01 júlí, 2012

Fuglahreiður

Gómsæt lítil hreiður úr kransakökudeigi með smjörkremi, súkkulaðihjúp og fyllingu úr ávöxtum. Fínar til að ögra saumaklúbbnum.

Matreiðslubók: 100 fristende Konditorkager, útg. af Ugebladet.
Stærð uppskriftar: ca. 20 stk.
Tími: um 70 mínútur + kólnunartími fyrir smákökurnar

Kransakökuklattar:
200 gr. bökunar-möndlumassi (marsipan)
8 msk. sykur
2 eggjahvítur (geymið rauðurnar fyrir smjörkremið)

Rífuð möndlumassann með grófu rifjárni og hlandið helmingnum af sykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið hinum helmingun af sykrinum smám saman við á meðan þeytt er. Blandið eggjahvítunum smám saman út í möndlumassann og blandið saman í samfelldan massa.

Setjið kransakökudeigið í sprautupoka og búið til litlar kringlóttar kökur (skammtið í spíral - sjá næstu mynd) á bökunarpappír á bökunarplötu. Þvermálið ætti að vera um 4,5 cm og þykktin um 1,5 cm. Lyftir sér ekki í bakstri, þannig að það má vera stutt á milli þeirra. Bakið við 200 °C (180°C í blástursofni) í 12-15 mín, þar til ljósgullnar á lit. Takið pappírinn af plötunni með kökunum og látið á grind til að klattarnir kólni hraðar.

Smjörkrem:
1 dl. sykur
3 msk. vatn
2 eggjarauður
125 gr. smjör, mjúkt
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

Blandið saman sykri og vatni í potti og sjóðið varlega þar til hefur myndast glært síróp (látið þykkna aðeins, en forðist að brenna). Byrjið að þeyta eggjarauðurnar og látið sírópið leka í mjórri bunu saman við á meðan. Haldið áfram að þeyta þar til létt og ljóst. Setjið smjörið í hrærivélarskál og hrærið í vélinni og bætið eggjablöndunni smám saman út í þangað til komið er mjúkt krem.

Takið nú kransakökuklattana af pappírnum og smyrjið þunnu lagi af smjörkremi yfir hvern klatta. Setjið afganginn af kreminu í sprautupoka með litlum stút og sprautið hring meðfram ytra byrði allra klattanna. Kælið þar til kremið er hart.

Hjúpur:
125 gr. Síríus Konsúm súkkulaði eða dökkt hjúpsúkkulaði
2 msk. Palmín

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið Palmíninu saman við. Blandið vel saman. Dýfið efri partinum af hverjum klatta í súkkulaði þannig að hjúpurinn nái yfir smjörkremið. Kælið.

Fylling:
Niðursoðnir ávextir, blandaðir eða ein tegund, t.d. mandarínubátar eða apríkósur (eða ferskir plús niðursoðinn safi)
2 dl. safi af niðursoðnum ávöxtum
3 blöð af gelatíni

Hellið safanum frá ávöxtunum og geymið hann. Látið renna vel af ávöxtunum. Skerið í smærri bita ef þarf til að koma fyrir ofan í „hreiðrunum“. Skammtið 3-4 bitum í hvert „hreiður“, eða eins og nægir til að fylla það.

Bleytið gelatínið í smá vatni í 5 mín. Kreistið vatnið úr blöðunum og bræðið þau í potti yfir lágum hita með 2 msk. af safa af ávöxtunum. Hrærið hægt í með handþeytara. Bætið við afganginum af safanum og kælið í vatnsbaði (látið kalt vatn eða ísvatn í skál eða í vaskinn og dýfið botninum á pottinum ofan í) og hrærið stöðugt þar til blandan byrjar að þykkna. Takið þá matarpensil og penslið þunnu lagi af gelatíni yfir ávextina í hverju „hreiðri“. Kælið.

Best borið fram með kaffi, enda mjög sætt.


Hugmynd sem ég á eftir að prófa:
Búa „hreiðurbrúnina“ til úr deigi, sleppa smjörkreminu og húða „hreiðurbrúnina“ með súkkulaði. Fylla „hreiðrin“ með eggjabúðingi eða vanillubúðingi og skreyta með ferskum jarðarberjum eða ferskjusneiðum og gljá með þykku sykursírópi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.