Eins og sagði frá í síðasta pistli á ég umtalsvert safn bóka sem á einhvern hátt fjalla um mat.
Margar þessara bóka eru
uppskriftasöfn, sum það sem ég vil kalla
matarbiblíur, þ.e. stór söfn alls konar uppskrifta úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum sem reyna að ná yfir allt svið matargerðar og vega á við vænt lambslæri. Ég á t.d. tvær hnausþykkar bandarískar biblíur (þar af tvær frá því á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar), og svo á ég auðvitað
Mat og drykk eftir Helgu Sigurðardóttur, sem ég er reyndar frekar lítið hrifin af (meira um það síðar). Mig vantar reyndar undirstöðuritin
The Joy of Cooking, Mastering the Art of French Cooking og
Matreiðslubók Nönnu en verð að viðurkenna að ég hef ekki saknað þeirra hingað til (auk þess að hafa aðgang að þeirri síðastnefndu í gegnum Snöru.is ef mig skyldi vanta eitthvað úr henni). Ein undirstöðubók sem mig langar reyndar mjög í er
Matarást Nönnu Rögnvaldardóttir (þó ég hafi að henni aðgang um Snöru), en ég tímdi bara ekki að kaupa hana í sínum tíma.
Svo á ég eitthvað af
litlum, sérhæfum uppskriftasöfnum, t.d. bækur sem eru bara um fiskrétti, kartöflur eða svepparétti, nú eða þá um tiltekna þjóðlega matargerð, t.d. kreólauppskriftir frá New Orleans, skandinavískar, thailenskar eða mexíkanskar uppskriftir.
Aðrar eru það sem mætti kalla
matargerðarbækur, þ.e. bækur sem eru aðallega kennslubækur í matargerð með uppskriftum sem eiga að þjálfa mann í að nota aðferðinar, t.d.
Stóra matreiðslubók Iðunnar og sérhæfðar bækur um t.d. brauðbakstur, líkjöragerð og kökuskreytingar.
Þarna undir falla líka bækur sem er ætlað að fræða mann um matargerð tiltekinna heimshluta, þjóða eða þjóðarbrota þar sem uppskriftirnar eru aðallega til glöggvunar og til að gefa manni smá forsmekk. Þarna undir falla t.d. hinar hlussustóru og þungu
Culinaria-bækur, en af þeim á ég þrjár og langar í fleiri.
Mitt á milli þess að vera uppskriftasöfn og matargerðarbækur má telja bækur sem ég á um alls konar erlenda matargerð þar sem kennt er að nota ýmsar aðferðir og fjallað um matarhefð landanna en með stærra hlutfalli uppskrifta en matargerðarbækurnar. Þar má t.d. telja bækur um indverska, portúgalska, franska, gríska og thailenska matargerð.
Fjær efninu en samt tengdar eru
matarbækurnar sem ég vil kalla svo. Þetta eru bækur sem fjalla algerlega eða næstum alveg um mat og/eða matargerð og/eða matmenn og/eða matreiðslumenn, en innihalda engar eða fáar uppskriftir.
Þar má t.d. telja
Lífeðlisfræði bragðlaukanna (
Physiologie du goût) eftir franska sælkerann og matmanninn Brillat-Savarin, ferða- og minningabækur Anthony Bourdain, ritgerðasöfn bandaríska matarblaðamannsins Jeffrey Steingarten, æviminningar veitingahúsagagnrýnandans Ruth Reichl, eina af matarminningabókum M.F.K. Fischer og matarsagnfræði ýmiskonar. Þar má fremsta telja
The Raj at Table eftir David Burton, en hún fjallar um ensk-indverska matargerð frá þeim tíma þegar Bretar réðu ríkjum á Indlandi og inniheldur m.a. frábæra uppskrift að
kedgeree sem ég hef ætlað mér að birta hérna síðar meir.
Svo á ég, í stóru skáldsagnasafni mínu, einhvern slatta af bókum, aðallega glæpasögum, sem að einhverju leiti snúast um mat og innihalda einhverjar uppskriftir, en ég tel þær varla með því ég hef aldrei freistast til að prófa svo mikið sem eina uppskrift úr neinni þeirra. Reyndar hef ég eldað steikta græna tómata eftir uppskrift í bók Fannie Flagg með sama titli, en sú er nú líka talsvert meira en bara glæpasaga. Stundum rekst ég líka á umfjöllun um spennandi rétti í skáldsögum eða ferðasögum, t.d. í bókum Frances Mayes um Toskana á Ítalíu og bókum eftir bandaríska rithöfundinn Jennifer Crusie.
Síðast en ekki síst má nefna stoðefnið, þ.e. bækur um innihaldsefni (t.d.
Sveppabókina) og næringarefnatöflur, framreiðslubækur (t.d.
Val og venjur í mat og drykk), veitingahúsaorðabækur og matarorðabækur á ýmsum tungumálum. Þetta eru aðallega forvitnilegar bækur, en hafa stundum komið sér vel.
Ég hef ætlað mér að kynna hérna þær af matreiðslubókunum mínum sem mér finnast gagnlegastar og birta síðan eina eða fleiri uppskriftir úr þeim sem ég hef prófað. Þó að ég kalli þetta
matreiðslubók vikunnar, þá er ekki endilega víst að þetta verði vikulegur pistill, en ég ætla þó að reyna að birta alla þessa matreiðslubókapistla og -umsagnir á sunnudögum, og eina eða fleiri uppskriftir úr hverri bók í vikunni á eftir.