Trixið við að gera gott túnfisksalat er að:
a) nota réttan túnfisk. Stykkin ættu að vera eins heil og hægt er í dósinni og lítið af sundurtættum túnfisktrefjum sem líta út eins og hárflóki. Bragðið þarf líka að vera gott - ég keypti t.d. um daginn First Price túnfisk og endaði með að henda honum, enda var hann bæði loðinn og bragðlítill,
b) ná eins miklu af vökvanum úr fiskinum og hægt er svo að salatið verði ekki lapþunnt eða skilji sig jafnvel,
c) ná réttu hlutfalli af lauk og eggjum á móti túnfisknum,
d) nota krydd og
c) (mjög mikilvægt) að missa sig ekki alveg í majónesinu.
Svona bý ég til einfalt túnfisksalat:
- 1 dós af túnfiski í soði (ekki nota fisk í olíu, því þá kemur olíubragð af salatinu)
- 1 stórt harðsoðið egg
- 1/2 meðalstór rauðlaukur eða 1/4 gulur laukur (sá rauði er betri), eða 2 skallottlaukar
- majónes eftir smekk (giska á að ég noti ca 1/3 til 1/2 litla dós af Gunnars majónesi, eða samsvarandi af Bónus eða Heinz majónesi)
- Aromat-krydd
- hvítlauksduft
- svartur pipar, nýmalaður
Ég mæli með að nota túnfisk sem er í heilum stykkjum í dósinni en ekki vesældarlegar trefjar syndandi í soði.
Setjið ca. 2 msk af majónesi í skál. Kryddið með dassi af Aromati, hvítlauk og pipar og hrærið vel saman þar til majónesið er kekkjalaust. Smakkið til.
Takið harðsoðna eggið og sneiðið í eggjaskera, snúið um 90° og sneiðið þvert á fyrri sneiðinguna. Setjið í skálina með majónesinu og saxið eggið og hrærið því varlega saman við majónesið með gaffli þar til rauðan er runnin saman við majónesið og hvítan er í litlum bitum. Bætið við ögn af majónesi ef þarf.
Losið lokið af túnfiskdósinni og látið það liggja ofan á fiskinum í dósinni. Hvolfið dósinni yfir eldhúsvaskinum og látið soðið renna úr henni undan lokinu. Þegar það hættir að renna, haldið þá á dósinni með báðum höndum og þrýstið þéttingsfast með báðum þumalputtum á lokið til að kreista eins mikið af soðinu úr fiskinum og hægt er. Þetta er mikilvægt til að salatið verði ekki vatnskennt, og svo getur komið hlandbragð af því ef það fær að standa þegar það er of mikið soð saman við.
Brjótið upp bitana í dósinni í minni bita með gaffli og skellið saman við majónes-eggjablönduna. Hrærið saman með gafflinum og brjótið fiskbitana niður þar til engir bitar eru eftir, bara grófar flögur. Bætið við majónesi eftir þörfum til að auðvelda verkið.
Fínsaxið loks laukinn og hrærið saman við. Smakkið til með Aromati og kryddum. Berið fram með saltkexi eða sneiðum af snittubrauði. Gott er að láta salatið taka sig í 1-2 klukkutíma (í kæli) fyrir notkun. Þolir geymslu í kæli fram á næsta dag eða jafnvel lengur ef það hefur ekki staðið lengi við stofuhita.
Þetta salat er líka fyrirtaks fylling í lefsur eða tortillur, þá smurt á, rúllað upp og sneitt til að búa til snittur. Líka mjög fín fylling í bakaðar kartöflur.
Tilbrigði:
- notið maísbaunir í staðinn fyrir lauk
- Kjúkingasalat: notið maísbaunir í staðinn fyrir lauk, sleppið eggjunum og notið smátt saxaðan kjúkling í staðinn fyrir túnfisk