19 ágúst, 2012

Armenskir lambaskankar (Kzartma)


Lambaskankar þurfa helst langa, hæga matreiðslu til að þeir verði ekki seigir og það þarf af halda að þeim raka á meðan þeir eldast til að þeir verði ekki þurrir. Því er hæg steiking í sósu fyrirtaksaðferð til að elda þá.

Sósan er bragðmikil, með keimi af tómötum og papriku, og minnir svolítið á gúllassósu.

Matreiðslubók: The Diner's Club Cookbook

Fyrir: 6.


Efni:
6 lambaskankar af læri
3/4 bolli saxaður laukur (ca. 3/4 meðalstór laukur)
2 msk. smjör
2 tsk. salt (ég minnkaði saltið niður úr 1 msk. (= 3 tsk.) í 2 tsk., en ef það þarf meira er hægt að hafa salt á borðinu svo að hver og einn geti saltað fyrir sig)
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
1/8 tsk. þurrkað óreganó
2 msk. paprikuduft
3 hvítlauksrif, fínsöxuð
1 bolli + 2 msk. maukaðir tómatar + 1 tsk. sykur til að taka af beiskjubragðið
1/2 bolli nautasoð
1/2 bolli þurrt sherrí eða Marsala-vín


Aðferð:
Látið skankana liggja i köldu vatni í um 30 mín. Hellið vatninu af, þerrið og fituhreinsið. Raðið í grunnt ofnfast mót (t.d. pyrex-fat, nú eða Römertopf eins og ég gerði, en þá þarf að gæta að brúnunartímanum sem getur styst), eða í djúpa pönnu eða grunnan pott með handfangi sem þolir hitun í ofni.

Snöggsteikið laukinn í smjörinu þar til hann er glær. Bætið þá restinni af innihaldsefnunum saman við og blandið lauslega. Hellið yfir kjötið. Setjið lokið á og bakið við 175°C í 90 mín. Ausið soðinu af og til yfir kjötið. Takið lokið af og bakið áfram við 125°C þar til kjötið brúnast og er orðið meyrt (um 45 mín.). Ausið soðinu oft yfir á meðan. Berið fram með hrísgrjónum eða búlgúr-hveiti.


Athugasemdir:
  • Það er hægt að elda þessa uppskrift í potti á eldavélinni, og jafnvel stytta eldunartímann aðeins með því að skera skankana í bita strax. En eldið þó beinin með, því þau gefa svo gott bragð.
  • Líka er gott að bera fram með þessu brauð, t.d. naan eða bagettu.
  • Líka hægt að bera fram með kús-kús.