni ætti sultan að geymast í allt að 2 ár, en ég lofa því að ef ykkur á annað borð líkar við ávexti, þá verður hún mikið fljótari að klárast.

P.S.
Sultan sem ég gerði núna varð öðru vísi á litinn en sultan frá í fyrra, sem var skærgul eins og fífillblóm. Sú nýja minnir helst á rabarbaragraut og varð líka þynnri. Líklega litaðist hún dekkri af hýðinu á nektarínunum.

01 júlí, 2011

Appelsínukaka

Þessi er himnesk!
Létt og mild appelsínukaka sem er ekki of sæt.

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook.

Efni:
8 msk. ósaltað smjör
3/4 bolli strásykur
2 egg, rauður og hvítur aðskildar
Rifinn börkur (bara appelsínuguli hlutinn) af 2 appelsínum
1 1/2 bolli óbleikt hveiti (t.d. Kornax)
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. matarsódi
1/4 tsk. salt
1/2 bolli ferskur appelsínusafi


Aðferð:
Forhitið ofninn í 175°C (blástursofn: 165 °C). Smyrjið 25-cm hringform (ég notaði reyndar venjulegt springform af því að hringformið mitt er of lítið fyrir þessa uppskrift, og lengdi bökunartímann aðeins).

Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt.

Hrærið smjörið mjúkt í hrærivél og bætið sykrinum smám saman út í og hrærið þar til blandan er létt og ljós. Setið eggjarauðurnar saman við, eina í einu, og síðan appelsínubörkinn.

Bætið þurrefnunum smám saman út í soppuna, til skiptis við appelsínusafann.

Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið varlega saman við soppuna með sleikju.

Hellið soppunni í formið. Bakið í 30-35 mín., eða þar til hliðarnar á kökunni losna frá forminu og prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn.

Kælið í 10 mín. í forminu, og hvolfið þá forminu á grind. Kakan ætti að losna auðveldlega úr því. Snúið kökunni við, setjið disk undir grindina og hellið appelsínugljáanum yfir kökuna á meðan hún er enn heit. Látið kökuna kólna niður í stofuhita áður en hún er borin fram. 

Appelsínugljái:
1/4 bolli ferskur appelsínusafi
1/4 bolli strásykur

Setjið sykurinn og safann saman í pott og sjóðið saman við lágan hita í 5 mín., eða þar til sírópið þykknar aðeins. Hrærið í af og til.

29 júní, 2011

Hrísgrjón með blaðlauk og sveppum

Mjög góður grænmetisréttur eða sem heitt meðlæti með kjötréttum. Ef notuð eru Basmati-hrísgrjón kemur örlítið hnetubragð af réttinum sem fer vel með blaðlauknum.

Matreiðslubók: The Onion Book eftir Carolyn Dille og Susan Belsinger.
Fyrir: 2 sem aðalréttur; 4 sem meðlæti.
Tími: ca. 30 mínútur.

Innihald:
2 bollar hrísgrjón, hvít eða brún
4 1/2 til 5 bollar heitt grænmetissoð, kjúklingasoð (fleytið fitunni ofan af), eða vatn
1 tsk. salt
2 msk. ólífuolía
1 msk. ósaltað smjör (ef nota á saltað smjör, þá má minnka viðbætta saltið um helming)
4 blaðlaukar, það dekksta af græna hlutanum skorið frá (geymið til að nota t.d. í súpu), skornar langsum í tvennt, skolaðar vel of skornar í 1/2 cm sneiðar
2 bollar sveppir í sneiðum
Salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Til að gera þennan rétt að vegan-grænmetisrétti skal nota grænmetissoð eða vatn, sleppa smjörinu og auka ólífuolíuna um 1 msk.

Aðferð:
Setjið hrísgrjónin, 4 bolla af soði/vatni og saltið í pott með þykkum botni, setjið lokið á og látið suðuna koma upp yfir meðalhita. Þegar sýður skal minnka hitann niður í lægsta hita sem þarf til að halda suðunni við (1/2 eða 1). Sjóðið í þann tíma sem gefinn er upp á hrísgrjónapakkanum. Þau eiga að vera gegnsoðin en ekki lin (sem sagt al dente).

Á meðan grjónin eru að eldast skal hita ólífuolíuna við meðalhita á pönnu. Bætið við lauknum og snöggsteikið hann í um 3 mín. og hrærið í af og til.

Bætið sveppunum saman við og snöggsteikið með lauknum í ca. 3 mín. til viðbótar og hrærið í af og til. Bætið við 1/4 til 1/2 bolla af soði/vatni og smakkið til með salti og pipar. Lækkið hitann niður í 1, setjið lokið á og sjóðið í um 5 mín. og hrærið í af og til.

Þegar hrísgrjónin eru soðin er vatninu hellt vel af þeim og grjónunum blandað saman við laukinn og sveppina ásamt því sem eftir er af soðinu/vatninu. Smakkið til og berið fram heitt.

Til tilbreytingar má nota saman til helminga hrísgrjón og villihrísgrjón, nota morelle- eða chanterelle-sveppi í stað hvítra sveppa, og/eða bæta smá hvítvíni eða rauðvíni út í réttinn undir lok suðutímans.

Á myndinni var rétturinn skreyttur með graslauk áður en hann var borinn fram.

27 júní, 2011

Appelsínumarineruð svínarif

Það fór allt á hvolf hjá mér í sumarfríinu og ég datt út af teinunum með bloggið, en af því að sumarið virðist loksins nokkurn veginn komið, þá verður þessi vika tileinkuð sumarmat: köldum drykkjum, grillmat og léttum réttum. Hér, til að byrja með, er einn ágætis grillréttur. Hann kemur úr matreiðslubók sem ég held að ég sé búin að losa mig við.

Matreiðslubók: Entertaining

Fyrir 8.

Efni:
1,5 kg svínarif (spare-ribs eða baby-back ribs)

2 msk. tært hunang
1 msk. sítrónusafi
1 msk Worchestershire-sósa
1 tsk. sojasósa
2 appelsínur
Salt og pipar

Aðferð:
Skerið rifjastykkið niður í stök rif.

Blandið saman hunangi, sítrónusafa, Worchestershire-sósu og sojasósu í litlum potti og bætið við rifnum berki (bara þetta appelsínugula) af einni appelsínu og safann úr báðum appelsínunum. Bætið við salti og pipar og hitið hægt upp (ekki láta sjóða) og hrærið í af of til. Takið af hellunni og látið kólna.

Hellið marineringarleginum yfir kjötið og látið marinerast yfir nótt.

Hitið ofninn í 180 °C. Takið rifin upp úr marineringunni og setjið þau í ofnfast fat. Geymið löginn. Bakið rifin í ofninum í 1 klukkustund.

Hitið grillið, takið rifin úr ofninum og grillið og snúið þeim oft við og penslið með marineringarsósunni. Grillið þar til það er komin skorpa á þau (ca. 15 mín.). Ég mæli með að strá ögn af salti yfir þau um leið og þau eru pensluð, því að þetta er ekki bragðmikið þó að það sé bragðgott. Saltið eykur bragðið.


Athugasemdir:
Þetta er bragðmildur réttur og hentar vel fyrir fólk sem líkar ekki bragðmiklar sósur með tómatsósu eða púðursykri. Ef ég geri aftur appelsínurif, þá hugsa ég að ég noti appelsínumarmelaði í sósuna í staðinn fyrir safa og börk, til að fá sterkara bragð og glaseringu í grilluninni.

19 júní, 2011

Farin í sumarfrí

Ég er farin í sumarfrí. Því verður fimmtudagsúrklippan eina uppskriftin sem birtist þessa vikuna.

18 júní, 2011

Ískyggilegur eplasafi

Þennan drykk lærði ég að meta þegar ég dvaldist í Danmörku um tíma. Ein vinkona mín var yfir sig hrifin af honum. Hann er mjög svalandi og líka varasamur því maður finnur ekki áfengisbragð af honum.

2 kokkteilmál af Amaretto-líkjör
Kaldur eplasafi
Highball-glas
Skraut: sólhlíf og rör

Hellið Amaretto í glasið og fyllið upp með köldum eplasafa.

Plat-viskí: 
Þetta er fyrir þá sem vilja virðast vera töffarar sem drekka viskí:

1 kokkteilmál Amaretto
Kaldur eplasafi
Viskíglas
Klaki (má sleppa)

Farið eins að og með Ískyggilega eplasafann, en notið ekki skraut. Er nógu líkt viskíi á litinn til að blekkja í skuggalegri bar-birtu. Notið klaka ef vill.

15 júní, 2011

Aloo gobi: Indverskt kartöflu- og blómkálskarrí fyrir fólk sem ekki fílar chili-pipar

Aloo gobi er klassískur indverskur grænmetisréttur. Þetta er uppskrift sem ég hef sett saman úr öðrum uppskriftum og aðlagað að mínum bragðlaukum, en Indverji mundi þó hiklaust kalla hana ekta.

Þetta er góður aðalréttur eða sem meðlæti. Uppskriftin er þannig að auðvelt er að hafa hana eins sterkkryddaða og maður vill. Þetta er svokallað „þurrt“ karrí, sem þýðir að það er ekki syndandi í sósu heldur húðað með kryddmauki.

Aloo þýðir „kartafla“ á Hindi og Urdu, og gobi þýðir „blómkál“.

Fyrir 1 sem aðalréttur, 2 sem forréttur, 3-4 sem meðlæti.


  • 2 meðalstórar kartöflur, skornar í teninga, ca. 1,5 cm. á kant
  •  Jafnmikið af blómkáli, skipt í hríslur
  • 1/2 laukur, grófsaxaður
  • 2-3 cm stykki af ferskri engiferrót, rifið eða mjög fínsaxað
  • 1 tsk. gult sinnepsfræ
  • 1 tsk. cummin (eða eftir smekk)
  • 2 tsk. malaður kóríander (eða eftir smekk)
  • 1 tsk. kúrkúma duft (túrmerik)
  • Hvítlaukur eftir smekk
  • salt
  • 1/2 bolli vatn
  • 1 msk. olía til steikingar, meira ef pannan er ekki teflon-húðuð (EKKI ólífuolía, helst af öllu skírt smjör)

(Ef óskað er eftir ekta brennheitu chili-bragði skal bæta við eins miklu af söxuðum ferskum chili-pipar eins og maður vill – en þá má heldur ekki gleyma að bera fram raita-salatið, sem er kælandi...).

Hitið olíuna á steikarpönnu eða í wok-pönnu. Þegar hún er orðin vel heit eru sinnepsfræin sett á hana og lokið strax sett á pönnuna. Leyfið fræjunum að poppa í um 20 sekúndur, lækkið þá hitann og setjið cummin, kóríander, kúrkúmu, hvítlauk, engifer og lauk á pönnuna og blandið vel saman. Steikið varlega þar til laukurinn er glær og gætið þess að brenna ekki kryddin.

Setjið nú kartöfluteningana og blómkálshríslurnar á pönnuna og hrærið til að húða þau með kryddmaukinu. Steikið við sama hita í ca. 2 mín og bætið þá vatninu við og mallið í 10-15 mín., eða þar til kartöflubitarnir eru gegnsoðnir og sósan hefur þykknað.
 
Berið fram sem meðlæti með kjötréttum eða sem aðalrétt með naan- eða chappati-brauði og raita-salati.

Raita (jógúrtsalat):
1/2 bolli hrein jógúrt eða AB-mjólk
1/2 tsk. cummin-fræ
1/2 tsk. cummin-duft
1/2 gúrka, fínsöxuð
Klípa af salti

Hrærið salti og kryddi saman við jógúrtina ásamt gúrkunni. Kælið. Mjög gott og svalandi salat með sterkkrydduðum mat.

14 júní, 2011

Pasta Carbonara

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook.
Fyrir 4-6. 

Hér er gómsætur, einfaldur og mjög fljótlegur réttur sem ég elda oft. Rétt nafn á réttinum er Pasta alla carbonara, sem þýðir „pasta að hætti kolagerðarmannsins“.

500 gr. beikonsneiðar, skornar í bita (á myndinni er reyndar notuð parmaskinka)
2 tsk. salt
500 gr. spaghetti, linguine, fettuchini, rigatonne eða bucatini pasta
3 egg
1/3 bolli söxuð steinselja
rifinn Parmesan- eða Pecorino Romano-ostur
nýmalaður svartur pipar


Steikið beikonið á pönnu þar til það er stökkt. Takið af pönnunni og látið fituna renna af því á eldhúspappír.

Látið suðuna koma upp á 4 lítrum af vatni í stórum potti. Saltið vatnið og setjið pastað út í. Hrærið í til að pastað festist ekki saman. Sjóðið eftir leiðbeiningunum á pakkanum, þar til það er al dente (gegnsoðið en ekki þannig að það sé í mauki).

Á meðan pastað er að eldast, þeytið eggin vel í skál sem er nógu stór undir pastað og all hitt. Eggin þurfa að vera byrjuð að freyða. Hafið beionið og steinseljuna við hendina.

Þegar pastað er soðið er því hellt í sigti og vatnið látið renna af því. Hristið til að losna við sem mest vatn.

Hellið pastanu í skálina með eggjunum og byrjið strax að hræra í því. Lyftið pastanum upp með tveimur salatskeiðum eða sleifum og látið detta niður í skálina. Endurtakið þar til öll eggjahræran húðar það vel. Eggin eiga að vera linsoðin.

Bætið við beikoninu og steinseljunni og blandið vel saman við. Malið svartan pipar yfir diskinn eftir smekk hvers og eins og þeir sem vilja geta fengið sér Parmesan eða Pecorino-ost með.

Mín uppskrift:

Út frá uppskriftinni að ofan hef ég þróað mína eigin uppskrift:

Fyrir 2.

Efni:
200 gr. beikon í sneiðum, steikt eins og sagt er fyrir um að ofan EÐA 160 gr. Parmaskinka, þunnar sneiðar skornar í ferninga og snöggsteikt þar til eldað í gegn en ekki stökkt (ca. 1 mín.). Það er notað minna af Parmaskinku en maður mundi nota af beikoni af því að hún er svo sölt og bragðmikil að það þarf ekki meira.
1/2 tsk. salt
250 gr. spaghettí eða linguine
2 lítil egg
ca. 1 1/2 msk. steinselja
Nýmalaður svartur pipar eftir smekk
rifinn Paresan eða Pecorino Romano-ostur (ef vill). Mér finnst rétturinn betri án ostsins, en það er að sjálfsögðu bara minn smekkur.

Aðferð:
Sömu leiðbeiningar og að ofan.

13 júní, 2011

Gelato með pistasíu-hnetum

Það er engin matreiðslubók vikunnar í þessari viku, en í staðinn koma léttar og sumarlegar uppskriftir úr ýmsum áttum.

Ekta gelato eða ítalskur ís er fituminni en rjómaís, en sykurhlutfallið er aftur á móti aðeins hærra. Þessi uppskrift, sem er ættuð frá Sikiley, skilar ís sem er svo þéttur í sér og mjúkur að erfitt er að trúa að hann innihaldi hvorki rjóma né egg.

Grunnurinn í gelato siciliano er svokallaður crema rinforzata, nokkurs konar búðingur úr mjólk og sterkju. Ég vígði ísvélina mín með þessari uppskrift, og það var góð vígsla.

Ég hendi kannski inn uppskrift að súkkulaði-gelato seinna meir.

Uppskriftin kemur úr bandaríska matreiðslutímaritinu Saveur.

Efni:
4 bollar mjólk
1 bolli sykur
3 msk. maísmjöl
2 bollar (ca. 280 gr) skelflettar ósaltaðar pistasíu-hnetur, fínmalaðar í matvinnsluvél eða kryddkvörn

Aðferð:
Hleypið upp suðunni á 3 bollum af mjólk í potti yfir meðalhita. Takið af hellunni. Á meðan mjólkin hitnar, blandið saman 1 bolla af mjólk, sykrinum og maísmjölinu í skál. Hrærið saman við heita mjólkina í pottinum. Setjið aftur á helluna og látið krauma þar til blandan þykknar aðeins, ca. 8-10 mínútur.

Setjið pistasíumjölið í skál og hrærið heitri mjólkurblöndunni saman við. Látið kólna, setjið lok á skálina og geymið í kæli yfir nótt.

Síið blönduna í gegnum fíngert sigti ofan í skál og þrýstið pistasíumjölinu í gegn með skeið. Hendið því hrati sem verður eftir í sigtinu. Kælið í ísvél eftir leiðbeiningum.

Ef ekki er ísvél á heimilinu:
Setjið búðingsblönduna í skál sem er talsvert stærri en þarf undir magnið. Frystið í 40-50 mínútur og takið þá ísinn út og hrærið vel í honum, t.d. með handþeytara á lágum hraða. Setjið aftur í frost. Endurtakið á 20-30 mínútna fresti þar til ísinn er of þykkur til að hræra í honum. Ísinn ætti að hafa aukið rúmmál sitt nokkuð og kristallar í honum verða ekki eins stórir og í ís sem er frystur án þess að hræra í honum.

10 júní, 2011

Marinerað kartöflusalat

Þetta er ljúffengt salat sem er hægt að bera fram sem meðlæti með aðalrétti eða sem smárétt. Ég hef minnkað uppskriftina um helming frá því sem er í bókinni. Það er fínt að búa það til þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað, því í þessu salati eru þær borðaðar með hýðinu.

Matreiðslubók: The New Enchanted Broccoli Forest.

Fyrir 3-4.

Efni:
  • 7 nýjar kartöflur, ca. 6 cm í þvermál, óskrældar og skornar í teninga (ca. 2 cm á kant)
  • 1/2 bolli rauðvínsedik
  • 2,5 bollar vatn
  • 4 meðalstór hvítlauksrif, flysjuð og skorin í tvennt að endilöngu
  • 1 tsk salt
  • 1/2 bolli fínt sneiddur rauðlaukur
  • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aukalega, ef þið viljið:
  • sletta af góðri extra-virgin ólífuolíu
  • ögn af fínsaxaðri ferskri steinselju, basiliku og/eða graslauk
  • mjög fínsneidd rauð paprika

Til skrauts, ef þið viljið:
  • Niçoise ólífur
  • sneiddir kirsuberjatómatar

Aðferð:
Setjið kartöflur, edik, vatn, hvítlauk og salt í stóran pott. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann þannig að rétt mallar í vökvanum og sjóðið án loks þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar en ennþá fastar fyrir (ca. 15 mín.).

Hellið í sigti og látið vökvann renna af. Setjið í skál og hrærið rauðlauknum saman við á meðan kartöflurnar eru ennþá heitar. Smakkið til með piparnum. Látið kólna niður í stofuhita.

Ef þess er óskað má skvetta smávegis af góðri ólífuolíu yfir salatið áður en það er borið fram og hræra saman við það kryddjurtum og paprikusneiðum. Berið fram við stofuhita eða kalt, eins og það kemur fyrir eða skreytt með ólífum og/eða kirsuberjatómötum.

Tilbrigði:
Þetta salat er ennþá betra ef maður tekur lauk, sneiðir og steikir mjúkan og hrærir salatinu saman við og lætur það hitna í gegn. Höfundur bókarinnar mælir með því í morgunmat, en það er gott á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Því miður á ég ekki mynd af því, en set hana inn ef ég man eftir myndavélinni þegar ég bý það til næst.

07 júní, 2011

2 múffuafbrigði (muffins) - bláberja og banana/súkkulaði

Þetta eru bestu bláberjamúffur sem ég hef smakkað, og hitt tilbrigðið er ekki síður gott.

Bláberjauppskriftin er úr matreiðslubókinni The New Enchanted Broccoli Forest, en banana/súkkulaðitilbrigðið er mín uppfinning. Það varð til þegar ég sat eitt sinn uppi með einn svartan banana og langaði ekki í bananabrauð.




Tími: 10 mín. í undirbúning, 15-20 mín. að baka.
Magn: 12 stk

Efni:
1 1/2 bolli óbleikt hvítt hveiti (eða 1 b. hveiti og 1/2 brauðhveiti)
1/2 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. rifinn sítrónubörkur (bara það gula - má sleppa)
1/3 bolli sykur
4 msk. brætt smjör
3/4 bolli mjólk (má nota undanrennu)
1 egg
3 msk. nýkreistur sítrónusafi (eða bara þessi í flöskunum - ég finn a.m.k. engan mun)
1 bolli bláber (fersk eða ósykruð frosin, þarf ekki að afþýða)

Aðferð:
Hitið ofninn í 175 °C. Ef þarf að smyrja múffuformin eru þau smurð með smá smjöri eða olíu.

Sigtið saman hveitið, matarsódann, lyftiduftið og saltið í skál. Bætið við sítrónuberkinum og sykrinum og blandið vel. Gerið holu í miðja hrúguna.


Hrærið saman smjörinu, egginu og mjólkinni í annarri skál. Hellið í holuna í hveitiblöndunni og hrærið varlega saman við og bætið þá við sítrónusafanum (þetta er gert til að mjólkin ysti ekki) þar til rétt blandað, og bætið bláberjunum smám saman út í. Skiptið jafnt á milli 12 múffuforma (ég nota múffubakka úr Ikea og set pappírsform ofan í), eða notið fleiri ef formin eru lítil. Hvert form má ekki vera fyllra en að 2/3.

Bakið í 15 til 20 mín, eða þar til tannstöngull sem er stungið í miðja múffu kemur út hreinn. Takið strax úr forminu og kælið á grind í 10 mín. og berið fram volgar. Líka góðar kaldar. Geymast í 2-3 daga, helst á köldum stað. Má frysta.

Til að gera banana- og súkkulaðimúffur, sem eru hrikalega góðar, er uppskriftinni breytt á eftirfarandi hátt:

1. Smjörið minnkað niður í 2 msk. og sítrónuberkinum sleppt. 

2. Í staðinn fyrir bláber þarf einn banana, vel þroskaðan og 1/2 til 2/3 bolla af súkkulaðispæni eða súkkulaðidropum (þessum litlu sem eru ætlaðir í smákökur). Bananinn er stappaður vel og hrært saman við deigið ásamt súkkulaðinu.

3. Það gæti þurft að lengja bökunartímann um 5 mínútur eða svo, því að deigið verður aðeins blautara með banana. Prófið með prjóni eða tannstöngli þegar uppgefinn bökunartími er liðinn.

06 júní, 2011

Síðan skein sól og Rísandi sól: Frískandi sumardrykkir

Síðan skein sól:
Þetta er frískandi sumardrykkur sem minnir svolítið á Mix, en er bragðmeiri og ekki eins sætur. Mín eigin uppskrift (ekki að þetta sé eitthvað flókið...).
 
1 dl hreinn ananassafi
1 dl Sprite eða 7Up eða Sprite Zero eða 7Up Lite
Klaki
Hátt glas
Skraut: ananashringur, pappírssólhlíf, rör

Hellið ananassafanum í glasið, bætið gosinu við og síðast klakanum. Skerið í gegnum ananashringinn á einum stað og smeygið upp á glasbrúnina. Setjið sólhlífina á móti ananasnum í glasið, og bætið við rörinu.

Þennan drykk má vel blanda sem bollu, í hlutföllunum 1:1.

Rísandi sól:
Blandið saman ananssafa og gosi í sömu hlutföllum og í Síðan skein sól. Látið skot af grenadine-sýrópi renna niður hliðina á glasinu og setjast á botninn áður en klakinn fer í glasið. Bætið við klaka og skreytið.



05 júní, 2011

Matreiðslubók vikunnar: The New Enchanted Broccoli Forest

The New Enchanted Broccoli Forest eftir Mollie Katzen er grænmetisréttabók fyrir fólk sem neytir líka afurða af lifandi dýrum, s.s. mjólkurvöru og eggja.

Ég fékk hana á útsölu, ég held hjá Eymundsson, fyrir nokkrum árum síðan. 

Ég er rétt að byrja að elda úr henni, en hún er full af bókamerkjum við uppskriftir sem mér líst vel á. Fyrsta uppskriftin sem ég gerði úr henni er frábær uppskrift að bláberjamúffum sem allir sem á smakka vilja sníkja af mér, og hún er líka skemmtileg aflestrar og full af hollum og góðum grænmetisréttum.

Ef einhverjum finnst grænmetisfæði vera óspennandi, þá ætti viðkomandi að skoða þessa bók. Það eru kaflar um súpur, salöt, brauð, sósur og ídýfur, aðalrétti og eftirrétti, og margt af þessu er mjög spennandi.

Þetta er líka eiguleg og falleg bók, handskrifuð og fagurlega myndskreytt með teikningum höfundarins.

04 júní, 2011

Húsráðahornið: Að ná lykt úr glerkrukkum

Hentar líka fyrir flöskur.

Stundum er afar erfitt að ná lykt úr notuðum krukkum. Þetta ráð hefur reynst mér vel:

Setjið 1 msk. af ediki (eða 1 tsk. af ediksýru) í hverja krukku og fyllið krukkurnar með sjóðandi vatni. Setjið lokin á og skrúfið þétt, og látið standa í klukkutíma, helminginn af tímanum með lokið niður (ef vatn lekur út er lokið óþétt og krukkan ekki nothæf undir mat).

Hellið þá ediksblöndunni og þvoið krukkurnar upp úr heitu vatni og sápu og þurrkið vel. Það er eðlilegt að þá sé smá vottur af edikslykt úr krukkunum, en ef þær eru geymdar opnar hverfur hún fljótt.

Það getur einstöku sinnum þurft að endurtaka leikinn, t.d. með krukkur undan lyktsterku innihaldi eins og síld, pesto eða mangó-chutney.

03 júní, 2011

Pílaf með grænum baunum (Mattar pilau)

Þetta er gott meðlæti með kjöti eða grænmetiskarríi. Reyndar er rétturinn það matarmikill að hægt er að borða hann sem aðalrétt. Rétturinn á ættir sínar að rekja til Uttar Pradesh-héraðs á Indlandi.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook
Fyrir 4-5 sem meðlæti; fyrir 2 sem aðalréttur.

Efni:
1 1/2 bolli hrísgrjón (long grain eða Basmati)
1 msk. ghee (skírt smjör) eða matarolía (samt ekki ólífuolía)
4 heilir negulnaglar
1 lítil kanilstöng
3-4 kardimommubelgir, marðir
1 tsk. cummin-fræ
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
1 1/2 bolli ferskar eða frosnar grænar baunir
2 1/2 tsk. salt
3 1/4 bolli heitt vatn

Aðferð:
Skolið grjónin vel og látið standa í köldu vatni í um hálftíma og látið þá renna vel af þeim.

Hitið ghee eða olíu á djúpri pönnu og steikið negulnaglana, kanilinn, kardimommurnar og cumminfræin í 1 mín.

Bætið við kúrkúma og hrísgrjónum og steikið og hrærið við meðalhita í um 3 mín.

Bætið þá við baunum, salti og heitu vatni. Hækkið hitann til að suðan komi sem fyrst upp, lækkið hann þegar sýður, setjið þétt lok á pönnuna (loka loftventli ef hann er til staðar) og sjóðið í 25-30 mín. án þess að taka lokið af eða hræra.

Takið lokið af og leyfið gufunni að stíga af grjónunum í um 3 mín. Fjarlægið heilu kryddin, hrærið varlega í gegnum grjónin með gaffli og berið fram.

01 júní, 2011

Vindaloo-kjúklingakarrí frá Goa (Murg Vindaloo)

Matur frá Goa á Indlandi þykir mjög gómsætur og sérstakur. Í 450 ár blandaðist saman matargerð innfæddra við portúgalska matarhefð á þeim tíma sem Goa var portúgölsk nýlenda, og útkoman var nokkuð  alveg sérstakt.

Vindaloo er karrí sem er lagað með ediki og getur innihaldið kjúkling, lambakjöt eða svínakjöt. Það er oftast sterkkryddað og með miklum chili-pipar, en þessi útgáfa er mildari og hentar ágætlega þeim sem vilja karríið sterkt en ekki þannig að logarnir standi út um eyrun á þeim.

Kjúklingurinn verður meyr og vel kryddaður en ekki eldsterkur. Það er snarpt eftirbragð af sósunni, sennilega út af edikinu.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook

Fyrir: 4-6
Eldunartími: um 50 mínútur, plús 60 mínútur til að marinera.

Efni:
1,5 kg. af blönduðum kjúklingabitum, svo samsvarar einum kjúklingi: leggir, læri og bringa í fjórum bitum (ég notaði vængi þegar ég prófaði uppskriftina og stytti eldunartímann svolítið og það kom vel út)
4 msk. djúpsteikingarolía
2 tsk. salt
1/2 tsk. malaður svartur pipar

Karrímauk:
2 msk. cummin-fræ
1 msk. svört sinnepsfræ (má nota brún)
2 tsk. chili-duft eða eftir smekk
1 msk. saxaður ferskur engifer
1 msk. saxaðar ferskur hvítlaukur
1/2 bolli edik (bara venjulegt, ekki bragðbætt)
1 tsk. kanill
1/4 tsk. negull
1/4 tsk. kardimommur

Aðferð:

Setjið cummin-fræin og sinnepsfræin í blandara með chili, engifernum, hvítlauknum og edikinu. Saxið vel saman og hrærið kanil, negul og kardimommum saman við. Maukið verður mjög þykkt.

Hitið olíuna í þykkbotna potti. Ekki nota járnpott því að það geta orðið efnahvörf í honum vegna ediksins. Þegar olían er orðin steikingarheit, takið hana þá af hellunni og setjið karrímaukið á hana. Hrærið í nokkrar sekúndur til að hita maukið (ekki reyna að blanda saman við olíuna). Setjið því næst kjúklinginn á pönnuna og hrærið vel til að húða kjúklinginn með maukinu. Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið í skál og látið standa í um klukkustund í kæli til að maukið nái að síga inn í kjúklinginn.


Eftir klukkustund skal taka kjúklinginn og setja aftur á kalda pönnuna og láta hann hitna á pönnunni við lágan hita þangað til að kraumar í sósunni. Bætið við salti og pipar og mallið áfram þar til kjúklingurinn er gegnsteiktur. Hræri í af og til svo að kryddið brenni ekki við pönnuna.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Líka góður kaldur.

30 maí, 2011

Djúpsteikt grænmeti að hætti Indverja (Pakorur)

Þetta er ljúffengur indverskur skyndibiti sem er eldaður eftir pöntun fyrir framan mann á götuhornum og lestarpöllum út um allt Indland. Deigið minnir á Orly-deig.

Besan, eða kjúklingbaunamjöl, er mikið notað í indverskri matargerð, bæði í bakstur, í pönnukökur og í sælgæti.  Það fæst í asískum matvöruverslunum og heilsubúðum og er oft selt undir heitinu Gram Flour í þeim síðarnefndu.

Þeir sem vilja prófa að búa það til heima hjá sér geta farið í Wikipedia-greinina um besan og farið eftir leiðbeiningunum þar.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook

Deig:
3/4 bolli kjúklingabaunamjöl
3/4 bolli hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 1/2 tsk. pressaður ferskur hvítlaukur
1 1/2 tsk. salt
1 tsk. garam masala-kryddblanda
1/2 tsk. chilli-duft (valkvætt)
Ca. 1 bolli vatn eða eins og þarf til að ná réttri þykkt


Fylling:
2 meðalstórar kartöflur
1 meðalstórt eggaldin
1 meðalstór laukur
Fersk spínatlauf
Olía til djúpsteikingar

Blandið saman mjöli, hveiti og lyftidufti. Bætið við vatni, hvítlauk, salti, garam masala og chilli-dufti og hrærið þar til létt og samfellt (gott að gera í hrærivél eða með handþeytara á litlum hraða). Á að vera álíka þykkt og pönnukökudeig. Setjið lok á skálina og látið standa við stofuhita í um klukkustund. Þetta er gert til að láta deigið samlagast vel og fá pínulitla gerjun í það.

Skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar, ca.1/4 cm þykkar. Látið í kalt vatn til að þær verði ekki brúnar. Rétt fyrir steikingu skal taka kartöflurnar upp úr vatninu og þerra þær.

Skolið eggaldinið, þerrið og skerið í þunnar sneiðar (skrælið ekki). Sneiðarnar mega vera aðeins þykkari en kartöflusneiðarnar. Ef eggaldinið er mjög stórt má skipta sneiðunum í fernt eða skera þær í munnbita.

Skrælið laukinn og skerið í tvennt langsum (þannig að sinn hvor helmingurinn af rótarendanum sé á hvorum helmingi) . Skerið síðan langsum í þunnar sneiðar, ca. 1/2 cm, þannig að ögn af rótarendanum haldi hverri sneið saman.

Skolið spínatið, þerrið og rífið í flygsur.

Hitið olíuna á wok-pönnu, djúpri pönnu eða í djúpsteikingarpotti (stillið á hæsta hita). Dýfið bitum af grænmeti og lauk í deigið, látið umframdeig drjúpa af og setjið í heita olíuna. Steikið bara nokkur stykki í einu til að olían kólni ekki um of, því ef hitinn er of lítill verða pakorurnar seigar og olíumettaðar. Snúið þeim í olíunni ef þarf til að þær brúnist jafnt. Pakorur eiga að vera léttar, gullinbrúnar og hjúpurinn stökkur. Látið olíuna leka af þeim á eldhúspappír og berið fram heitar með chutney (t.d. mangó) eða raita (jogúrtsalat) til að dýfa í.

Annað grænmeti sem er gott að nota í pakorur:
  • Kúrbítur (zucchini)
  • Blómkál
  • Hnúðkál
  • Klettasalat
  • Paprikubitar
  • Heill jalapeno-pipar

Athugasemdir:
  • Gott deig fyrir laukhringi.
  • Má nota til að hjúpa fisk eða rækjur í staðinn fyrir Orly-deig.
  • Ágætar kaldar, en þá hættir deigið að vera stökkt og meira grænmetisbragð er af bitunum.
  • Fínt að vera með nokkrar mismunandi dýfur, t.d. sæta (s.s. mangó-chutney), sterka (s.s. sæta chilli-sósu) og súra (raitu eða sýrðan rjóma með graslauk).
  • Það mætti prófa að saxa grænmetið (bitar ca. á stærð við baunir) og blanda saman með graslauk, ferskum baunum og/eða maíssbaunum, hræra öllu saman við deigið og gera blandaða bita.

29 maí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook

Charmaine Solomon er matreiðslubókahöfundur og kokkur sem er ættuð frá Sri Lanka en býr í Ástralíu. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir matreiðslubækurnar sínar, og mig blóðlangar í tvær af þeim til viðbótar við þessa: The Complete Asian Cookbook og The Encyclopedia of Asian Food.

Bókina, sem eins og sjá má er mikið notuð, fékk ég í Góða hirðinum. Hún var slitin og greinilega mikið notuð þegar ég fékk hana og ekki hefur hún fríkkað síðan, því ég nota hana mest af öllum indversku matreiðslubókunum mínum.

Þetta er eiginlega kennslubók í matreiðslu. Í henni er að finna lýsingar á helstu kryddum og innihaldsefnum indverskrar matargerðar, grunnuppskriftir, t.d. að kryddblöndum og paneer (ferskosti), lýsingar á eldunaraðferðum og áhöldum og lýsing á hverning indversk máltíð er borin fram. Síðast en ekki síst eru svo alls konar uppskriftir héðan og þaðan af Indlandi. Ég hef prófað allnokkrar þeirra og mæli hiklaust með bókinni, því að uppskriftirnar eru svo einfaldar að jafnvel byrjandi í matargerð getur eldað þær flestar.

28 maí, 2011

Húsráðahornið: Ráð til að drýgja kartöflumús

Ef það koma óvæntir gestir einmitt þegar kartöflumúsin er að verða tilbúin, nú eða fólkið sem þú bauðst í mat tekur krakkana sína með sér – sem þú bauðst ekki – þá er gott að kunna að drýgja músina. Þetta ráð dugir líka þegar kartöflurnar eru svo límkenndar að það stefnir í að músin komi til með að loða við góminn eins og hveitilím.

Eigðu alltaf Maggi kartöflumúsarduft uppi í skáp, jafnvel þó þú búir aldrei til duftkartöflumús. Skelltu smávegis af Maggi-dufti saman við músina, blandaðu vel, og bíddu í smá stund á meðan duftið blotnar upp. Bættu síðan við eins mikilli mjólk, eða helst rjóma, og þarf til að ná réttri þykkt, ásamt ögn af smjöri. Endurtaktu ef þarf.

Það er hægt, ef maður vandar sig og fer sér hægt, að drýgja músina um allt að helmingi án þess að það komi verulega niður á bragðinu. Klessuleg mús verður líka léttari ef Maggi frændi fær að vera með. Ef það kemur samt duftkeimur af músinni, örvæntið ekki: kryddið músina með múskati eins og manni er sagt að gera í gömlum uppskriftum, eða leysið smá saffran upp í heitri mjólk og blandið saman við, og það ætti að fela duftkeiminn.

Fyrir utan að vera nothæf til að drýgja kartöflumús er líka hægt að nota duftmús til að gera ágætis hjúp utan um steiktan fish.

27 maí, 2011

Buff með lauk, salati og saffrankartöflumús


Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Fljótgerðir úrvalsréttir

Þegar ég var barn og unglingur fórum við systkinin og foreldrar okkar saman í útilegur á hverju sumri. Uppáhalds útilegumatur minn og bróður míns var saxbauti með lauksósu frá KEA, borinn fram með Maggi kartöflumús og Ora grænum baunum. Svoleiðis fengum við bara einu sinni í hverri útilegu, og það var beðið með andakt eftir þessari töframáltíð. Það var eitthvað alveg sérstakt við þessa samsetningu og það eitt að hugsa um þennan mat getur enn kallað fram hjá mér minningar um þessar útilegur.

Í fyrsta skipti sem ég reyndi sjálf að elda þessa máltíð, í tilraun til að ná upp fornri útilegustemningu ein heima í fyrstu leiguíbúðinni minni , þá misheppnaðist hún algerlega. Dósabautinn var ekkert spes, pakkamúsin var vond, og það eina sem stóð fyrir sínu voru grænu baunirnar. Ég hringdi í mömmu með grátstafinn í kverkunum og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði nú alltaf lappað talsvert mikið upp á bæði bautasósuna og kartöflumúsina. Ég hef nú lært þann galdur og get búið til kartöflumús með Maggi-dufti sem er næstum því æt, og saxbauta kann ég að laga til svo að vel sé, en bragðlaukarnir eru breyttir og óneitanlega finnst mér nú betra að búa til bautann frá grunni úr fersku nautahakki og kartöflumúsina úr ekta kartöflum.

Þessi máltíð, sem er gerð með einni uppskrift og einni hugmynd úr Fljótgerðum úrvalsréttum (bók úr Sælkerasafninu), ásamt einni mömmuuppskrift, var elduð til minningar um þessar liðnu sælustundir og ég er hreint ekki frá því að buffið sé að minnsta kosti alveg eins og bautinn bragðaðist í minningunni.

Með buffinu og kartöflumúsinni má sjá á myndinni eftirfarandi salat, sem mamma gerir stundum til að bera fram með steiktum fiski, en er líka afbragðsgott með kjöti. Það þarf að gera það á undan hinum matnum, því það er best borið fram kælt.

Tómat- og gúrkusalat:
1 meðalstór tómatur
1/4 gúrka, eða 1 lítil skólagúrka
majónes eftir smekk

Sneiðið tómatinn þunnt, skerið sneiðarnar í ca. 4 mm þykkar ræmur, og lengstu ræmurnar í tvennt. Meðhöndlið gúrkuna á sama hátt. Hrærið saman við majónes og kælið í um 20 mín.

Buff með lauk 

Tími: 30 mínútur.
Fyrir: 1-2


Uppskriftin er með mínu orðalagi og viðbótum.

Efni:
  • 2 stk. laukur (ef nýta á buffin í 2 máltíðir er best að steikja einn lauk strax en geyma hinn þar til seinna buffið er borðað)
  • 225 gr. nautahakk
  • 1 egg
  • 0,75 dl vatn eða rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1 1/2 msk. smjör/smjörlíki
  • Vatn

Aðferð:
Blandið saman hakkinu, egginu, vatni/rjóma, salti og pipar. Mótið 2 stór, sporöskjulaga buff. Bræðið feitina á pönnu og steikið buffin í 2-3 mín. á hvorri hlið, eða meira ef óskað er eftir vel steiktu kjöti. Hellið sjá vatni á pönnuna, hrærið upp það sem loðir við pönnuna og látið suðuna aðeins koma upp, til að fá soð, og hellið yfir buffin. Haldið þeim heitum.

Sneiðið laukinn í hringi og steikið við lágan hita þar til hann er mjúkur og byrjaður að brúnast. Takið af pönnunni.

Berið buffin fram með lauknum, og soðnar kartöflur og maísstöngla eða salat með. (Ég er hissa á að ekki skuli minnst á kartöflumús, en hvað um það...).


Saffronkartöflumús

Það er uppskrift í bókinni að saffronkartöflumús, en hún er gerð með dufti og þannig útfærð að hún verður andstyggileg á allan hátt. Gerið í staðinn alvöru kartöflumús, en hitið upp ögn af mjólkinni og myljið litla klípu af saffranþráðum út í hana og látið standa í 10 mínútur.

Blandið svo mjólkinni ásamt saffranþráðunum  saman við músina og þið eru komin með heiðgula og dásamlega ilmandi kartöflumús. Góð með soðnu grænmeti, steiktu kjöti, og soðnum eða steiktum fiski.

25 maí, 2011

Ostafrauð (soufflé) með sellerísmjöri

Þetta er fínasta frauð og mjög bragðgott.

Sagt er að frauð séu frekar erfið viðureignar og það þurfi sterkar taugar til að búa þau til því að þau eigi það til að falla við minnsta áreiti, en ég mundi ekki segja að þau séu erfið. Ekki ef maður fer eftir uppskriftinni.

Reyndar er það rétt að þau falla fljótlega eftir að þau eru tekin út úr ofninum, þannig að það verður að hafa hraðar hendur að bera þau fram.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég bakaði frauð í blástursofni (það er ekki hægt að taka blásturinn af í ofninum hjá mér), og það gekk mjög vel eins og sjá má.

Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Smáréttir við allra hæfi.
Fyrir 4.
Tími: 90 mín.

Frauðið:
2 msk. smjör
4 msk. hveiti
3 dl mjólk
4 egg
3 dl rifinn ostur
Salt og paprikuduft
2 tsk. maísmjöl (maizenamjöl)


Aðferð:
Bræðið smjörið. Hrærið hveitinu saman við og síðan mjólkinni, smám saman, í jafning. Sjóðið jafninginn við lágan hita í nokkrar mínútur og hrærið stöðugt í á meðan.

Takið eggin og aðskiljið rauður og hvítur. Sláið rauðurnar í sundur og þeytið saman við jafninginn með handþeytara ásamt ostinum. Smakkið til með salti og paprikudufti. Látið ostinn bráðna alveg saman við jafninginn. Hrærið maísmjölinu saman við.

Stífþeytið eggjarauðurnar og blandið þeim varlega saman við jafninginn (t.d. með sleikju). Hellið deiginu í smurt ofnfast form með háum hliðum, sem tekur ca. 1,2 lítra.

Bakið neðst í 175 °C til 200 °C heitum ofni í ca. 40 mín., eftir þykkt formsins. Ekki opna ofninn á meðan, því að þá getur það fallið. Best er að bera frauðið fram strax og það er tilbúið, en það getur beðið í 5-10 mín. í lokuðum ofninum eftir að slökkt er á honum.


Á meðan frauðið bakast er sellerísmjörið gert tilbúið:

75 gr. smjör, mjúkt
Salt
0,5 dl (1/5 bolli) fínsaxað sellerí

Smjörið skal vera við stofuhita. Hrærið öllu saman þar til samfellt og kekkjalaust. Kælið fram að notkun.

Athugasemdir:
  • Frauðið byrjar ekki strax að lyfta sér, þannig að ekki hafa áhyggjur þó að það virðist vera dautt fyrsta korterið eða svo.
  • Ef ég geri þetta aftir mun ég mauka selleríið saman við smjörið til að fá meira selleríbragð af því.
  • Ég notaði Gratínost, sem er blanda af Mozzarella og Gouda, og bætti við smá Brauðosti. Ég gæti trúað að ögn af Parmesan væri gott saman við.