25 september, 2016
Einfalt tætt svínakjöt ("pulled pork")
Svona nota ég afgang af svínarifjasteik.
Mælt er með að nota svínahnakka í þennan rétt þegar hann er útbúinn frá grunni því að hann er hæfilega feitur til að kjötið verði ekki of þurrt. Í Bandaríkjunum er hefð fyrir að elda þennan rétt í hægsuðupotti (slow cooker, stundum nefndir Crock-Pot eftir algengasta vörumerkinu), en ég á ekki svoleiðis og nota því venjulegan pott og elda á lægsta hita.
Afgangi af svínarifjasteik (mínus pöru en með fitu) er skipt niður í hæfilega stóra bita til að kjötið púslist sem best í botninn á þykkbotna potti. Vatni er hellt yfir þannig að fljóti yfir kjötið, bætt við 2-3 msk. af eplaediki og 1/4 til 1/3 bolla af barbekjú-sósu (BBQ) ásamt ögn af salti og söxuðum hvítlauk eða hvítlauksdufti. Suðan látin koma upp og látið malla á lægsta straum í klukkutíma undir loki.
Kjötið fiskað upp úr sósunni (sem ætti að vera byrjuð að þykkna), og tætt í sundur með tveimur göfflum og bein fjarlægð ef einhver eru. (Ef það gengur illa að tæta er kjötið sett aftur í pottinn og soðið í hálftíma til viðbótar). Kjötið sett aftur í pottinn og látið malla loklaust þangað til sósan er orðin þykk. Gott að hræra í af og til svo að brenni ekki við. Smakkað til með salti og pipar.
Mér finnst gott að setja saman við smá slettu af Tabasco-sósu (líka seld sem Hot Sauce), og sojasósu eða Worchestershire-sósu, og mala ögn af svörtum pipar yfir í lokin.
Kásunni er síðan skammtað í volg hamborgarabrauð og borin fram.
Það er hægt að bera alls konar meðlæti með þessu eða troða því með í brauðið. Margar hamborgarafyllingar passa mjög vel, t.d. spælt egg, tómatsneiðar og kál. Sumir vilja setja hrásalat (coleslaw) ofan á, en mér finnst hins vegar gott að sykurbrúna lauk* og hafa með.
*Sykurbrúnaður laukur:
Skerið gulan lauk í tvennt og skiptið öðrum helmingnum í tvennt. Sneiðið fjórðungana tvo niður í ca. 1/2 cm þykkar sneiðar og svissið í bræddu smjöri á pönnu þar til laukurinn er mjúkur og aðeins byrjaður að brúnast. Lækkið hitann, bætið við ögn af salti og stráið sykri yfir. Leyfið sykrinum að bráðna og hrærsteikið síðan þar til laukurinn fær á sig gullinbrúnan lit. Skellið heitu ofan á svínakjötsmaukið og berið fram.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)