02 febrúar, 2014

Kúbönsk svartbaunasúpa

Þetta er ljúffeng og nærandi baunasúpa sem er góð til að ylja sér á í vetrarkuldanum. Hún á ættir að rekja til Kúbu.

Athugið að hún er þannig gerð að hún er best þegar allt er komið saman, þ.e. súpan og ofanálætið.

Fyrir 8 eða fleiri

Í súpuna:
500 g þurrkaðar svartar baunir
-
1 meðalstór laukur, fínsaxaður
1 græn paprika, fínsöxuð
3 hvítlauksrif, maukuð
1 reyktur svínaskanki (hefur fengist í Bónus); líka má nota skinkubein, t.d. innan úr hamborgarahrygg**
1/2 bolli ólífuolía
Salt og nýmalaður svartur pipar
-
1/3 bolli edik eða eplaedik

Ofan á:
Sýrður rjómi
Saxaður hrár laukur
Söxuð rauð paprika


Takið baunirnar ca. hálfum sólarhring áður en byrja á að sjóða súpuna og fjarlægið stöngulbrot, steina og baunir sem eru brotnar eða skrælnaðar. Setjið í stóran pott (2 lítra eða stærri) með loki og hellið nægu köldu vatni yfir þær til að fljóti yfir ca. 2-3 cm. Látið liggja í bleyti í ca. hálfan sólarhring, t.d. yfir nótt.

Þegar baunirnar hafa legið í bleyti nógu lengi er vatninu hellt af þeim og sett hreint vatn í pottinn þannig að fljóti yfir baunirnar ca. 2-3 cm. Hrærið saman við saxaða lauknum, paprikunni og hvítlauknum, hrærið ólífuolíunni saman við og setjið svínaskankann út í. Bætið við ca. 2 tsk af salti og slatta af pipar.

Látið suðuna koma upp við háan hita. Fleytið froðunni ofan af og lækkið hitan á minnsta hita sem þarf til að halda súpunni mallandi. Látið malla í 4 til 5 klukkutíma, þar til baunirnar eru mjög mjúkar og súpan er rjómakennd og hefur þykknað. Athugið eftir um 2 klst. Ef hún er orðin mjög þykk eða kássukennd skal bætt við bolla af vatni. Endanleg þykkt á að vera þannig að hún húðar bakið á skeið og áferðin á að vera flauelsmjúk og þykk.

(Baunirnar verða mjúkar á fyrstu tveimur tímunum. Restin af tímanum er til að hluti af baununum nái að brotna niður og þykkja súpuna. Ef þetta hefur ekki gerst eftir 5 tíma suðu, þá mæli ég með að fara með töfrasprota eða kartöflustappara í pottinn og mauka hluta af baununum, hræra upp í henni og láta malla í ca. hálftíma til viðbótar. Áferðin verður svipuð, en þó geta verið stöku flögur af baunahúð fljótandi í súpunni.)
Hrærið edikinu saman við undir lokin og látið malla í 15 mín. til viðbótar með pottinn opinn.
Ausið í skálar og stráið söxuðum hráum lauk og rauðri papriku yfir og setjið slettur af sýrðum rjóma ofan á.

-Hellið yfir soðin hrísgrjón til að gera súpuna matarmeiri og berið fram steikta mjölbanana** (plantain) sem meðlæti.
-Þessi uppskrift gerir mikið af súpu, en hún geymist vel í frysti.

*Kjötið er bara notað til að fá kraft í súpuna og er ekki borið fram með eða í henni og því má vel nota bein. Ef hins vegar er notað kjöt, þá er það, eftir svona langa suðu, hins vegar gómsætt og svo mjúkt að það er nánast orðið að kæfu. Ég nota það sem álegg á brauð.

**Steiktir mjölbananar (Plátanos Maduros)

  • 1 vel þroskaður mjölbanani með svart hýði
  • Repju- eða maísolía
  • Ef vill: ferskt súraldin
 Hellið olíu á pönnu þannig að hún verði rétt rúmlega 0,5 cm á dýpt.
Skrælið bananann og skáskerið í sneiðar, rúmlega 1 cm þykkar.
Setjið á pönnuna þegar vatnsdropi sem er látinn falla í olíuna sýður strax upp og steikið þar til sneiðarnar eru gullinbrúnar og snúið þá við.
Takið af pönnunni þegar báðar hliðar eru gullinbrúnar og brúnirnar eru karamellulitar og látið olíuna renna af þeim á pappírsþurrkum. Þerrið burt umframolíu.
Berið fram heitt.
Ef vill má kreista yfir ögn af súraldinsafa.