26 maí, 2013

Keeme per Eenda (Nautahakk með eggjum)

Bragðgóður ofnréttur, ættaður frá Pörsum í Maharashtra-ríki á Indlandi.

Fyrir 4.


Innihald:

2 msk ghee eða matarolía
1 stór laukur, fínsaxaður
2 fersk, græn chilialdin (má sleppa ef hrifning á chili er lítil - rétturinn er nógu bragðmikill til að megi sleppa chiliinu)
2 tsk fínsaxaður engifer
-
2 tsk kóríanderduft
1 tsk kúmínduft (cumin)
1 tsk chilliduft (ef vill)
1 tsk kúrkúmaduft (túrmerik, heitir gullinrót á íslensku en fæstir virðast þekkja til þess heitis)
-
750 g lamba- eða nautahakk
-
1 vel þroskaður tómatur, flysjaður* og saxaður
1 1/2 tsk salt
1/2 bolli vatn
-
klípa af sykri (ef tómaturinn er beiskur)
-
1 msk garam masala
1 tsk fínsaxaður ferskur laufkórínader (cilantro)
-
4 egg
-
salt og malaður svartur pipar eftir smekk

*Skerið lítinn kross ofan í hýðið á tómatinum, setjið hann í skál og hellið sjóðandi vatni yfir hann, teljið upp að 10, takið tómatinn upp úr og flysjið. Hýðið ætti að nást auðveldlega af.

Aðferð:
Hitið ghee eða olíu og steikið laukinn, chilialdinin, hvítlaukinn og engiferinn þar til gullinbrúnt. Bætið við malaða kryddinu og hrærsteikið í 1 mínútu, bætið við kjötinu og brúnið það.

Bætið við tómatnum, saltinu og 1/2 bolla af vatni. Bætið við sykri (ef óskað er). Eldið undir loki þar til kjötið er meyrt og næstum allur vökvinn horfinn.


Blandið garam masala og helmingnum af laufkórínadernum saman við kássuna. Jafnið kássunni í smurt eldfast mót, gerið 4 litlar holur í kjötið og setjið hrátt egg í hverja holu. Kryddið eggin með salti og pipar.

Bakið í ofni við ca. 190 °C (180 °C ef ofninn er blástursofn) þar til eggin eru elduð. Stráið afganginum af kóríandernum yfir og berið strax fram, með paratha- eða naanbrauði.

Tilbrigði við réttinn er að stífþeyta eggjahvíturnar, hræra rauðunum saman við og krydda með salti og pipar. Þessu er síðan jafnað yfir kjötið og bakað þar til eggin eru elduð í gegn.