Í bókinni heitir þetta „kartöflubakstur“, en ég held að fleiri þekki þetta sem „gratín“.
Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 6-8 sem meðlæti; fyrir 4-6 sem aðalréttur.
Efni:
700 g kartöflur
4 dl mjólk eða rjómabland
1 egg
75 g rifinn ostur (t.d. Gratínostur)
1/2 tsk salt
1/4 tsk garðablóðberg (tímían)
1/4 tsk múskat (má sleppa) [ég sleppi nú frekar blóðberginu, en það er smekksatriði]
25 g smjör/smjörlíki
1 msk brauðrasp
Aðferð:
Hitið ofninn í 200 °C. Smyrjið eldfast mót.
Þvoið og flysjið kartöflurnar og skerið í mjög þunnar sneiðar og látið í mótið.
Blandið saman mjólkinni, egginu, salti, kryddi og helmingnum af ostinum og hellið yfir kartöflurnar. Stráið raspinum jafnt yfir, látið litla smjörlíkisbita hér og þar ofan á og stráið loks ostinum yfir.
Bakið í um 45 mínútur. Berið fram sem meðlæti með kjöt- eða fiskréttum, eða sem aðalrétt með góðu salati.