Skankinn er uppáhalds bitinn minn á lambalærinu. Því miður er hann líka uppáhald bróður míns, sem kann enga borðsiði og er búinn að skera skankavöðvann af lærinu ca. 1/2 sekúndu eftir að fatið snertir borðið og áður en nokkur annar er sestur. Því fæ ég sjaldnast að bragða á þessum uppáhaldsbita mínum þegar ég fer í sunnudagsmat til mömmu og pabba. En hvað um það, ég sé ekki eftir bitanum ofan í brósa - ég elda mér bara skanka heima í staðinn, og þá bara skanka.
Síðast gramsaði ég t.d. í frystikistunni þar til ég fann tvo skanka, annan af framparti og hinn af læri (lærisskankar eru seldir sem grillleggir í búðum, sem afsökun fyrir ca. 300% verðhækkun sem hefur orðið á þeim síðan í kringum kreppuna). Þeim stakk ég inn í ísskáp til að láta þá þiðna.
Þegar skankarnir voru þiðnaðir tók ég síðan fram Römertopf-pottinn minn, lagði hann í bleyti og tók til við að saxa lauk og papriku og fituhreinsa kjötið.
Þegar potturinn var tilbúinn setti ég í botninn lag af lauk, hvítlauk og papriku, skankana þar ofan á (kryddaða með salti, pipar, Galddrakryddi frá Pottgaldri og Aromati, lagði nokkrar beikonsneiðar ofan á kjötið og setti restina af lauknum og paprikunni ofan á. Þvínæst hellti ég í pottinn rest af hvítvíni sem ég átti í ísskápnum, ásamt vatni og smá slettu af sojasósu, setti lokið á og stakk inn í ofn. Tveimur tímum síðar var tilbúinn hinn ljúffengasti kjötréttur sem ég snæddi með heimatilbúinni kartöflumús.
Þessum rétti má breyta eftir því hvaða grænmeti er til í ísskápnum, t.d. hef ég gert hann með gulrótum og selleríi og ekki er verra að sjóða með litlar, nýjar kartöflur ca. síðasta klukkutímann eða svo. Laukur sem samsvarar ca. 1 heilum meðalstórum lauk er (finnst mér) nauðsyn, og líka mikið af hvítlauk. Ég hef líka notað niðursoðna, saxaða tómata með safa og öllu, sem gefur allt annað bragð (annar vökvi er þá minnkaður um ca. 1/2 bolla).
Það þarf ekki að nota Römertopf. Það er jafnvel hægt að elda þennan rétt í potti á eldavélinni eða í hægsuðupotti, en þá verður kjötið svolítið öðruvísi (mjög meyrt og mjúkt í pottinum - jafnvel maukað, þurrara í venjulegu ofnfati; það verður aftur á móti al dente í Römertopf).
Uppskriftin (hentar fyrir 2):
2 lambaskankar með beini, fituhreinsaðir
1/2 meðalstór gulur laukur, grófsaxaður
1/2 meðalstór rauðlaukur, grófsaxaður
1 kínverskur hvítlaukur (samsvarar ca. 4-5 rifjum af venjulegum hvítlauk), sneiddur
1 lítil paprika
1/4 bréf beikon (má sleppa, en gefur svolítið je ne sais qua-bragð)
ca. 2/3 bolli af hálfþurru hvítvíni (má nota rauðvín, en bragðið verður þá annað (en jafngott))
ca. 1 bolli af vatni (það má breyta hlutföllunum, t.d. hef ég notað tómt vín og tómt vatn, en finnst blanda koma best út)
sletta af sojasósu (má sleppa)
Römertopf-potturinn bleyttur eftir kúnstarinnar reglum (15 mínútur á kafi í vatni). Kjötið kryddað og sett í pottinn ásamt öllu hinu. Bakað undir loki í ca. 2 klukkustundir. Borið fram með kartöflumús og salati.