07 maí, 2011

Bananabrauð

Hér er ein einföld og góð. Þetta bananabrauð verður alveg hæfilega þétt, ekki of sætt og með góðu en ekki yfirþyrmandi bananabragði. Ég fann hana í matreiðslubók sem ég er búin að losa mig við, og því verður ekki fjallað nánar um hana hér.

Efni:
  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. matarsódi
  • 3 vel þroskaðir bananar. Þeir verða að vera orðnir að minnsta kosti 50% svartir til að brauðið verði gott.
  • 2 egg
  • 3/4 bolli grófsaxaðar hnetur (má sleppa). Ég hef prófað valhnetur, pekanhnetur og kajsúhnetur, og þær komu allar vel út, pekanhneturnar þó einna best.
  • 1/2 bolli súkkulaðispænir (má sleppa). Þetta nota ég bara í spariútgáfuna.
Aðferð:
Blandið saman þurrefnunum. Flysjið bananana og stappið þá vel. Hrærið eggin í hrærivél þar til þau byrja að freyða. Setjið bananana út í og blandið vel. Bætið þurrefnablöndunni smám saman út í og blandið vel saman. Endið á hnetunum og/eða súkkulaðinu, ef notað. Hættið að hræra um leið og búið er að blanda öllu saman.

Hellið í smurt formkökuform (ég mæli með að kaupa sílikonform, það þarf ekki einu sinni að smyrja þau, og það brúnast allt svo fallega sem er bakað í þeim) og bakið við meðalhita í um 1 klst. 175 °C henta fyrir venjulegan ofn, en í blástursofninum mínum rís hún of mikið í miðjunni á þessum hita og því baka ég hana við 160 °C í 70 mín. Prófið með prjóni eftir klukkustund og ef hann kemur út klístraður, bætið þá við 10 mín. og prófið þá aftur.

Berið fram með smjöri. Mér finnst líka gott að fá mér ost á þetta brauð.

06 maí, 2011

Kartöflueggjakaka

Hér er önnur eggjakaka, en þessi er elduð á pönnu. Þetta er mín eigin uppskrift. Dugir í máltíð fyrir einn eða létta máltíð fyrir 2 ef bætt er við t.d. brauði eða salati.

1 bökunarkartafla (ca. 200 gr.), skorin í þunnar sneiðar (helst með hýði)
2 egg
1/4 til 1/2 laukur, frekar fínt saxaður
1/2 msk. olía til steikingar
Salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
Smá Aromat (má sleppa)
Önnur krydd eða kryddjurtir sem þér finnst fara vel með kartöflum (t.d. Gott á Allt eða Eðalkrydd frá Pottgaldri)

Léttþeytið saman eggin, kryddin, saltið og laukinn.

Hitið olíuna á eggjakökupönnu eða lítilli steikarpönnu með hallandi hliðum. Steikið kartöflusneiðarnar við meðalhita þar til þær eru gegnsteiktar en ekki brúnaðar. Þegar brúnirnar á sneiðunum byrja að brúnast er eggjahrærunni hellt yfir kartöflurnar. Látið eldast í um 30 sek. og rennið þá varlega spaða undir kartöflusneiðarnar svo að eggjahræran renni undir þær. Gerið þetta frá 2-3 hliðum þannig að hræran renni alveg undir kartöflurnar. Þegar yfirborð eggjahrærunnar er hætt að renna til þegar pönnunni er hallað er eggjakökunni rennt varlega yfir á disk. Ef þú vilt hafa eggjakökur létteldaðar er hún borin þannig fram.

Ef óskað er eftir meiri eldun er olíu sem kann að vera á pönnunni hellt af henni og henni hvolft yfir eggjakökuna og öllu saman svo snúið við þannig að eggjakakan lendir á hvolfi í pönnunni, og eldað áfram í 1-2 mín. Ef pannan er með málmhandfangi má einnig skella henni inn í 160 °C heitan ofn og klára eggjakökuna í ofninum.

05 maí, 2011

Bökuð eggjakaka, grunnuppskrift með tilbrigðum

Önnur af mínum uppskriftum, sem ég nota aðallega til að nýta afganga.

Fyrir 2,

Grunnuppskrift:
2 stór eða 3 lítil egg
1/4-1/2 laukur, saxaður
salt og pipar, hvítlaukur
rifinn ostur

Til viðbótar:
  • 3 kartöflur, skífaðar eða skornar í teninga (ef þær eru soðnar, þá styttist eldunartíminn aðeins), eða
  • Beikonhakk, eða
  • Hangikjöt (það er mjööööög gott!), eða
  • Kjúklingakjöt (eldað) , eða
  • Steikt hakk, eða
  • Afganginn af sunnudagssteikinni, eða
  • Rækjur, eða
  • Allskonar grænmeti, t.d. paprika, maísbaunir, graslaukur
Aðferð:
Eggin hrærð saman, lauk og viðbótarinnihaldi blandað saman við, ásamt salti og pipar. Hellt í lítið ofnfast mót (smurt) og rifnum osti stráð yfir. Bakað undir loki við 175 °C í ca. 30 mínútur, eða þar til eggjahræran er soðin í gegn. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er lokið tekið af til að osturinn nái að brúnast aðeins.

Gott heitt með fersku salati og brauði, eða kalt með salsa-sósu og salati.Líka er gott að borða rifsberjasultu með eggjakökunni, sérstaklega ef um kartöflueggjaköku er að ræða.

04 maí, 2011

Ódýr og fljótlegur baunaréttur

Þá er loksins komið að uppskriftunum. Þennan rétt fann ég upp þegar ég var nýútskrifuð úr Ferðamálaskólanum og var að leita mér að vinnu sem hæfði menntun minni. Á meðan vann ég í heimilishjálp hjá Reykjavíkurborg og þurfti að lifa á þeim svívirðilegu lágmarkslaunum sem þar voru greidd. Þá fann ég upp þennan rétt, sem er ódýr og seðjandi og dugði mér í tvær máltíðir. Ég borðaði yfirleitt annan skammtinn með brauði og hinn sem fyllingu í tortillur eða taco-skeljar.

Fyrir 2.

Efni:
1 dós af nýrnabaunum eða nýrnabaunum með chili, með vökvanum
1 meðalstór laukur, þunnt sneiddur
2 eða fleiri hvítlauksrif, söxuð eða kramin
1 lítil rauð eða græn paprika, skorin í litla bita
100 gr. beikonhakk eða beikonsneiðar, skornar í litla bita
Tómatsósa eða tómatmauk eftir smekk
Pipar og salt
saxaður rauður chilipipar eftir smekk (má sleppa, þarf minna ef chilibaunir eru notaðar)

Til viðbótar ef fjárhagurinn leyfir:
Pylsur, skornar í bita, eða
Nautahakk sem búið er að brúna á pönnu

Aðferð:
Setjið allt nema saltið, piparinn og chilipiparinn (og pylsurnar, ef þær eru til staðar) í pott og hitið upp að suðu. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp og bætið kryddinu og saltinu saman við. Mallið við lágan hita þar til sósan þykknar. Ef pylsur eru notaðar eru þær settar saman við ca. 5 mín. áður en rétturinn er borinn fram.

Ef nota á sem fyllingu í tortillur er rifnum osti stráð yfir heita fyllinguna þegar rétturinn er borinn fram.
Til að gera fyllingu fyrir taco-skeljar er bætt við sýrðum rjóma, rifnu kínakáli, söxuðum tómötum og rifnum osti.

03 maí, 2011

Matreiðslubókasafnið mitt

Eins og sagði frá í síðasta pistli á ég umtalsvert safn bóka sem á einhvern hátt fjalla um mat.

Margar þessara bóka eru uppskriftasöfn, sum það sem ég vil kalla matarbiblíur, þ.e. stór söfn alls konar uppskrifta úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum sem reyna að ná yfir allt svið matargerðar og vega á við vænt lambslæri. Ég á t.d. tvær hnausþykkar bandarískar biblíur (þar af tvær frá því á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar), og svo á ég auðvitað Mat og drykk eftir Helgu Sigurðardóttur, sem ég er reyndar frekar lítið hrifin af (meira um það síðar). Mig vantar reyndar undirstöðuritin The Joy of Cooking, Mastering the Art of French Cooking og Matreiðslubók Nönnu en verð að viðurkenna að ég hef ekki saknað þeirra hingað til (auk þess að hafa aðgang að þeirri síðastnefndu í gegnum Snöru.is ef mig skyldi vanta eitthvað úr henni). Ein undirstöðubók sem mig langar reyndar mjög í er Matarást Nönnu Rögnvaldardóttir (þó ég hafi að henni aðgang um Snöru), en ég tímdi bara ekki að kaupa hana í sínum tíma.

Svo á ég eitthvað af litlum, sérhæfum uppskriftasöfnum, t.d. bækur sem eru bara um fiskrétti, kartöflur eða svepparétti, nú eða þá um tiltekna þjóðlega matargerð, t.d. kreólauppskriftir frá New Orleans, skandinavískar, thailenskar eða mexíkanskar uppskriftir.

Aðrar eru það sem mætti kalla matargerðarbækur, þ.e. bækur sem eru aðallega kennslubækur í matargerð með uppskriftum sem eiga að þjálfa mann í að nota aðferðinar, t.d. Stóra matreiðslubók Iðunnar og sérhæfðar bækur um t.d. brauðbakstur, líkjöragerð og kökuskreytingar.

Þarna undir falla líka bækur sem er ætlað að fræða mann um matargerð tiltekinna heimshluta, þjóða eða þjóðarbrota þar sem uppskriftirnar eru aðallega til glöggvunar og til að gefa manni smá forsmekk. Þarna undir falla t.d. hinar hlussustóru og þungu Culinaria-bækur, en af þeim á ég þrjár og langar í fleiri.

Mitt á milli þess að vera uppskriftasöfn og matargerðarbækur má telja bækur sem ég á um alls konar erlenda matargerð þar sem kennt er að nota ýmsar aðferðir og fjallað um matarhefð landanna en með stærra hlutfalli uppskrifta en matargerðarbækurnar. Þar má t.d. telja bækur um indverska, portúgalska, franska, gríska og thailenska matargerð.

Fjær efninu en samt tengdar eru matarbækurnar sem ég vil kalla svo. Þetta eru bækur sem fjalla algerlega eða næstum alveg um mat og/eða matargerð og/eða matmenn og/eða matreiðslumenn, en innihalda engar eða fáar uppskriftir.

Þar má t.d. telja Lífeðlisfræði bragðlaukanna (Physiologie du goût) eftir franska sælkerann og matmanninn Brillat-Savarin, ferða- og minningabækur Anthony Bourdain, ritgerðasöfn bandaríska matarblaðamannsins Jeffrey Steingarten, æviminningar veitingahúsagagnrýnandans Ruth Reichl, eina af matarminningabókum M.F.K. Fischer og matarsagnfræði ýmiskonar. Þar má fremsta telja The Raj at Table eftir David Burton, en hún fjallar um ensk-indverska matargerð frá þeim tíma þegar Bretar réðu ríkjum á Indlandi og inniheldur m.a. frábæra uppskrift að kedgeree sem ég hef ætlað mér að birta hérna síðar meir.

Svo á ég, í stóru skáldsagnasafni mínu, einhvern slatta af bókum, aðallega glæpasögum, sem að einhverju leiti snúast um mat og innihalda einhverjar uppskriftir, en ég tel þær varla með því ég hef aldrei freistast til að prófa svo mikið sem eina uppskrift úr neinni þeirra. Reyndar hef ég eldað steikta græna tómata eftir uppskrift í bók Fannie Flagg með sama titli, en sú er nú líka talsvert meira en bara glæpasaga. Stundum rekst ég líka á umfjöllun um spennandi rétti í skáldsögum eða ferðasögum, t.d. í bókum Frances Mayes um Toskana á Ítalíu og bókum eftir bandaríska rithöfundinn Jennifer Crusie.


Síðast en ekki síst má nefna stoðefnið, þ.e. bækur um innihaldsefni (t.d. Sveppabókina) og næringarefnatöflur, framreiðslubækur (t.d. Val og venjur í mat og drykk), veitingahúsaorðabækur og matarorðabækur á ýmsum tungumálum. Þetta eru aðallega forvitnilegar bækur, en hafa stundum komið sér vel.

Ég hef ætlað mér að kynna hérna þær af matreiðslubókunum mínum sem mér finnast gagnlegastar og birta síðan eina eða fleiri uppskriftir úr þeim sem ég hef prófað. Þó að ég kalli þetta matreiðslubók vikunnar, þá er ekki endilega víst að þetta verði vikulegur pistill, en ég ætla þó að reyna að birta alla þessa matreiðslubókapistla og -umsagnir á sunnudögum, og eina eða fleiri uppskriftir úr hverri bók í vikunni á eftir.

01 maí, 2011

Óumflýjanlegur inngangur og kynning á bloggi og bloggara

Sæl og velkomin á enn eitt bloggið (með uppskriftum). Hver bloggar og um hvað skal fjalla?

Kallið mig bara Matgæðinginn. Ég er áhugamanneskja um matargerð sem á vaxandi safn uppskrifta - sem stendur í kringum 170 matreiðslubækur, kassa af matreiðslutímaritum, fjórar möppur og tvo skókassa fulla af bæklingum og úrklippum með uppskriftum, auk ótaldra megabæta af uppskriftum sem eru vistaðar á heimilistölvunni.

Dag einn stóð ég fyrir framan bókaskápinn sem hýsir bækurnar og var að velta fyrir mér hvar væri best að byrja leitina að tiltekinni uppskrift, þegar upp í huga minn skaut þessari spurningu:

Hvað skal til bragðs taka þegar matreiðslubókasafnið er orðið svo stórt að það tæki mann næstu 40 til 50 árin að elda allar uppskriftirnar, miðað við að elda einn rétt á dag, og safnið í tölvunni er þannig að það tæki mann meira en 200 ár að elda allar uppskriftirnar?

Svarið var að ég er ósköp hrædd um að mér takist það aldrei, því að oft eru bara nokkrar uppskriftir í hverri bók sem mig langar raunverulega að elda. En málið með matreiðslubækur er auðvitað ekki að maður eldi hverja einustu uppskrift, heldur að bækurnar komi manni að gagni við að velja skemmtilegar og góðar uppskriftir sem henta hverju tækifæri. Mig langar samt að nota bækurnar meira, og ef til vill verður þetta blogg mér hvatning til að prófa fleiri uppskriftir úr safninu í stað þess að elda alltaf sömu gömlu réttina (þó að þeir standi auðvitað alltaf fyrir sínu).

Vegna þessa áhugamáls míns er ég þekkt sem matgæðingur á meðan vina, vandamanna og vinnufélaga og er oft spurð um tilteknar uppskriftir sem fólk hefur annað hvort smakkað hjá mér eða hefur grun um að ég þekki. Því ákvað ég að koma upp þessu bloggi til að birta uppskriftir á. Með tíð og tíma er ætlunin að þetta verði rafræn útgáfa af handskrifuðu uppskriftabókinni minni sem ég hef verið allt of löt við að færa inn uppskriftir í (enda er rithöndin mín ófögur).

Ég er þegar með tvö matarblogg í gangi, bæði á ensku. Annað fjallar um íslenska matargerð og hitt er svipað og þetta á að verða, þ.e. safn uppskrifta sem ég hef prófað eða langar til að prófa. Til að byrja með munu reyndar uppskriftirnar hérna aðallega verða uppskriftir sem ég hef þegar birt þar, í bland við nýjar uppskriftir. Ég hef ætlað mér að birta bara hérna uppskriftir sem ég hef prófað, með myndum af réttunum og jafnvel af undirbúningnum, ásamt öðru skemmtilegu efni um mat og tengjum á aðrar uppskriftasíður.