09 júlí, 2011

Elvis-samlokan fræga

Þegar menn ræða um það hversu þéttholda Elvis Presley var orðinn undir það síðasta er oft bent á ást hans á þessum samlokum sem skýringu, en starfsfólkið í eldhúsinu á Graceland þurfti að vera tilbúið að færa honum svona samlokur hvenær sem var dags eða nætur. En málið er bara að ef maður borðar nógu mikið af hverju sem er (nema kannski selleríi) þá fitnar maður. Punktur.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes
Magn: 1 samloka.

Það fer tvennum sögum um uppskriftina að þessari samloku. Í bókinni er hún gerð með banana og hnetusmjöri, en í sumum útgáfum er líka beikon. Til að vera alveg viss um að geta sagst hafa smakkað þessa frægu samloku, þá skipti ég henni í tvennt og prófaði annan helminginn með beikoni og hinn án þess. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég notaði ekki það magn sem er gefið í uppskriftinni, heldur notaði skynsemina og endaði með að nota ca. þriðjung úr banana og um það bil 1,5 msk. af hnetusmjöri. Ef fullt magn er notað er hætt við að eitthvað af hnetusmjörinu og banananum leki úr samlokunni á pönnunni. Þrýstið alls ekki ofan á samlokuna á meðan hún steikist.

Uppskriftin:
1 þroskaður lítill banani
2 sneiðar af brauði, helst franskbrauði
3 msk af hnetusmjöri
2 msk af smjöri

Stappið bananann með gaffli. Ristið brauðsneiðarnar ljósbrúnar. Smyrjið hnetusmjörinu á aðra brauðsneiðina og banananum á hina. Leggið saman.

Bræðið smjörið á pönnu og steikið samlokuna upp úr því þar til brauðið er ljósbrúnt. Skerið í hyrnur og berið fram heitt.

Ef haft er beikon með: 4 litlar sneiðar af beikoni, steiktar stökkar og lagðar á milli í samlokuna áður en hún er steikt.

Smá eldhúsvísindi: Brauðið er ristað áður til að samlokan verði ekki klesst.

05 júlí, 2011

Kryddaður nektarínueftirréttur (cobbler)

Cobbler er nafn á frægum amerískum eftirrétti sem er nefndur eftir áferðinni réttinum þegar hann er bakaður, en hún þykir minna á steinlagða (cobbled) götu. Hann er gerður með allskonar fyllingum og mismunandi mylsnuloki, en í Suðurríkjunum er oftast um að ræða ávexti eða ber, t.d. epli, ferskjur eða bláber. Ég er nú þegar búin að birta eina uppskrift, að afbrigðinu Brúnu Bettý með eplum, perum og kornflögumylsnu, en hér er nektarínu-cobbler með deigmylsnu sem Elvis Presley mun hafa haldið mikið upp á.

Ég gerði hálfa uppskrift og notaði í hana fjórar af nektarínunum sem urðu afgangs þegar ég sauð ferskju- og nektarínusultuna. Þær voru orðnar vel þroskaðar og svo ljúffengar og bragðmiklar að ég tímdi varla að elda þær.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes.
Fyrir: 8.

8 ferskar nektarínur, steinhreinsaðar og skornar í báta
3/4 bolli hveiti
1/2 bolli vel þjappaður púðursykur
1/2 bolli strásykur
1/2 tsk kanilduft
1/2 bolli (115 gr) smjör, kælt

Hiið ofninn í 175 °C. Raðið nektarínubátunum í smurt form sem tekur amk. 7,5 dl. (hálf uppskrift passaði í grunnt bökuform, 22 cm í þvermál, þannig að 22-25 cm soufflé-form (djúpt) ætti að duga fyrir heila uppskrift).

Blandið þurrefnunum vel saman. Bætið við smjörinu í bitum og saxið það saman við þurrefnin eða skellið í matvinnusluvél og saxið þar til myndast hefur gróf mylsna. Stráið jafnt yfir nektarínurnar.

Bakið í 30 mínútur eða þar til mylsnulokið er gullinbrúnt og svolítið stökkt og það sýður í ávöxtunum.

Berið fram volgt með vanilluís eða þeyttum rjóma ef þess er óskað. Líka ágætt við stofuhita.

03 júlí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes

Hér er ein forvitnileg og skemmtilega hallærisleg sem ég er nýbúin að eignast: Uppskriftir að uppáhaldsmat Elvis Presley,  Brenda Arlene Butler safnaði saman.

Þetta er bara ein af nokkrum matreiðslubókum með mat sem Elvis er sagður hafa verið hrifinn af. Aðrar Elvis matreiðslubækur eru t.d. Fit for a King, The I Love Elvis Cookbook og The Presley Family and Friends Cookbook. Allir vilja græða á kónginum.

Bókin er ríkulega myndskreytt með myndum af Presley, og mörgum uppskriftanna fylgir uppástunga um hvaða Elvis-lag sé nú best að spila á meðan maturinn er eldaður eða snæddur.

Ef eitthvað er að marka bókina hefur Elvis haft einfaldan smekk á mat. Heimalagaðar, tiltölulega einfaldar en þungar máltíðir að hætti Suðurríkjamanna voru uppáhaldið hans, enda var hann fæddur og uppalinn í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Maturinn í bókinni er kaloríuríkur og fitandi og því kannski ekki ráðlegt að borða hann alveg á hverjum degi...

Það er hellingur af girnilegum uppskriftum í henni sem mig langar að prófa, m.a.:

  • Amerískt rúgbrauð með stökku beikoni og sinnepi
  • Maísmjölsbrauð með pylsum
  • Grilluð svínaskammrif
  • Gratineraðir hvítir laukar
  • Grænkál með osti
  • Baka með sætum kartöflum
  • Bláberjabaka
  • Brownies með kremi
  • Bananabúðingur

Þó mig langi ekki að baka hana, þá er líka uppskrift að brúðartertu Elvis og Priscillu í bókinni, sem nær yfir 9 blaðsíður!

Að þessu sinni birti ég tvær uppskriftir, enda svo nýbúin að eignast bókina að ég hef bara prófað þessar tvær. Ég skelli inn fleiri um leið og ég er búin að prófa þær.