24 júní, 2012

Dijon-kjúklingur

Þessi uppskrift er komin úr hinni frábæru matreiðslubók The Silver Palate Cookbook. Helsti gallinn við þá annars frábæru bók er að uppskriftirnar eru oft með mjög langan innihaldslista, en þessi er ein af undantekningunum.

Uppskriftin, með mínum athugasemdum:

1 heill kjúklingur (1-1 ½ kg.), skipt í fernt. Mér finnst nú reyndar fínt að nota kjúklingabita. Þetta verður að sniðugum hlaðborðsrétt ef notaðir eru vængir eða leggir.
1/3 bolli Dijon-sinnep
Nýmalaður svartur pipar, eftir smekk
1/2 bolli vermút eða þurrt hvítvín (ég nota hvítvínið)
1/2 bolli creme fraiche eða þeytirjómi (ég nota þeytirjómann)
Salt, eftir smekk

Smyrjið sinnepinu á kjúklinginn og látið standa við stofuhita í lokaðri skál í 2 klukkustundir.

Hitið ofninn í 175 °C.
Raðið kjúklingabitunum, með þá hlið sem skinnið er á upp, í ofnfast mót, t.d. lasagna-form eða djúpa ofnskúffu. Skafið sinnepið úr skálinni og smyrjið yfir kjúklingabitana. Stráið yfir smá salti og pipar, og hellið víninu í mótið.

Bakið í miðjum ofni þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn, ca. 1 klst. fyrir venjulega bita, um hálftími fyrir vængi. Ausið af og til soði yfir bitana. Leggir og læri geta þurft 5-10 mínútum lengri tíma en bringurnar.

Skafið sinnepið af kjúklingnum og úr ofnmótinu og setjið í pott. Setjið kjúklingabitana á fat og haldið heitu undir loki.

Fleytið fitunni ofan af sósunni og setjið þvínæst pottinn á eldavélarhellu á meðalhita og látið suðuna koma upp. Á þessum tímapunkti hef ég stundum bætt við 2-3 msk. af sinnepi til viðbótar, því ég vil hafa nóg af sósu. Látið suðuna koma upp, pískið rjómann saman við (ég eyk líka við rjómann ef ég hef gert það við sinnepið). Látið suðuna koma upp og lækkið hitann. Látið malla þangað til sósan hefur soðið niður um ca. 1/3, ca. 5 til 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir kjúklingabitana og berið fram heitt eða við stofuhita. Ef um er að ræða vængi og von er á mörgum gestum er gott að hrúga vængjunum á disk og hafa sósuna til hliðar til að dýfa þeim í.