29 júlí, 2012

Naflakökur með hindberjasultu

Þessar glæsilegu smákökur eru gómsætar og auðvelt að búa þær til. Þær eru gerðar úr shortbread-deigi, sem er tegund af smjördeigi. Þær eru þéttar í sér og molna svolítið þegar bitið er í þær og áferðin er örlítið sendin. Kökurnar hafa milt möndlubragð sem fer vel við sultuna.

Magn: ca. 30 smákökur

Bökunartími: 14-18 mínútur
Kólnunartími: 60 mínútur

Í deigið:
1 bolli smjör, mjúkt
2/3 bolli sykur
1/2 tsk. möndludropar
2 bollar hveiti

Ofan á:
1/2 bolli hindberjasulta

Kremið:
1 bolli flórsykur
1 1/2 tsk. möndludropar
2-3 tsk. vatn

Þeytið saman smjör, sykur og möndludropa á meðalhraða þar til létt og ljóst. Skafið skálina oft til að vera viss um að allt blandist mjög vel. Setjið hrærarann í og hrærið á litlum hraða og bætið hveitinu saman við smjörhræruna og blandið vel. Setjið deigið í lokað ílát og kælið í a.m.k. 1 klst.

Hitið ofninn í 175 °C. Mótið kúlur úr deiginu, ca. 2,5 cm í þvermál. Leggið kúlurnar á ósmurða bökunarplötu með ca. 5 cm millibili. Þrýstið þumarputtanum niður í miðjuna á hverri kúlu til að fletja kúlurnar og gera holur í þær miðjar (það gerir ekki til þó að sprungur komi í brúnirnar á holunum). Setjið um 1/4 tsk. af sultu í hverja holu.

Bakið í 14 til 18 mín. eða þar til brúnirnar á kökunum eru ljósbrúnar. Takið úr ofninum og látið standa í 1 mín. og fjarlægið þá af plötunni og setjið á grind til að kólna. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Hrærið saman flórsykrinum, möndludropunum og vatninu með handþeytara þar til mjúkt og samfellt. Best er að hafa kremið nokkuð þykkt en samt fljótandi. Setjið í sprautupoka með pínulitlum stút eða búið til kramarhús og dreypið kreminu í taumum yfir smákökurnar.