16 október, 2011

Engifermjólk

Fyrir 2.

Þessi engiferdrykkur er róandi fyrir magann og góður við vindverkjum og svefnleysi. Engiferrót er þekkt náttúrulyf og er m.a. notuð við bílveiki og sjóveiki.

2,5 dl (1 bolli) mjólk, léttmjólk eða undanrenna (ég hugsa að það megi vel nota sojamjólk eða möndlumjólk, en hef ekki prófað það)
Sykur eftir smekk (jafnvel þó að þú notir almennt ekki sykur þá mæli ég með að nota ögn af honum hér til að taka remmuna úr engiferbragðinu)
1,5 cm bútur af ferskri engiferrót, ca. eins þykk og þumalfingur, EÐA 1/2 tsk af engiferdufti. Ef engiferinn er frekar gamall og þurr getur þurft meira, og minna ef hann er mjög ferskur og bragðmikill.

Skrælið engiferrótina og rífið niður í pott. Bætið við mjólkinni. Ef notað er duft fer mjólkin fyrst í pottinn og engiferinn er hrærður saman við.

Látið suðuna koma upp og hellið mjólkinni í gegnum sigti eða tesíu beint ofan í könnu eða bolla, sykrið og drekkið.

Athugasemd:
Það er hægt að breyta engifermagninu eftir smekk, en ef það er notað of mikið af ferskum engifer getur mjólkin yst þegar hún sýður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.