Mér þykja steikarsamlokur góðar og elda mér stundum svoleiðis. Þó að ég borði þær með bestu lyst á veitingahúsum með bernaise-sósu, þá kýs ég að hafa hana ekki með þær þegar ég elda steikarsamloku heima hjá mér, heldur bý ég til soðsósu sem ég nota í staðinn og er talsvert hollari en bernaise.
Nokkurskonar uppskrift:
Ég giska á að ég noti, per mann, svona 80-100 grömm af nautakjöti, eina litla bagettu, ca. hálfan lauk og 3-4 tómatsneiðar. Stundum steiki ég líka sveppi til að hafa með. Annað sem ég nota er vatn, smjör, Worchestershire-sósa, Tabasco-sósa eða Hot Sauce (stundum líka sojasósa), salt, Aromat, hvítlaukur og pipar, og stundum líka Season-all eða kjöt- og grill-krydd til tilbreytingar. Það getur líka verið gott, ef maður er í þannig skapi, að bæta við nokkrum sneiðum af steiktu beikoni og/eða osti og/eða lambhagasalati/kínakáli.
Maður byrjar á að sneiða nautakjötið og laukinn þunnt. Þetta þarf ekki að vera dýrt kjöt, má allt eins vera gúllasbitar, því það er eldað í gegn og því má láta það sjóða eins lengi og þarf til að fá það meyrt.
Klípa af smjöri er brædd á pönnu og hún hituð upp í steikingarhita. Laukurinn er svissaður þangað til hann fer að brúnast, þá tekinn af og settur til hliðar. Meira smjör sett á pönnuna, brætt og kjötið steikt í því.
Þegar kjötið er brúnað er það kryddað með salti, pipar, hvítlauk og Aromati, og kryddblöndu ef hún er notuð. Því næst er kjötið vökvað með Worchestershire-sósu – það þarf bara smá slurk – og Tabasco eða Hot Sauce eftir smekk og henni hrært vel saman við. Loks er smá vatni skellt á pönnuna og látið sjóða aðeins niður, en ekki svo mjög að allur vökvi hverfi. Soðsósan á að vera dökk og frekar þunn. Í lokin má smakka til með sojasósu ef þörf þykir.
Lauknum er því næst skellt saman við og hann hitaður í gegn (samlokan verður samt snyrtilegri ef laukurinn er hitaður sér og látinn ofan á kjötið í samlokuna). Nú er bagettan klofin að endilöngu og látin hanga saman á skorpunni á annarri langhliðinni og lögð opin á disk. Kjötinu og lauknum er dreift jafnt yfir aðra hliðina og soði dreypt yfir báðar hliðar eftir smekk. Skreytt með tómatsneiðum, lokað og neglt saman með kokkteilpinnum eða tannstönglum og borið fram volgt.
Tilbrigði:
Ég rakst nýlega á uppskrift þar sem í staðinn fyrir sósu sem er hellt yfir er búin til sósa úr sinnepi og majónesi og því smurt nett á skurðflötinn á brauðinu. Ég held svei mér þá að ég prófi það næst.