04 júní, 2011

Húsráðahornið: Að ná lykt úr glerkrukkum

Hentar líka fyrir flöskur.

Stundum er afar erfitt að ná lykt úr notuðum krukkum. Þetta ráð hefur reynst mér vel:

Setjið 1 msk. af ediki (eða 1 tsk. af ediksýru) í hverja krukku og fyllið krukkurnar með sjóðandi vatni. Setjið lokin á og skrúfið þétt, og látið standa í klukkutíma, helminginn af tímanum með lokið niður (ef vatn lekur út er lokið óþétt og krukkan ekki nothæf undir mat).

Hellið þá ediksblöndunni og þvoið krukkurnar upp úr heitu vatni og sápu og þurrkið vel. Það er eðlilegt að þá sé smá vottur af edikslykt úr krukkunum, en ef þær eru geymdar opnar hverfur hún fljótt.

Það getur einstöku sinnum þurft að endurtaka leikinn, t.d. með krukkur undan lyktsterku innihaldi eins og síld, pesto eða mangó-chutney.

03 júní, 2011

Pílaf með grænum baunum (Mattar pilau)

Þetta er gott meðlæti með kjöti eða grænmetiskarríi. Reyndar er rétturinn það matarmikill að hægt er að borða hann sem aðalrétt. Rétturinn á ættir sínar að rekja til Uttar Pradesh-héraðs á Indlandi.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook
Fyrir 4-5 sem meðlæti; fyrir 2 sem aðalréttur.

Efni:
1 1/2 bolli hrísgrjón (long grain eða Basmati)
1 msk. ghee (skírt smjör) eða matarolía (samt ekki ólífuolía)
4 heilir negulnaglar
1 lítil kanilstöng
3-4 kardimommubelgir, marðir
1 tsk. cummin-fræ
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
1 1/2 bolli ferskar eða frosnar grænar baunir
2 1/2 tsk. salt
3 1/4 bolli heitt vatn

Aðferð:
Skolið grjónin vel og látið standa í köldu vatni í um hálftíma og látið þá renna vel af þeim.

Hitið ghee eða olíu á djúpri pönnu og steikið negulnaglana, kanilinn, kardimommurnar og cumminfræin í 1 mín.

Bætið við kúrkúma og hrísgrjónum og steikið og hrærið við meðalhita í um 3 mín.

Bætið þá við baunum, salti og heitu vatni. Hækkið hitann til að suðan komi sem fyrst upp, lækkið hann þegar sýður, setjið þétt lok á pönnuna (loka loftventli ef hann er til staðar) og sjóðið í 25-30 mín. án þess að taka lokið af eða hræra.

Takið lokið af og leyfið gufunni að stíga af grjónunum í um 3 mín. Fjarlægið heilu kryddin, hrærið varlega í gegnum grjónin með gaffli og berið fram.

01 júní, 2011

Vindaloo-kjúklingakarrí frá Goa (Murg Vindaloo)

Matur frá Goa á Indlandi þykir mjög gómsætur og sérstakur. Í 450 ár blandaðist saman matargerð innfæddra við portúgalska matarhefð á þeim tíma sem Goa var portúgölsk nýlenda, og útkoman var nokkuð  alveg sérstakt.

Vindaloo er karrí sem er lagað með ediki og getur innihaldið kjúkling, lambakjöt eða svínakjöt. Það er oftast sterkkryddað og með miklum chili-pipar, en þessi útgáfa er mildari og hentar ágætlega þeim sem vilja karríið sterkt en ekki þannig að logarnir standi út um eyrun á þeim.

Kjúklingurinn verður meyr og vel kryddaður en ekki eldsterkur. Það er snarpt eftirbragð af sósunni, sennilega út af edikinu.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook

Fyrir: 4-6
Eldunartími: um 50 mínútur, plús 60 mínútur til að marinera.

Efni:
1,5 kg. af blönduðum kjúklingabitum, svo samsvarar einum kjúklingi: leggir, læri og bringa í fjórum bitum (ég notaði vængi þegar ég prófaði uppskriftina og stytti eldunartímann svolítið og það kom vel út)
4 msk. djúpsteikingarolía
2 tsk. salt
1/2 tsk. malaður svartur pipar

Karrímauk:
2 msk. cummin-fræ
1 msk. svört sinnepsfræ (má nota brún)
2 tsk. chili-duft eða eftir smekk
1 msk. saxaður ferskur engifer
1 msk. saxaðar ferskur hvítlaukur
1/2 bolli edik (bara venjulegt, ekki bragðbætt)
1 tsk. kanill
1/4 tsk. negull
1/4 tsk. kardimommur

Aðferð:

Setjið cummin-fræin og sinnepsfræin í blandara með chili, engifernum, hvítlauknum og edikinu. Saxið vel saman og hrærið kanil, negul og kardimommum saman við. Maukið verður mjög þykkt.

Hitið olíuna í þykkbotna potti. Ekki nota járnpott því að það geta orðið efnahvörf í honum vegna ediksins. Þegar olían er orðin steikingarheit, takið hana þá af hellunni og setjið karrímaukið á hana. Hrærið í nokkrar sekúndur til að hita maukið (ekki reyna að blanda saman við olíuna). Setjið því næst kjúklinginn á pönnuna og hrærið vel til að húða kjúklinginn með maukinu. Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið í skál og látið standa í um klukkustund í kæli til að maukið nái að síga inn í kjúklinginn.


Eftir klukkustund skal taka kjúklinginn og setja aftur á kalda pönnuna og láta hann hitna á pönnunni við lágan hita þangað til að kraumar í sósunni. Bætið við salti og pipar og mallið áfram þar til kjúklingurinn er gegnsteiktur. Hræri í af og til svo að kryddið brenni ekki við pönnuna.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Líka góður kaldur.

30 maí, 2011

Djúpsteikt grænmeti að hætti Indverja (Pakorur)

Þetta er ljúffengur indverskur skyndibiti sem er eldaður eftir pöntun fyrir framan mann á götuhornum og lestarpöllum út um allt Indland. Deigið minnir á Orly-deig.

Besan, eða kjúklingbaunamjöl, er mikið notað í indverskri matargerð, bæði í bakstur, í pönnukökur og í sælgæti.  Það fæst í asískum matvöruverslunum og heilsubúðum og er oft selt undir heitinu Gram Flour í þeim síðarnefndu.

Þeir sem vilja prófa að búa það til heima hjá sér geta farið í Wikipedia-greinina um besan og farið eftir leiðbeiningunum þar.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook

Deig:
3/4 bolli kjúklingabaunamjöl
3/4 bolli hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 1/2 tsk. pressaður ferskur hvítlaukur
1 1/2 tsk. salt
1 tsk. garam masala-kryddblanda
1/2 tsk. chilli-duft (valkvætt)
Ca. 1 bolli vatn eða eins og þarf til að ná réttri þykkt


Fylling:
2 meðalstórar kartöflur
1 meðalstórt eggaldin
1 meðalstór laukur
Fersk spínatlauf
Olía til djúpsteikingar

Blandið saman mjöli, hveiti og lyftidufti. Bætið við vatni, hvítlauk, salti, garam masala og chilli-dufti og hrærið þar til létt og samfellt (gott að gera í hrærivél eða með handþeytara á litlum hraða). Á að vera álíka þykkt og pönnukökudeig. Setjið lok á skálina og látið standa við stofuhita í um klukkustund. Þetta er gert til að láta deigið samlagast vel og fá pínulitla gerjun í það.

Skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar, ca.1/4 cm þykkar. Látið í kalt vatn til að þær verði ekki brúnar. Rétt fyrir steikingu skal taka kartöflurnar upp úr vatninu og þerra þær.

Skolið eggaldinið, þerrið og skerið í þunnar sneiðar (skrælið ekki). Sneiðarnar mega vera aðeins þykkari en kartöflusneiðarnar. Ef eggaldinið er mjög stórt má skipta sneiðunum í fernt eða skera þær í munnbita.

Skrælið laukinn og skerið í tvennt langsum (þannig að sinn hvor helmingurinn af rótarendanum sé á hvorum helmingi) . Skerið síðan langsum í þunnar sneiðar, ca. 1/2 cm, þannig að ögn af rótarendanum haldi hverri sneið saman.

Skolið spínatið, þerrið og rífið í flygsur.

Hitið olíuna á wok-pönnu, djúpri pönnu eða í djúpsteikingarpotti (stillið á hæsta hita). Dýfið bitum af grænmeti og lauk í deigið, látið umframdeig drjúpa af og setjið í heita olíuna. Steikið bara nokkur stykki í einu til að olían kólni ekki um of, því ef hitinn er of lítill verða pakorurnar seigar og olíumettaðar. Snúið þeim í olíunni ef þarf til að þær brúnist jafnt. Pakorur eiga að vera léttar, gullinbrúnar og hjúpurinn stökkur. Látið olíuna leka af þeim á eldhúspappír og berið fram heitar með chutney (t.d. mangó) eða raita (jogúrtsalat) til að dýfa í.

Annað grænmeti sem er gott að nota í pakorur:
  • Kúrbítur (zucchini)
  • Blómkál
  • Hnúðkál
  • Klettasalat
  • Paprikubitar
  • Heill jalapeno-pipar

Athugasemdir:
  • Gott deig fyrir laukhringi.
  • Má nota til að hjúpa fisk eða rækjur í staðinn fyrir Orly-deig.
  • Ágætar kaldar, en þá hættir deigið að vera stökkt og meira grænmetisbragð er af bitunum.
  • Fínt að vera með nokkrar mismunandi dýfur, t.d. sæta (s.s. mangó-chutney), sterka (s.s. sæta chilli-sósu) og súra (raitu eða sýrðan rjóma með graslauk).
  • Það mætti prófa að saxa grænmetið (bitar ca. á stærð við baunir) og blanda saman með graslauk, ferskum baunum og/eða maíssbaunum, hræra öllu saman við deigið og gera blandaða bita.

29 maí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook

Charmaine Solomon er matreiðslubókahöfundur og kokkur sem er ættuð frá Sri Lanka en býr í Ástralíu. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir matreiðslubækurnar sínar, og mig blóðlangar í tvær af þeim til viðbótar við þessa: The Complete Asian Cookbook og The Encyclopedia of Asian Food.

Bókina, sem eins og sjá má er mikið notuð, fékk ég í Góða hirðinum. Hún var slitin og greinilega mikið notuð þegar ég fékk hana og ekki hefur hún fríkkað síðan, því ég nota hana mest af öllum indversku matreiðslubókunum mínum.

Þetta er eiginlega kennslubók í matreiðslu. Í henni er að finna lýsingar á helstu kryddum og innihaldsefnum indverskrar matargerðar, grunnuppskriftir, t.d. að kryddblöndum og paneer (ferskosti), lýsingar á eldunaraðferðum og áhöldum og lýsing á hverning indversk máltíð er borin fram. Síðast en ekki síst eru svo alls konar uppskriftir héðan og þaðan af Indlandi. Ég hef prófað allnokkrar þeirra og mæli hiklaust með bókinni, því að uppskriftirnar eru svo einfaldar að jafnvel byrjandi í matargerð getur eldað þær flestar.