24 mars, 2013

Hello Dolly kaka


Af því að uppáhalds páskaeggin mín (þessi frá Mónu) eru ekki lengur framleidd, þá er ég að hugsa um að búa til Hello Dolly skúffuköku í staðinn um páskana.

Þetta augljóslega bandaríska fyrirbæri er eiginlega ekki kaka, a.m.k. er ekkert lyftiefni í henni og það þarf bara að blanda saman efninu í botninn á henni. Hinu er bara stráð ofan á botninn í lögum. Hún er svo auðveld að barn sem kann á dósaupptakara og hitastillingar á ofni gæti búið hana til. Hún er dísæt og það er afar erfitt að hætta að borða hana þegar maður er einu sinni byrjaður.

Ekki veit ég hvaðan nafnið er komið, en mér finnst það geta bent til þess að kakan hafi orðið til um það leiti sem söngleikurinn (árið 1964) eða kvikmyndin (árið 1969) með sama nafni náði vinsældum westan hafs. Hún er stundum kölluð 7-laga kaka, sem er misnefni, því lögin eru bara 5, þó að innihaldsefnin séu sjö.


Þessi uppskrift fyllir upp í ca. 15x20 cm bökunarform, frekar djúpt.
  • 1,5 bolli mulið grahamskex
  • 1/2 bolli smjör
  • 1/4 bolli sykur (má sleppa - kakan er alveg nógu sæt þó maður bæti ekki sykri í hana)
  • 1,5 til 2 bollar súkkulaðibitar (þú ræður hvaða tegund þú notar, en ég er hrifin af Síríus Konsum) 
  • EÐA 1 bolli súkkulaðibitar og 1 bolli Butterscotch-bitar eða Peanut Butter-bitar (hafa stundum fengist í Hagkaupum og sennilega líka í Costco)
  • 1 bolli grófsaxaðar valhnetur eða pekanhnetur
  • 1 bolli kókosmjöl
  •  1 dós sæt, niðursoðin mjólk (sweetened condensed milk) - ég hef ekki kynnt mér í hvaða almennu matvöruverslunum hún fæst (held þó að hún fáist í Hagkaupum), en þú færð hana örugglega í einni af asísku matvörubúðunum í Reykjavík, s.s. Asian Market, Vietnam Market eða Mai Tai (smelltu hér til að sjá mynd af dósunum - það er Nestlé Carnation sem er algengast að fáist)

 Hitið ofninn í 180 °C. Bræðið smjörið og hrærið kexmylsnunni (og sykrinum, ef hann er notaður) saman við. Smyrjið bökunarformið og þjappið mylsnublöndunni í botninn. Ekki þjappa of fast, því þá verður botninn grjótharður og situr eftir þegar bitarnir eru teknir upp úr forminu.

Stráið hnetunum yfir botninn, síðan súkkulaðibitunum (og Butterscotch/Peanut Butter-bitunum, ef þú notar þá) og loks kókosmjölinu. Hellið mjólkinni yfir í jöfnu lagi.

Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til mjólkin er orðin að karamellu og kókosmjölið er farið að brúnast.

Takið út, látið kólna og skerið í ferninga (best er að skera kökuna við stofuhita). Ekki er verra að bera þetta nammi fram með kaffi og þeyttum rjóma.

Nægir til að koma einum temmilegum saumaklúbb í sykurvímu eitt kvöld.