Þessi súpa verður gullin á litinn en getur líka orðið grænleit eða jafnvel appelsínugul, allt eftir því hvaða blanda af grænmeti er notuð. Þetta er mín eigin uppskrift og ætti að duga tveimur í máltíð (með brauði) eða í forrétt fyrir 3-4. Þetta er svokölluð eldhúsvasks- eða ískápsuppskrift, því maður notar í hana það grænmeti sem maður á til.
Ég átti reyndar ekkert grænmeti þegar ég mallaði henni saman fyrst (uppgefin uppskrift) og mér þykir hún alltaf best þannig, en það er líka gott að bæta 1-2 söxuðum gulrótum við uppskriftina, sneiddum púrrulauk, sellerístöng í sneiðum, hnúðkáli í bitum og jafnvel saxaðri papriku. Bragðið breytist auðvitað svolítið eftir því hvaða grænmeti er notað.
En sem sagt, hvítbaunasúpa a la moi, grunnuppskrift:
1 bréf beikon, hver sneið skorin í 5-6 bita, eða bréf af beikonkurli og 3-4 sneiðar af beikoni til skrauts, skornar eins og getur að framan
--
1/2 laukur, skorinn í tvennt og sneiddur þunnt
3-4 meðalstórar kartöflur, skrældar og skornar í 8 bita hver
--
1 dós smjörbaunir eða hvítbaunir (cannelini), soðinu hellt frá og baunirnar skolaðar úr köldu vatni
1 lítri vatn
grænmetiskraftur eftir smekk
Aromat (ef vill, eykur fyllingu í bragðinu)
salt og pipar
Súpupottur hitaður og beikonið steikt í honum því þar til það er að verða gegnsteikt en ekki hart og fitan er farin að renna. Ef notað er kurl og sneiðar eru sneiðarnar teknar úr pottinum og lagðar til hliðar (það er ágætt að steikja þær heilar og klippa svo niður í pottinn þegar þar að kemur). Ef eftir er meiri fita en ca. 2 msk er umframfitunni hellt frá. Ef hún er minni er bætt við smá klípu af smjöri.
Laukurinn svissaður í fitunni þar til hann er glær og aðeins byrjaður að brúnast. Kartöflunum bætt út í og steiktar þar til þær byrja að brúnast á brúnunum. Vatnið sett út í ásamt baunum og grænmetiskrafti (gott að miða magnið á honum við 1/2 lítra af vatni miðað við leiðbeiningar á umbúðunum og bæta frekar meiru við undir lokin, því grænmetiskraftur er misjafnlega sterkur (og saltur)). Suðan látin koma upp og látið malla í 20 mínútur undir loki.
Að 20 mín liðnum er tekin ausa og veidd upp af botninum ausufylli af beikoni, kartöflum og baunum og tekið til hliðar. Þvínæst er afgangurinn af súpunni maukaður. Best er að nota töfrasprota og gera það beint í pottinum, en líka má hella henni í matvinnsluvél. Síðan er súpan sem tekin var til hliðar sett saman við aftur ásamt beikoninu sem var tekið til hliðar í upphafi. (Það má auðvitað mauka súpuna alla, en mér finnst hún a.m.k. meira spennandi og fallegri svona). Látið malla í 15 mínútur til viðbótar með lokið af.
Smakkað til með salti, pipar og Aromati. Flott að skreyta með einhverju grænu áður en er borið fram, t.d. graslauk eða steinselju, eða þá með fínt saxaðri rauðri eða grænni papriku. Gott með grófu brauði.
24 mars, 2014
02 febrúar, 2014
Kúbönsk svartbaunasúpa
Athugið að hún er þannig gerð að hún er best þegar allt er komið saman, þ.e. súpan og ofanálætið.
Fyrir 8 eða fleiri
Í súpuna:
500 g þurrkaðar svartar baunir
-
1 meðalstór laukur, fínsaxaður
1 græn paprika, fínsöxuð
3 hvítlauksrif, maukuð
1 reyktur svínaskanki (hefur fengist í Bónus); líka má nota skinkubein, t.d. innan úr hamborgarahrygg**
1/2 bolli ólífuolía
Salt og nýmalaður svartur pipar
-
1/3 bolli edik eða eplaedik
Ofan á:
Sýrður rjómi
Saxaður hrár laukur
Söxuð rauð paprika
Takið baunirnar ca. hálfum sólarhring áður en byrja á að sjóða súpuna og fjarlægið stöngulbrot, steina og baunir sem eru brotnar eða skrælnaðar. Setjið í stóran pott (2 lítra eða stærri) með loki og hellið nægu köldu vatni yfir þær til að fljóti yfir ca. 2-3 cm. Látið liggja í bleyti í ca. hálfan sólarhring, t.d. yfir nótt.
Þegar baunirnar hafa legið í bleyti nógu lengi er vatninu hellt af þeim og sett hreint vatn í pottinn þannig að fljóti yfir baunirnar ca. 2-3 cm. Hrærið saman við saxaða lauknum, paprikunni og hvítlauknum, hrærið ólífuolíunni saman við og setjið svínaskankann út í. Bætið við ca. 2 tsk af salti og slatta af pipar.
Látið suðuna koma upp við háan hita. Fleytið froðunni ofan af og lækkið hitan á minnsta hita sem þarf til að halda súpunni mallandi. Látið malla í 4 til 5 klukkutíma, þar til baunirnar eru mjög mjúkar og súpan er rjómakennd og hefur þykknað. Athugið eftir um 2 klst. Ef hún er orðin mjög þykk eða kássukennd skal bætt við bolla af vatni. Endanleg þykkt á að vera þannig að hún húðar bakið á skeið og áferðin á að vera flauelsmjúk og þykk.
(Baunirnar verða mjúkar á fyrstu tveimur tímunum. Restin af tímanum er til að hluti af baununum nái að brotna niður og þykkja súpuna. Ef þetta hefur ekki gerst eftir 5 tíma suðu, þá mæli ég með að fara með töfrasprota eða kartöflustappara í pottinn og mauka hluta af baununum, hræra upp í henni og láta malla í ca. hálftíma til viðbótar. Áferðin verður svipuð, en þó geta verið stöku flögur af baunahúð fljótandi í súpunni.)
Hrærið edikinu saman við undir lokin og látið malla í 15 mín. til viðbótar með pottinn opinn.
Ausið í skálar og stráið söxuðum hráum lauk og rauðri papriku yfir og setjið slettur af sýrðum rjóma ofan á.
-Hellið yfir soðin hrísgrjón til að gera súpuna matarmeiri og berið fram steikta mjölbanana** (plantain) sem meðlæti.
-Þessi uppskrift gerir mikið af súpu, en hún geymist vel í frysti.
*Kjötið er bara notað til að fá kraft í súpuna og er ekki borið fram með eða í henni og því má vel nota bein. Ef hins vegar er notað kjöt, þá er það, eftir svona langa suðu, hins vegar gómsætt og svo mjúkt að það er nánast orðið að kæfu. Ég nota það sem álegg á brauð.
**Steiktir mjölbananar (Plátanos Maduros)
- 1 vel þroskaður mjölbanani með svart hýði
- Repju- eða maísolía
- Ef vill: ferskt súraldin
Skrælið bananann og skáskerið í sneiðar, rúmlega 1 cm þykkar.
Setjið á pönnuna þegar vatnsdropi sem er látinn falla í olíuna sýður strax upp og steikið þar til sneiðarnar eru gullinbrúnar og snúið þá við.
Takið af pönnunni þegar báðar hliðar eru gullinbrúnar og brúnirnar eru karamellulitar og látið olíuna renna af þeim á pappírsþurrkum. Þerrið burt umframolíu.
Berið fram heitt.
Ef vill má kreista yfir ögn af súraldinsafa.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)