11 desember, 2011

Amerískar súkkulaðikökur (brownies)

Ég fann þessa pottþéttu brownies-uppskrift í The Good Housekeeping Cookbook frá 1943. Hún slær alltaf í gegn.

Efni:
3/4 bolli hveiti, sigtað (mæla fyrst, sigta svo)
1/4 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. salt
1/2 bolli (100 g) ósaltað smjör, mjúkt (ef bara er til saltað á heimilinu skal sleppa saltinu í uppskriftinni)
1 bolli sykur
2 egg, léttþeytt
60 gr. dökkt súkkulaði, t.d. Síríus Konsúm, brætt og léttkælt
3/4 bolli saxaðar hnetur eða heilar rúsínur. Hnetur sem henta eru t.d. valhnetur, pekan-hnetur, heslihnetur eða macadamia-hnetur.

Aðferð:
Hitið ofninn í 170 °C.

Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti.

Þeytið smjörið þar til það er létt og ljóst. Bætið sykrinum smám saman út í. Bætið síðan við eggjunum og því næst brædda súkkulaðinu. Bætið hveitiblöndunni smám saman út í. Hrærið loks hnetunum/rúsínunum saman við. Hellið í lítið ofnfast form (skúffukökuform) og bakið í 30-35 mín., eða þar til kakan stenst þrýstiprófun (er föst undir fingri þegar honum er stutt létt ofan á hana miðja).

Takið úr ofninum og skerið strax í ferninga.

Gott er en ekki nauðsynlegt að sigta smá flórsykur yfir kökuna.

Berið fram volga eða kalda með þeyttum rjóma.