06 ágúst, 2011

Eðalsamloka

Þessi samloka er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég fann út þessa samsetningu sjálf, en aðrir hafa eflaust uppgötvað hana eða eitthvað henni líkt á undan mér.

Fyrir 1.

Efni:
20 cm bútur af bagettubrauði, eða lítil bagetta, endarnir skornir af
Gunnars majónes
2 sneiðar af góðri skinku
2 sneiðar af Gouda-osti eða einhverju öðrum bragðgóðum osti
6 ræmur af beikoni, steiktar
4 tómatsneiðar
2 stórir sveppir, sneiddir og snöggsteiktir í smjöri

Kljúfið bagettuna að endilöngu en látið hana hanga saman á skorpunni öðru megin. Opnið hana og smyrjið þunnu lagi af majónesi á báða fletina. Raðið skinkunni, ostinum, tómatsneiðunum, beikoninu og sveppunum á hana, í þessari röð (sjá mynd).

Það þýðir ekkert að reyna að loka samlokunni, heldur mæli ég með að hún sé höfð opin og snædd eins og steikarsamloka, með hníf og gaffli.

Til að gera turnsamloku:
Teknar 6 sneiðar af franskbrauði og skorpurnar skornar af. Efri hliðin á þeirri neðstu er smurð þunnt með majónesi og svo báðar hliðarnar á næstu fjórum, jafnóðum og samlokunni er raðað saman. Lögin skiptast svona: brauðsneið, skinka, brauðsneið, ostur, brauðsneið, beikon, brauðsneið, sveppir, brauðsneið, tómatsneiðar, brauðsneið. Fest saman með tannstöngli í gegnum miðuna og ólífa ofan á, að hætti Dags.

02 ágúst, 2011

“Íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ”

“Ég er matargat – matargat
ég er matargat – matargat
íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ
íslensk kjötsúpa – það besta sem ég fæ”
Úr “Íslensk kjötsúpa”, Texti: Jóhann G. Jóhannsson

Eftir slarkið um Verslunarmannahelgina er ekki vanþörf á að borða eitthvað nærandi og styrkjandi, og hvað er betra til þess fallið en ekta íslensk kjötsúpa?

Kjötsúpa af einhverju tagi fyrirfinnst í matargerð flestra landa og Ísland er þar engin undantekning. Þetta er einn af þessum þjóðlegu réttum sem enn eru daglega á borðum okkar og er ekki að furða: hún er seðjandi, fjölbreytileg, næringarrík, bragðgóð, og tiltölulega ódýr. Flestir sem elda kjötsúpu að staðaldri nota ekki uppskrift, heldur láta ráðast hvað er til í ísskápnum þegar súpan er löguð. Fyrir þá sem hafa ekki eldað hana áður en langar að prófa, þá er hér uppskrift sem er hægt að nota sem útgangspunkt.

Þó að ég gefi upp mælieiningar af innihaldsefnunum þarf ekki að fylgja þeim eins og guðspjallinu heldur er um að gera að fikta og aðlaga að eigin smekk. Ég hef stjörnumerkt (*) þá liði sem þurfa að vera til staðar til að um hefðbundna, gamaldags kjötsúpu sé að ræða. Hitt er efni sem mér finnst gott að bæta í súpuna.

Tími: 60 mín. í eldun; ca. 10-15 mín. í undirbúning
Fyrir: 4-6

Efni:
* 1 1/2 lítri vatn
* 500 gr. lambasúpukjöt með beini (ef notað er kindakjöt fæst bragðmeiri súpa, en það þarf að lengja eldunartímann)
* 1/2 meðalstór laukur, sneiddur eða grófsaxaður
* 100 gr. hvítkál
* 2 meðalstórar gulrætur, sneiddar eða skornar í þykkar ræmur
* 0,5 dl hrísgrjón (hýðis- eða hvít) eða hafragrjón
* 1/2 lítil gulrófa (prófið hnúðkál í staðinn), skorið í munnbita
* salt eftir smekk
lúkufylli af þurrkuðum súpujurtum
blómkál, skipt í hríslur
púrrulaukur, sneiddur
kartöflur, skornar í munnbita, eða sjóðið nýjar litlar kartöflur heilar með hýði
Einnig nota sumir sellerístangir (sneiddar) eða sellerírót (í litlum bitum) í kjötsúpu.

Aðferð:
Setjið vatnið í stóran pott og látið suðuna koma upp. Skolið kjötið úr köldu vatni og látið ofan í sjóðandi vatnið. Ef notað er frosið kjöt, er það sett í pottinn með vatninu og látið hitna með því. Látið sjóða í 2-3 mín. Fleytið þá brúnu froðunni ofan af og saltið. Lækkið hitann og látið sjóða í um 30 mín.

Bætið súpujurtunum (ef notaðar) og hrísgrjónunum/hafragrjónunum út í og látið sjóða í 10 mín. Bætið við öllu grænmetinu og kartöflunum og sjóðið í 20 mín. Smakkið til með salti og pipar. Fleytið fitu ofan af áður en súpan er borin fram (þarf yfirleitt ekki nútildags nema kjötið sé mjög feitt).

Misjafnt er hvernig súpan er borin fram. Sumir sjóða kartöflur sér og bera þær og kjötið fram saman á fati og borða sér, aðrir skera kjötið í munnbita og setja aftur út í súpuna. Sumum finnst líka gott að hella mjólk út á súpuna.

Kjötsúpa er jafnvel enn betri daginn eftir að hún er elduð.


Athugasemdir:
  • ef notað er kindakjöt er suðutíminn lengdur um 30-60 mín., hrísgrjónunum bætt út í hálftíma áður en suðu lýkur, og grænmetinu 10 mín. síðar.
  • soðið verður bragðmeira ef kjötið er brúnað í súpupottinum áður en súpan er löguð.
  • mjög gott er að setja smá kóríander (kryddið, ekki laufin) eða saffran út í súpuna til að gefa henni Mið-Austurlenskt yfirbragð.
  • ef súpan er bragðlítil má lauma út í hana svo sem einum teningi af grænmetis- eða lambakrafti.