Mig langaði í appelsínukjúkling í hádeginu og af því að ég átti kjúklingabringu, appelsínumarmelaði og appelsínusafa ákvað ég að slá til og elda réttinn.
Ég tel mig vera nokkuð glúrna í að minnka uppskriftir, en í gær nennti ég því ekki og ákvað að gera frá grunni mína eigin uppskrift sem hentar fyrir einn. Hún heppnaðist það vel að ég ákvað að birta hana hérna.
Uppskriftin:
- 1 beinlaus kjúklingabringa, þerruð og skorin í tvennt langsum, og síðan í ca. 1,5 cm þykka strimla
- Blanda af 2 msk hveiti með salti og nýmöluðum svörtum pipar eftir smekk (ca. 1/2 tsk salt og 1/8 tsk pipar hentar vel)
- 1 msk steikingarolía eða -feiti (ég notaði ósaltað smjör)
- 1 skallottlaukur*, skorinn í tvennt langsum og síðan í mjóar ræmur þversum
- 1/4 rauð paprika, söxuð í ca. 0,5 cm bita (má nota meira eða minna eftir smekk eða sleppa alveg)
- Sósa: 1/4 bolli appelsínumarmelaði, 2 msk appelsínusafi**, 2 msk sojasósa og 1 msk hunang***, hrært vel saman
Olían/feitin hituð á pönnu. Á meðan er kjúklingabitunum velt upp úr hveitiblöndunni.
Laukurinn og paprikan sett á pönnuna og svissað þar til laukurinn er mjúkur (1-2 mínútur). Tekið af pönnunni. Hitinn lækkaður, kjúklingurinn settur á pönnuna og brúnaður við meðalhita.
Hitinn lækkaður og laukurinn og paprikan sett á pönnuna ásamt sósunni. Hrært vel saman. Mallað undir loki við lágan hita í 10 mínútur og 5 mínútur til viðbótar með lokið af til að þykkja sósuna. Ef bringan er mjög stór og þykk gæti þurft 5 mín suðu til viðbótar.
Sósan á ekki að vera mjög þykk. Gætið þess að hún getur brunnið auðveldlega út af hunanginu og sykrinum í marmelaðinu. Ef hún þykknar mikið áður en kjúklingurinn er gegnsoðinn má þynna hana með appelsínusafa. Ef hún aftur á móti er lapþunn þegar kjúklingurinn er gegnsoðinn má veiða kjúklingabitana upp úr henni og þykkja hana síðan með smá Maizena-mjöli eða ögn af kartöflumjöli sem er hrært út í vatni og síðan saman við sósuna og látið sjóða í ca. 1 mínútu. Smakkið til með salti og pipar ef þarf.
Borið fram með soðnum hrísgrjónum og salati.
Lærdómur og athugasemdir:
*Prófa blaðlauk eða vorlauk í staðinn fyrir skallottlauk.
**Appelsínubragðið er milt og gott, en til að fá meira kikk í sósuna mætti prófa að setja svolítið af rifnum appelsínuberki í hana til að fá meira appelsínubragð. Passa sig samt, því hún gæti orðið römm ef maður notar of mikið.
***Hunangið má ekki vera beiskt, því beiskjubragðið magnast við suðu og getur skilið eftir sig leiðinlegt eftirbragð, eins og ég lærði af biturri reynslu þegar ég var að prófa aðra uppskrift. Það var vottur af beyskju af sósunni, þannig að næst ætla ég að prófa pálmasykur eða púðursykur í staðinn fyrir hunang.