Þetta er góður hversdagsréttur. Þetta eru í raun 2 uppskriftir sem eru eins nema að í annarri er laukur en hinni epli. Reyndar er ágætt að hafa bæði - þá er notað hálft epli á móti heilum meðalstórum lauk.
Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 2-3.
Efni:
400 g fiskflök (ég hef notað bæði ýsu og þorsk í þennan rétt, en sé ekkert því til fyrirstöðu að prófa t.d. steinbít eða löngu)
1/2 - 1 epli (t.d. Jonagold) EÐA 1 laukur
25 g smjör/smjörlíki
1/2 tsk milt karríduft
1/2 tsk salt
Aðferð:
Takið roðflett og beinhreinsuð fiskflök (roðflettið og beinhreinsið ef þarf) og skerið þversum í 3-4 bita.
Ef nota á epli, þá er það flysjað og rifið á grófu rifjárni.Ef nota á lauk er hann fínsaxaður.
Pannan er hituð á lægsta straumi og smjör(líkið) brætt á henni. Epli og/eða laukur sett á pönnuna og látið hitna í gegn. Karríduftinu hrært saman við og fiskinum raðað ofan á. Saltað. Látið eldast undir loki á minnsta straum í 10-15 mínútur (eftir því hvað fiskstykkin eru þykk). Borið fram á pönnunni.
Tillaga að meðlæti: soðnar kartöflur eða soðin hrísgrjón, ferskt salat og brauð.