09 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Steiktur fiskur með karrí og lauk eða eplum

Þetta er góður hversdagsréttur. Þetta eru í raun 2 uppskriftir sem eru eins nema að í annarri er laukur en hinni epli. Reyndar er ágætt að hafa bæði - þá er notað hálft epli á móti heilum meðalstórum lauk.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 2-3.

Efni:
400 g fiskflök (ég hef notað bæði ýsu og þorsk í þennan rétt, en sé ekkert því til fyrirstöðu að prófa t.d. steinbít eða löngu)
1/2 - 1 epli (t.d. Jonagold) EÐA 1 laukur
25 g smjör/smjörlíki
1/2 tsk milt karríduft
1/2 tsk salt

Aðferð:
Takið roðflett og beinhreinsuð fiskflök (roðflettið og beinhreinsið ef þarf) og skerið þversum í 3-4 bita.

Ef nota á epli, þá er það flysjað og rifið á grófu rifjárni.Ef nota á lauk er hann fínsaxaður.

Pannan er hituð á lægsta straumi og smjör(líkið) brætt á henni. Epli og/eða laukur sett á pönnuna og látið hitna í gegn. Karríduftinu hrært saman við og fiskinum raðað ofan á. Saltað. Látið eldast undir loki á minnsta straum í 10-15 mínútur (eftir því hvað fiskstykkin eru þykk). Borið fram á pönnunni.

Tillaga að meðlæti: soðnar kartöflur eða soðin hrísgrjón, ferskt salat og brauð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.