06 ágúst, 2011

Eðalsamloka

Þessi samloka er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég fann út þessa samsetningu sjálf, en aðrir hafa eflaust uppgötvað hana eða eitthvað henni líkt á undan mér.

Fyrir 1.

Efni:
20 cm bútur af bagettubrauði, eða lítil bagetta, endarnir skornir af
Gunnars majónes
2 sneiðar af góðri skinku
2 sneiðar af Gouda-osti eða einhverju öðrum bragðgóðum osti
6 ræmur af beikoni, steiktar
4 tómatsneiðar
2 stórir sveppir, sneiddir og snöggsteiktir í smjöri

Kljúfið bagettuna að endilöngu en látið hana hanga saman á skorpunni öðru megin. Opnið hana og smyrjið þunnu lagi af majónesi á báða fletina. Raðið skinkunni, ostinum, tómatsneiðunum, beikoninu og sveppunum á hana, í þessari röð (sjá mynd).

Það þýðir ekkert að reyna að loka samlokunni, heldur mæli ég með að hún sé höfð opin og snædd eins og steikarsamloka, með hníf og gaffli.

Til að gera turnsamloku:
Teknar 6 sneiðar af franskbrauði og skorpurnar skornar af. Efri hliðin á þeirri neðstu er smurð þunnt með majónesi og svo báðar hliðarnar á næstu fjórum, jafnóðum og samlokunni er raðað saman. Lögin skiptast svona: brauðsneið, skinka, brauðsneið, ostur, brauðsneið, beikon, brauðsneið, sveppir, brauðsneið, tómatsneiðar, brauðsneið. Fest saman með tannstöngli í gegnum miðuna og ólífa ofan á, að hætti Dags.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.