30 október, 2011

Kókos-kasjú lambakarrí frá Indlandi (Kid Josh)

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook. (Uppskrift með athugasemdum og ráðleggingum frá mér)

Fyrir: 6


Þessi uppskrift er upprunnin hjá Pörsum í Maharashtra-ríki á Indlandi. Ég gef upp bæði milda og eldsterka útgáfu. Það er reyndar gott að nota heila uppskrift af sósu með helmingi minna af kjöti, því að þetta er ljúffeng sósa og líka af því að í alvöru indversku karríi er kjötið ekki endilega aðalatriðið.

Efni:

Marineringarsósa:
3 tsk. saxaður ferskur engifer
5 tsk. saxaður hvítlaukur (ca. 5 meðalstór rif)
10 græn chili-piparaldin, fræhreinsaðir og stöngulinn fjarlægður, ef óskað er eftir sterku karríi. Þessu má sleppa alveg en ef óskað er eftir mildu chili-bragði er hægt að nota í staðinn chili-duft á hnífsoddi eða bara eitt chili-aldin.
1 tsk. malaður kanill
1/4 tsk. malaður negull
1 1/2 tsk. salt (eða meira, eftir smekk)

Allt hitt:
1 kg lambakjöt, helst af læri, fituhreinsað og skorið í stóra teninga

4 msk. olía til steikingar
Ca. 2 bollar heitt vatn

250 gr. kasjú-hnetukjarnar, fínmalaðir í matvinnsluvél (ef bara finnast saltaðar kasjú-hnetur, örvæntið ekki, notið þær og minnkið bara saltið í uppskriftinni)
1 1/2 bollar kókoshnetumjólk

4 stórar kartöflur, skornar í fjóra báta og steiktar
1 dl ósoðin hrísgjón á mann

Aðferð:
Maukið engiferinn, hvítlaukinn og chili-piparinn í morteli eða matvinnsluvél. Bætið við ögn af vatni til að auðvelda blöndunina. Bætið við hinu kryddinu og saltinu og blandið saman. Skiptið sósunni í tvennt og marinerið kjötið í helmingnum í um 30 mín. Geymið hinn helminginn.

Hitið 2 msk. af olíu á stórri djúpri pönnu eða í víðum potti (þykkbotna, annars er hætt við að brenni við) og brúnið kjötið. Bætið við vatninu og mallið undir loki við lágan hita þar til kjötið er meyrt og eftir er um það bil 1 bolli af soði í pottinum. Gott er að nota kjöt sem hefur fengið að meyrna aðeins í ískápnum í 2-3 daga, en þá ætti þetta að taka um 40 mín. Ef of mikið soð er eftir þegar þessu stigi er náð skal ekki hella soði af kjötinu, heldur er betra að taka lokið af og sjóða áfram þar til það hefur soðið hæfilega niður. Aðskiljið kjöt og soð og leggið til hliðar.

Nú má byrja að sjóða hrísgrjónin og steikja kartöflurnar.

Hitið nú 2 msk. af olíu í stórri djúpri pönnu eða víðum potti og steikið hinn helminginn af kryddmaukinu þar til það skiptir um lit og loðir lítið eitt við pönnuna. Bætið við kókoshnetumjólkinni, soðinu og hnetunum, blandið vel saman og mallið í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið þvínæst kjötinu saman við og látið malla við lágan hita þar til olían flýtur upp. Það verður að gera þetta við lágan hita því sósan er mjög þykk og getur brunnið við ef hitinn er hærri. Ekki hafa lokið á pottinum á meðan. Smakkið til og saltið ef þarf.

Berið fram heitt með steiktum kartöflum og hrísgrjónum.