23 október, 2011

Challah – fléttubrauð að hætti Gyðinga

Challah-brauð er hefðbundinn hluti af máltíðinni á hvíldardegi gyðinga (Shabbat). Brauðið sem ég bakaði eftir uppskriftinni hér að neðan varð létt og loftkennt og frekar þurrt, með mildu bragði. Gott með smjöri og osti og/eða sultu.

Efni:
180 ml. ilvolgt vatn
55 gr. pressuger eða 2 msk. + 2 tsk. perluger

565 til 680 gr. hveiti
1 msk. sykur
1 1/2 tsk. salt
3 egg, sundurslegin og létt hrærð
3 msk. + tæp 1 tsk. jurtafeiti (shortening), má nota olíu í staðinn

1 eggjarauða
1 1/2 msk. vatn

Aðferð:
Setjið helminginn af volga vatninu í litla skál og myljið eða stráið gerinu saman við. Látið standa í 2-3 mín. og hrærið þá í þangað til gerið er uppleyst. Setjið á hlýjan stað í ca. 5 mín. eða þangað til að blandan hefur næstum tvöfaldast að rúmmáli.

Setjið 450 gr. af hveitinu í stóra skál (t.d. hrærivélarskál) ásamt sykrinum og saltinu og blandið vel saman. Gerið holu ofan í hveitiblönduna og hellið gerblöndunni í hana ásamt því sem eftir er af volga vatninu, eggjahrærunni og 2 msk. af jurtafeitinni.

Hrærið vel saman, t.d. með sleif, þar til allt er vel blandað og ekkert laust hveiti er eftir í skálinni. (Hér má láta hrærivélina taka við; notið deigkrók og hrærið hægt). Bætið þá smám saman við allt at 225 gr. af hveiti. Hættið þegar orðið er til mjúkt deig sem heldur kúluformi þegar það er mótað til.

Setjið deigið á hveitistráð borð (eða haldið áfram í hrærivélinni með deigkrókinum – en ath. að maður færi betri tilfinningu fyrir deiginu með því að handhnoða) og hnoðið í um 15 mín. eða þar til deigið er orðið samfellt, sprungulaust og teygjanlegt.

Mótið deigið í kúlu og setjið í stóra, létt smurða skál. Leggið diskaþurrku yfir og setjið á hlýjan stað til að hefast. Deigið er tilbúið í næstu umferð þegar það hefur tvöfaldast að rúmmáli (ætti að taka um 45 mín.).

Hnoðið deigið niður í nokkrar mín. og látið standa í um 10 mín.

Smyrjið stóra bökunarplötu með teskeiðinni sem er eftir af jurtafeitinni. Skiptið deiginu niður í jafnstóra skammta, jafn marga og á að nota sem þætti í fléttuna (3 á myndinni, en algengt að nota 4 eða 6, eða að gera tvær fléttur: eina stóra og aðra litlan ofan á hana). Mótið í jafnþykkar lengjur sem mjókka til endanna. Þær þurfa að vera aðeins lengri en endanlegu hleifur á að verða.

Festið saman annan endann á öllum lengjunum og fléttið saman í þétta fléttu (forðist að toga í lengjurnar). Þegar komið er út á hinn endann er endunum þrýst vel saman og þeim troðið undir hleifinn. Færið hleifinn varlega yfir á smurða plötuna og leggið diskaþurrku yfir. Látið hefast á hlýjum stað í um 30 mín.

Hitið ofninn í um 200 °C (190 °C fyrir blástursofn). Blandið saman eggjarauðunni og vatninu og penslið sýnilega hluta hleifsins með hrærunni. Bakið í miðjum ofni í um 15 mín., lækkið þá hitann um 10 °C (í 190 °C/180 °C) og bakið í 45 mín. eða þar til brauðið er gullinbrúnt og skorpa hefur myndast. Takið út og kælið á grind.